Hér sjáum við flottar ljósmyndir af kirkjunni og altaristöflu hennar á Stórólfshvoli við Hvolsvöll um aldamótin 1900. Vefur Rangárþings eystra segir frá Stórólfshvoli:
Á Stórólfshvoli átti Stórólfur, sonur Ketils hængs, að hafa búið til forna. Sonur hans Ormur var hetja mikil og segir frá honum í Orms þætti Stórólfssonar. Þátturinn greinir frá hinum ýmsu þrekvirkjum Orms, meðal annars þegar hann sló engið fyrir neðan Stórólfshvol. Hann sló þá af allar þúfur og færði saman í múga ,,og þær einar engjar eru sléttar af Stórólfhvoli.”
Á Stórólfshvoli bjuggu Oddaverjar á 14. öld og var þar síðar sýslumannssetur.
Í dag er þar timburkirkja frá árinu 1930. Hún tekur um 120 manns í sæti. Árið 1955 var kirkjan máluð og skreytt af þeim Grétu og Jóni Björnssyni. Kirkjan á marga góða gripi, þar á meðal altaristöflu málaða af Þórarni B. Þorlákssyni frá árinu 1914, þar sem Jesús blessar börnin.
Þeir sem luma á upplýsingum um það sem fyrir augu ber hér eru hvattir til að tjá sig.
Myndirnar tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell, sem ferðaðist til Íslands og Færeyja (Cornell University Library).
Howell var mikið á Íslandi á síðasta áratug nítjándu aldar og starfaði meðal annars sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðalanga. Hann gekk á Hvannadalshnúk árið 1891, hugsanlega fyrstur manna, og fór yfir Langjökul þveran 1899. En Howell drukknaði í Héraðsvötnum sumarið 1901 og var jarðaður að Miklabæ.
Lemúrinn mælir með bókinni Ísland Howells — Howell’s Iceland (1890–1901), eftir listsagnfræðinginn Frank Ponzi, en hún kom út árið 2004.
„Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútímamenning var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heimildagildi,“ sagði Ponzi í viðtali við Morgunblaðið árið 2004.