Þeir skipta hundruðum, leikararnir sem hafa farið í búning Jósefs Stalín í gegnum tíðina. Og á listanum leynast ýmsir furðufuglar. Á meðan Stalín var á lífi gat leikari sem lék hann „illa“ verið sendur í gúlagið, en aðrir mökuðu krókinn á að leika ekkert nema Stalín aftur og aftur. Þá hafa vestrænir stórleikarar eins og Robert Duvall og Michael Caine tekið að sér þetta vandasama hlutverk með misjöfnum árangri.
Stalín birtist fyrst á hvíta tjaldinu í Sovétríkjunum árið 1937, í mynd Mikhails Romm, Lenín í október (Lenin v oktyabr). Þar fór Semjon Goldschtab með hlutverk Stalíns:
Sagan segir að Stalín sjálfur, sem var mikill kvikmyndaáhugamaður, hafi ekki verið ánægður með leik Goldschtabs. Tveimur árum síðar kom út framhaldið af Lenín í október, Lenín árið 1918, og þá var annar leikari kominn í hlutverk Stalíns. Mikhail Gelovani var Georgíumaður eins og Stalín sjálfur.
Hann lék leiðtogann fyrst árið 1937 í myndinni Mikill bjarmi (Velikoe zarevo) og næstu sextán árin gerði Gelovani lítið annað en að leika Stalín, í að minnsta kosti sextán kvikmyndum. Stalín var hæstánægður — Gelovani fékk fjórum sinnum Stalínverðlaunin, auðvitað alltaf fyrir að leika Stalín.
Því miður fór illa fyrir ævistarfi Gelovanis eftir dauða Stalíns sjálfs árið 1953. Sovéskar kvikmyndir sem sýndu Stalín í lofsamlegu ljósi (og auðvitað voru þá engar kvikmyndir sem gerðu það ekki!) voru bannaðar, eða persóna Stalíns klippt burt. Gelovani lék ekki fleiri kvikmyndum.
Svo margar kvikmyndir voru þó gerðar um Stalín á valdatíð hans að ekki var nóg að hafa einn sérstakan Stalínleikara, Mikhail Gelovani hafði ekki undan að leika alla þá Stalína sem sovéskur kvikmyndaiðnaður heimtaði. Margir leikarar léku leiðtogann aftur og aftur.
Andro Kobaladze (einnig Georgíumaður, eins og fleiri afkastamiklir Stalínleikarar) lék Stalín að minnsta kosti tíu sinnum og varð ferill hans öllu farsælari en Gelovanis — Kobaladze var fyrst Stalín árið 1940 í myndinni Jakov Sverdlov og hélt uppteknum hætti allt fram til ársins 1982.
Leikarinn og leikstjórinn Aleksei Dikij lék Stalín þrisvar á árunum 1947-1949. Tíu árum áður hafði Dikij, þá leikhússtjóri í Leníngrad, lent í ofsóknum Stalíns — hann var handtekinn fyrir andsóvésk athæfi og dvaldi í fjögur ár í gúlaginu í Síberíu. Það kom þó ekki að sök — Stalín fyrirgaf honum og var svo himinn lifandi með leik hans að hann veitti honum oftar en einu sinni Stalínverðlaunin. Sjálfur ku Dikij hafa sagt síðar að þegar hann lék Stalín hafi hann ekki leikið manneskju, heldur granítstyttu.
En nú skulum við hlaupa fljótt yfir sögu og líta á fleiri Stalína sem dúkkað hafa upp á hvíta tjaldinu í sovéskum, rússneskum og erlendum kvikmyndum. Þeir eru, vægast sagt, mis sannfærandi þó allir séu með yfirvaraskeggið og pípuna á hreinu. Það var rússneski bloggarinn Edward Milokumov sem vann þrekvirki í þágu stalínískra kvikmyndafræða og safnaði saman þessum myndum. (Þetta er þó ekki tæmandi listi.)
Áður en lengra er haldið verður nú tilkynnt hver hlýtur verðlaun Lemúrsins fyrir besta leikara í Stalínhlutverki. Það er auðvitað breski stórleikarinn Michael Caine, sem fór með hlutverk leiðtogans í breskri sjónvarpsseríu, World War II: When Lions Roared, árið 1994. Bob Hoskins var Churchill og John Lithgow Roosevelt. Í þessu atriði sést hversu vel Caine nær hinum víðkunna cockney-hreim Stalíns: