Samhliða mótmælahreyfingum sem sprottið hafa upp í löndum Arabaheimsins í ár hefur orðið sprenging í arabísku hipphoppi. Ný kynslóð rappara í Túnis, Egyptalandi, Líbýu og fleiri löndum hafa notfært sér internetið til þess að komast hjá ritskoðun, og sent frá sér hápólítisk lög gegn einræðisherrum og með byltingum.

 

 

Túniski rapparinn El Général setti þetta lag inn á YouTube í Nóvember 2010. Rais lebled, „Forseti landsins“, er reiðilestur gegn einræðisherranum Zine El Abidine Ben Ali.

 

„Herra forseti, fólkið þitt deyr. Svo margir éta upp úr ruslinu. Sérðu ekki hvað er í gangi í landinu þínu?“

Ríkisfjölmiðlar Túnis bönnuðu lagið en það sló samt sem áður í gegn meðal almennings, sem orðinn var langþreyttur á ofríki Ben Alis. Rúmum mánuði síðar kveikti ávaxtasalinn Mohamed Bouazizi í sér og hratt af stað mótmælaöldunni sem leiddi til falls einræðisherrans.

 

El Général sendi frá sér fleiri lög á meðan túnisísku byltingunni stóð. Rapparinn, sem heitir réttu nafni Hamada Ben-Amor, var svo handtekinn af öryggislögreglu þann 6. janúar. Handtaka hans vakti athygli alþjóðapressunnar — sem hingað til hafði sýnt hinum sögulegu mótmælum í smáríkinu Túnis takmarkaðan áhuga.

 

Stjórn Ben Alis féll viku síðar. Fræ ‘arabíska vorsins’ höfðu þá þegar borist til annara landa, og byltingarrappið sömuleiðis.

 


Egypski rapparinn Ramy Donjewan sendi frá sér þetta lag 7. janúar: Dudd al-hukuma, „Á móti ríkisstjórninni“. Þann 25. janúar voru fyrstu fjöldamótmælin á Tahrir-torgi í Kairó.

 

Líbýumaðurinn Ibn Thabit kallar sig eftir skáldi sem var með fyrstu fylgismanna Múhameðs spámanns. Hann segist hafa rappað síðan 2008 en tónlist hans vakti ekki mikla athygli fyrr en á fyrstu mánuðum ársins 2011.

 


Þetta lag, Al-su’al („Spurningin“), birtist á netinu þann 27. janúar, tveimur dögum eftir fyrstu mótmælin í Kairó. Spurningin sem Ibn Thabit spyr í laginu er, hvort að landar hans muni rísa upp gegn einræðinu, líkt og nágrannar þeirra í Túnis og Egyptalandi hafa gert. Svarið fékk hann þremur vikum síðar — fyrstu mótmælin hófust í líbýsku borginni Benghazi um miðjan febrúar.

 

Og byltingin stendur enn, eins og Egyptarnir í rappsveitinni Revolution Records minna okkur á í þessu glænýja lagi, síðan fyrr í Nóvember. Það er stílað á Tantawi marskálk leiðtoga og félaga hans í herráðinu sem nú fer með völd í Egyptalandi:

 

Heiðurinn að þýðingum á textum laganna á umsjónarmaður bloggsins Revolutionary Arab Rap, þar er einnig að finna fleiri þýðingar og umfjöllun. Lesendum er einnig bent á Khalas Mixtape vol. 1, mixteip frá því í febrúar í ár með byltingarsinnuðum norðurafrískum röppurum.