Adolf Hitler var frægari fyrir að brenna bækur en að safna þeim. En eins og bandaríski sagnfræðingurinn Timothy W. Ryback hefur komist að átti hann 16.000 bækur í hirslum sínum þegar hann framdi sjálfsmorð í byrginu árið 1945, 56 ára að aldri. Hvaða bækur voru það? Og hvað segja bækur um safnara sína? Skipta þær einhverju máli?
Þýski gyðingurinn og heimspekingurinn Walter Benjamin, sem lét lífið á flótta undan nasistum árið 1940, hélt því fram að einkabókasafn bæri varanlegt og trúverðugt vitni um persónuleika safnarans. Hann taldi að á meðan við mennirnir söfnuðum bókum í því skyni að varðveita þær, væru það í rauninni bækurnar sem varðveittu okkur.
Þessum kenningum Benjamins veltir Ryback fyrir sér í bók sinni frá 2008, Hitler‘s Private Library: The Books That Shaped His Life. Timothy W. Ryback fékk að fara í gegnum bókasafn Hitlers sem varðveitt er í lítilli kompu í læstri álmu stærsta bókasafns í heimi, Library of Congress, bandaríska þingbókasafnsins.
Af einhverjum ástæðum voru munir í einkaeigu nasistaleiðtogans fluttir þangað eftir sigur Bandamanna í stríðinu. Ásamt bókasafni Hitlers liggja hægindastólar, skrifborð og hillur úr skrifstofu hans á rúi og stúi í kompunum.
Hitler lýsti yfir að hann væri mikill lestrarhestur og læsi heila bók á hverju kvöldi, stundum fleiri. Hann átti fjölmargar verðmætar bækur, en hann gat auðvitað í krafti aðstöðu sinnar útvegað sér fágæt eintök og safngripi. Hann var athugull lesandi og skrifaði ýmislegt í bækur sínar, strikaði undir merkilegar setningar og yfir þær er honum fannst verri. Og á sumum blaðsíðum setti Hitler upphrópunar- og spurningarmerki.
Að mati Hitlers voru mestu meistaraverk bókmenntanna Don Kíkóti, Róbinson Krúsó, Kofi Tómasar frænda og Ferðir Gúllívers. „Það býr mikilfengleiki í þessum bókum,“ sagði Hitler en hann sagðist sjá „sögu þróunar alls mannkyns“ í Róbinson Krúsó.
Aðstoðarmenn vottuðu að foringinn hefði legið yfir Don Kíkóta og mænt löngum stundum á teikningar Gustavs Dorés af riddaranum sem barðist við vindmyllurnar.
Ekki verður annað sagt en að hrifning Hitlers á skáldsögunni frægu frá 1852, Kofa Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe, sé kaldhæðnisleg. Réttindabarátta svertingja í Bandaríkjanna er aðalumfjöllunarefni bókarinnar og var höfundurinn í fararbroddi svokallaðra afnámssinna sem vildu afnema þrælahaldið og stuðla að jafnrétti milli allra kynþátta í heiminum.
Hitler átti öll verk Williams Shakespeares á þýsku í leðurútgáfu. Hitler sagði við vini og kunningja að Shakespeare stæði þýsku stórskáldunum Goethe og Schiller framar og að þeir hefðu sólundað hæfileikum sínum í leiðinlegar sögur af mönnum með gráa fiðringinn og systkinaríg.
Klisjan, orð Hamlets „að vera eða ekki vera“ – frægasta lína Shakespeares – voru uppáhaldsorð Adolfs í bókmenntunum. Hann var líka heltekinn af leikritinu um Júlíus Sesar eftir Shakespeare en honum fannst hann geta yfirfært frægar senurnar og leiktextann yfir á atburði eigin lífs.
Þýskir spagettívestrar
En það voru ekki einungis „heimsbókmenntir“ í hillum nasistans. Við hliðina á Shakespeare-safninu í leðurbandinu geymdi Hitler uppáhaldsbækur sínar frá í æsku: Kúrekabækur þýska spennuhöfundarins Karls May. Um þær sagði Hitler: „Fyrsta bókin sem ég las eftir May var Ferðin yfir eyðimörkina og ég var heltekinn. Ég gleypti allar bækur hans í mig.“
Ryback nefnir í bók sinni að Hitler hafi undir lok ævinnar leitað í bækur Karls Mays í líknarskyni, líkt og margir gera með Biblíuna.
Fullyrt er að Hitler hafi geymt á náttborðinu bækur með teiknimyndasögunum um hrekkjalómana Max og Moritz en skutlað þeim gjarnan í náttborðsskúffuna þegar gesti bar að garði.
Gyðingahatur og gas
Ekki kemur á óvart að hatursrit um gyðinga og önnur þjóðabrot voru í safni Hitlers. Hann átti líka margar bækur um orrustur og hernað fyrri heimsstyrjaldarinnar og las þær mikið.
Vitað er að bandaríski iðnjöfurinn Henry Ford var í miklum metum hjá Hitler sem átti bók Fords The International Jew í þýskri þýðingu.
Í bókinni útlistaði Ford hatur sitt á gyðingum um allan heim og ræddi meint samsæri þeirra er myndi á endanum tortíma allri menningu. Þessi skrif þóttu í meira lagi órökstudd og áróðurskennd en urðu, nema hvað, vinsæl á meðal blóðþyrstra nasista og Hitler átti sitt eintak.
Ryback fann í bókasafninu snjáð og mikið lesið eintak af handbók um eiturgastegundir frá 1931. Í bókinni er langur kafli þar sem farið er yfir kosti og galla vetniscyaníðs-eiturs, sem betur er þekkt undir nafninu Zyklon B, en það var gasið er notað var í útrýmingarbúðum nasista í Helförinni.
Þóttist lesa heimspeki; las draugasögur í staðinn
Í síðustu köflum bókarinnar ræðir Ryback um minnimáttarkennd Hitlers gagnvart æðri menntun.
Hann átti margar bækur eftir heimspekingana Nietzsche og Schopenhauer og fjallaði oft um þá félaga í ræðu og riti. Ryback telur hins vegar ólíklegt að Hitler hafi lesið heimspekiritin og bendir á að hann hafi stafsett nafn Schopenhauers vitlaust í tugum bréfa.
Þess í stað hafi Hitler lesið ýmis dulspekiskrif og kukl á borð við Nostradamus og bækur um yfirnáttúruleg fyrirbæri á borð við afturgöngur og vampírur.
Myndin efst er tekin af kápu spænskrar þýðingar bókarinnar sem Planeta gaf út. Hér má horfa á viðtal við Timothy W. Ryback.