Lemúrinn hefur verið duglegur að vekja athygli á músalemúrum, minnstu tegundum lemúra. Þeir músalemúrar sem birst hafa á síðum Lemúrsins hafa hingað til verið til fyrirmyndar, hvort sem það er músalemúr frú Berthe eða músalemúr doktors Shaquille O’Neal. Nú kveður hinsvegar annað hljóð í kútinn. Í nýjasta hefti fræðiritsins American Journal of Primatology er grein sem varpar dökkri mynd af einni tegund músalemúra: Grámúsalemúrar (Microcebus murinus) éta aðra grámúsalemúra. 

 

Í grein Anni Hamäläinen við Göttingen-háskóla í Þýskalandi kemur fram að hún hafi fyrir tilviljun orðið vitni af hroðalegum atburð. Hún hafi verið við rannsóknir á atferli grámúsalemúra í Kirindy-skógi á vesturhluta Madagaskar. Á reglubundinni heimsókn til músalemúranna sá hún lík kvendýrs hanga á hvolfi á trjágrein.

 

Líkið var rifið á hol og líffærin á bak og burt. Höfuðkúpan var brotin og heilinn sundurtættur.

 

Karlkyns grámúsalemúr stóð við líkið „nagaði framúrstandandi mænuna af áfergju“. Hamäläinen fylgdist með karldýrinu éta kvendýrið í tuttugu mínútur — mænu, vöðva og rifbein.

 

 

Hamäläinen, greinarhöfundur, tók þessa hrollvekjandi mynd af músalemúrnum að éta jafningja sinn.

 

Þá fjarlægði Hamäläinen líkið og rannsakaði, en þar sem líkamsleifarnar voru sundurétnar tókst henni ekki að komast að dánarorsök dýrsins. Hafði karldýrið myrt kvendýrið? Eða hafði hann einungis fundið líkið hangandi í trjágrein og ákveðið að éta það?

 

Eitt er ljóst. Grámúsalemúrar eru eina tegund prímata sem vitað er til að éti fullvaxta jafningja sína af sömu tegund — fyrir utan okkur mennina (lesendur Lemúrsins kannast vafalítið við mannætur).

 

Að éta dýr af sömu tegund er ekki þó óþekkt meðal prímata. En hingað til hefur, í slíkum ódæðisverkum, alltaf verið um nýlega fædda unga að ræða. Hið hrottaleg morð grámúsalemúrsins í Kirindy-skógi er einsdæmi í sögu dýrafræðinnar.