Náttúruástandið er stríð allra gegn öllum. Þar er líf mannsins einmanalegt, dýrslegt og stutt. Því þurfum við ógurlegan konung, yfirgnæfandi valdboð, til þess að hafa stjórn á ágjörnu eðli mannsins. Slíkar voru hugmyndir 17. aldar heimspekingsins Thomas Hobbes um samfélagið.
Hér sést forsíðan á verkinu Levíatan frá árinu 1651, eftir enska heimspekinginn Thomas Hobbes (1588–1679). Myndin var teiknuð af franska teiknaranum Abraham Bosse eftir leiðsögn frá höfundi. Á miðri myndinni stendur allsráðandi konungur — Levíatan — með sverð og valdasprota, og krúnu á höfði, klæddur hringabrynju.

 

Hringabrynja Levíatans er gerð úr fólki, þegnum konungsvaldsins.

Þegar nánar er að gáð sést að hringabrynjan er gerð úr fólki, í líkingu við málverk Arcimboldos. Það er fólkið sem myndar konungsvaldið, og konungurinn gnæfir yfir borgaralegt samfélag. Til vinstri sjást tákn hins veraldlega valds: kastali, krúna, vopn, herfánar og orrustur. Til hægri standa tákn trúarlega valdsins: Kirkjur, biskupar, skilgreiningar heimspekinnar, og kirkjuþing sem útkljá ágreininga um trúarlegar kennisetningar. Efst á myndinni er latnesk tilvitnun í Jobsbók: „Enginn er hans maki á jörðu“, biblíska lýsingin á skrímslinu Levíatan.

 

Hvað var Hobbes eiginlega að hugsa með þessu myndmáli? Hver er Levíatan og hvert er eðli hans?

 

Á Englandi höfðu miðaldir einkennst í megindráttum af friðsamlegu samlífi kirkju og krúnu, en eftir siðaskiptin á 16. öld varð hinum veraldlegu valdhöfum landsins sífellt þyngra í skauti að nota trúarbrögð og kennisetningar kirkjunnar sem stoðir undir stjórnskipan landsins. Trúarbragðastyrjaldir geisuðu á meginlandinu í Þrjátíu ára stríðinu, en á Englandi varð stjórnun landsins sífellt erfiðari sökum þeirrar trúarlegu fjölbreytni sem þróast hafði í kjölfar siðaskiptanna.

 

Biblíska sæskrímslið Levíatan

Biblíska sæskrímslið Levíatan.

Borgarastyrjöld braust út 1641. Þar börðust forsvarsmenn konungs og ensku biskupakirkjunnar gegn hinum ýmsu trúarhópum mótmælenda. Hið gamla bandalag krúnu og altaris, sem hafði lengi staðið veikum fótum, leið undir lok. Það var við þessar aðstæður sem ýmsar undirstöðuhugmyndir Hobbes litu dagsins ljós. „Spekingurinn frá Malmesbury“ gaf út þekktasta verk sitt, Levíatan, þar sem hann setti fram ýmsar kenningar sem mynduðu eins konar heimspekilega réttlætingu á alræði konungsvaldsins. Hobbes vonaði að verkið myndi verða Karli II bretakonungi að skapi, en hann var þá í útlegð í Frakklandi eftir ósigur gegn Cromwell í orustunni við Worchester.

 

Thomas Hobbes, „spekingurinn frá Malmesbury“.

Hobbes var fróður í vísindum síns tíma, og var einn af ötulustu talsmönnum atómisma á 17. öld, þótt framlög hans til náttúruvísinda teljist almennt ekki sérlega merkileg. Hann var hins vegar einn merkasti stjórnspekingur 17. aldar, og er best þekktur fyrir bölsýni sína, sem birtist í þeirri mynd sem hann dró upp af náttúrulegu ástandi mannsins. Það einkenndist að hans mati af stríði allra gegn öllum, harðneskjulegum veruleika þar sem líf manna var „einmanalegt og fátæklegt, grimmt, dýrslegt og stutt.“

 

Lausnin sem Hobbes lagði til gegn slíku ástandi var sterkt, miðlægt alræði konungs. Hann var því hvorki lýðræðissinni né frjálslyndur í nútímaskilningi. Þó má finna mikilvægar hugmyndir í verkum hans sem frjálslyndari spekingar síðari tíma tóku upp á sína arma. Einna mikilvægasta framlag hans var róttæk einstaklingshyggja. Árum saman hafði hann reynt að skýra efnisheiminn út frá hegðun atóma og lagðist loks í að skýra samfélagsheiminn með einstaklinginn, hinn staka mann, sem höfuðviðmið.

 

Með þessu urðu mikilvæg þáttaskil í vestrænni stjórnspeki og raunverulegt rof frá hugmyndaheimi miðalda. Menn höfðu öldum saman litið á samfélagið sem eins konar guðdómlega fyrirskipað stigveldi. Hobbes hafnaði þessu alfarið og lagði þess í stað fram þá hugmynd að fyrir myndun samfélagsins hefði einstaklingurinn verið einn á báti í náttúrunni, í sífelldum átökum við aðra menn um yfirráð yfir takmörkuðum auðlindum. Í samfélagslausum heimi eru engin lög og einstaklingnum engar siðferðislegar skorður settar. Honum er frjálst að gera nákvæmlega það sem honum sýnist, enda óbundinn af hvers konar lögboði og reglum. Hobbes spyr hvað gæti fengið skynsaman mann til þess að fórna slíku frelsi og fallast á einhvers konar ríkisvald.

 

Karl II bretakonungur, 1653. Hobbes vonaði að Levíatan myndi vinna honum hylli konungs, en svo varð ekki.

Svar Hobbes höfðaði til ákveðinnar kenningar eða hugmyndar um mannseðlið sjálftog kynnti til sögunnar einfalt sálfræðilegt líkan til þess að útskýra mannlega hegðun. Menn stjórnuðust að hans mati af tveimur hvötum: leitinni að ánægju og óttanum við sársauka.

 

Í náttúrulegu ástandi, áður en samfélagið er orðið til, lifa menn í sífelldum ótta við aðra menn, sem geta skaðað þá, rænt þá eða drepið. Það er óttinn við slíka meðferð sem þokar manninum frá náttúruástandinu yfir í borgaralegt samfélagsskipulag grundvallað á eins konar samfélagssáttmála frjálsra manna. Menn fórna óheftu frelsi sínu, framselja sjálfsvald sitt til ríkis sem yfir þá gnæfir, og setja þannig á laggirnar kerfi bundið lögum og reglum, þar sem sérhver einstaklingur nýtur verndar ríkisvaldsins frá ágjörnu eðli nágranna sinna.

 

Samfélagið verður semsagt til án þess að höfðað sé til nokkura allsherjarmarkmiða.  Það á sér hvorki rætur í trúarlegum hugmyndum né sögulegri hefð. Það myndast og þróast, og byggir upp regluverk sitt, af því að skynsamir einstaklingar, með sína eigin hagsmuni fremst í huga, telja að þeim muni farnast best undir fyrirkomulagi þar sem sterkt ríkisvald tryggir friðinn. Þetta sterka ríkisvald er Levíatan, konungurinn ógurlegi sem fær vald sitt í gegnum skynsama hagsmunagæslu þegna sinna. Þar er snertipunkturinn við nútímann, og þótt alræðishyggja Hobbes eigi sér ekki marga fylgismenn í dag þá stendur Levíatan eftir sem eitt frumlegasta og merkilegasta stjórnspekirit nýaldar.