Þetta hefur líklega verið árið 1962. Kristján Pétur Kristjánsson var í sumarfríi frá Menntaskólanum á Akureyri og gisti í foreldrahúsum á Ísafirði. Hann hafði nýverið byrjað að leika sér að taka litmyndir og smellti þessari af handboltaleik á Sjúkrahússtúninu á Ísafirði.

 

Kristján birti myndina nýlega í hópnum Ísafjörður og Ísfirðingar á Facebook. Fólk þar var fljótt að greina að rætur Mýrarboltamótsins, sem haldið hefur verið undanfarin ár um Verslunarmannahelgina, liggja kannski dýpra en margan grunaði.

 

Konurnar í Ísafjarðarliðunum tveimur, Vestra (rauðir og grænir búningar) og Herði (röndóttir) létu það ekki trufla sig þó grátt væri í fjöllum og Sjúkrahússtúnið orðið eitt drullusvað.

 

Sjúkrahúsið stendur nú með grænu þaki og hýsir ýmis söfn, einkum bókasafn, listasafn og ljósmyndasafn. Bakvið húsið hafa risið margar blokkir og girðingarnar á túninu eru horfnar.

 

Þetta ár keppti Vestri í Íslandsmótinu í utanhússhandbolta kvenna og gekk prýðilega. Svo skemmtilega vildi til að í liðinu voru þá tvennar mæðgur. Í þokkabót voru mæðurnar systur, þær Ólöf og Unnur Konráðsdætur.

 

mammaskjottu

Morgunblaðið sagði frá þessari skemmtilegu staðreynd í júlí í íþróttakálfi sínum