Elstu mannvirki heims eru um 6000 ára. Pýramídarnir í Egyptalandi telja 4500 ár. Elstu hlutar Kínamúrsins eru 2300 ára. Það er ekki neitt miðað við byggingaráætlanir í Finnlandi.

„Into Eternity“ (Til eilífðar) er heimildarmynd um mannvirki sem á að endast í að minnsta kosti 100.000 ár. Onkalo er kerfi jarðganga djúpt í iðrum jarðar á vesturströnd Finnlands, grafið í granítberggrunninn.

Í hellum þessum, á um 450 metra dýpi, verður varanlegur geymslustaður fyrir notað eldsneyti úr kjarnorkukljúfum Finnlands. Áætlað er að hin gríðarstóru göng Onkalo, sem hafist var handa við að grafa 2004, taki við kjarnorkuúrgangi til ársins 2120. Þá verður göngunum lokað um aldur og ævi og mokað fyrir inngang þeirra. Talið er að hætta stafi af úrgangnum í 100.000 ár.

Ekki harðhausinn Michael Madsen.

Heimildarmynd Michael Madsen (ekki Reservoir Dogs-harðhausinn heldur danskur leikstjóri) spyr ýmissa áhugaverðra spurninga um áætlunina. Hvernig vörum við menn í framtíðinni við að opna Onkalo? Hvernig segjum við þeim að hér séu engar Indiana Jones fornleifagersemar heldur stórhættuleg geislavirk efni?

Á hvaða tungumáli og með hvernig stafrófi eða merkjamáli tölum við nútímamenn við fólk eftir 10.000 ár? 50.000 ár? Og ef skilaboðin komast til skila, munu menn lengst í buska framtíðarinnar hlýða okkur? Höfum við einhvern tíma hugsað svona langt fram í tímann?

Kannski munu engir menn lifa lengur þá. En við verðum líka að hlífa arftökum okkar á þessari plánetu við geislavirka sullinu.

Hér er þessi magnaða heimildarmynd, Into Eternity, í fullri lengd (enskt tal):

Vídjó


Michael Madsen: „Þegar ég heyrði fyrst að einhver ætlaði að byggja eitthvað sem á að endast til 100.000 ára, fannst mér það segja ýmislegt um samtíma minn. Þetta hefur ekki verið reynt áður nema í trúarlegum víddum: dómkirkjur, pýramídar og svo framvegis. Þannig að mér fannst þetta merkilegra en bara að grafa holu í jörðina. Fólkið sem hér kemur við sögu þarf að skilja hvað felst í 100.000 árum, og það finnst mér mjög áhugavert því ég næ ekki utan um slíkan tímaskala sjálfur.“ –úr viðtali við Vice.

Vélar grafa í iðrum jarðar.
Onkalo.