Ævintýraleg sena frá Þórsmörk. Ljósmynd frá lokum nítjándu aldar.
Myndina tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell, sem ferðaðist til Íslands og Færeyja um aldamótin 1900. (Cornell University Library.)
Howell var mikið á Íslandi á síðasta áratug nítjándu aldar og starfaði meðal annars sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðalanga. Hann gekk á Hvannadalshnúk árið 1891, hugsanlega fyrstur manna, og fór yfir Langjökul þveran 1899. En Howell drukknaði í Héraðsvötnum sumarið 1901 og var jarðaður að Miklabæ. Lemúrinn mælir með bókinni Ísland Howells — Howell’s Iceland (1890–1901), eftir listsagnfræðinginn Frank Ponzi, en hún kom út árið 2004.
„Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútímamenning var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heimildagildi,“ sagði Ponzi í viðtali við Morgunblaðið árið 2004.