Vídjó

Árið 1896 ferðuðust frönsku kvikmyndafrumkvöðlarnir, bræðurnir Auguste og Louis Lumière, til borgarinnar helgu Jerúsalem, sem þá var höfuðborg samnefnds héraðs í Ottóman-veldinu. Með í för var uppfinning þeirra, kvikmyndavélin cinématographe.

 

Aðeins ári áður höfðu bræðurnir frumsýnt sína fyrstu mynd, brautryðjendaverkið Verkamenn yfirgefa Lumière-verksmiðjuna í Lyon. Myndbrotin sem þeir tóku af Jerúsalem eru elsti hreyfimyndir af borginni.

 

Margir borgarbúa virðast lítt hrifnir af bræðrunum og undravél þeirra — þeir hylja andlitið eða líta kvikmyndatökumennina hornauga.

 

Fyrstu skipulögðu fólksflutningar Síonista til Ísrael hófust árið 1882. Þá voru múslimar í töluverðum meirihluta í borginni en einnig bjuggu þar mörgþúsund kristnir og Gyðingar. Eftir að fólksflutningarnir hófust ókst íbúafjöldi í Jerúsalem hratt. Árið 1896, þegar þetta myndbrot var tekið, voru Gyðingar orðnir meirihluti íbúa Jerúsalem — 28.000 Gyðingar á móti rúmlega 9000 múslimum og 9000 kristnum.

 

Á þessum tíma áttu sér einnig stað endurbætur á borginni helgu og aðstæðum íbúa hennar, bæði fyrir tilstilli umbótasinnaðra yfirvalda í Istanbúl og ríkra evrópskra Gyðinga, velgjörðamanna innflytjendanna nýju. Meðal annars var borgin þrifin, götur hennar steinlagðar, og öryggis- og menntamál íbúanna endurbætt til muna.

 

Hópur forvitinna áhorfenda fylgdu bræðrunum frönsku af brautarstöðinni þegar þeir yfirgáfu Jerúsalem og héldu áfram ferð sinni um heiminn:

Vídjó