Hery Rajaonarimampianina er nýr forseti Madagaskar, landsins sem er heimkynni lemúra. Atli Freyr Steinþórsson tók himininn höndum þegar hann komst loksins að því hvernig nafn hans er borið fram.
Ég þarf að gera játningu: Mér finnst ákaflega óþægilegt að vita ekki hvernig erlend nöfn eru borin fram. Þetta á við um mannanöfn, örnefni, allt. Það skiptir ekki máli hvaða tungumál á í hlut. Mér finnst bókstaflega óþolandi að geta ekki dregið ályktun um framburð út frá ritmynd. Þetta er sérstaklega harmræn röskun vegna þess að ritmál vel flestra tungumála í heiminum tengjast talmálinu á mjög tilviljanakenndan og ófyrirsjáanlegan hátt.
Ég minnist til dæmis þess þegar slóvakískur kunningi minn náði ekki andanum af hneykslun þegar hann sá á flugfarseðlinum mínum einu sinni að ég væri að fljúga heim til KEFLAVIK en ég hafði allan tímann sagst vera að fara til [kebblavik].
Hvað um það. Nú undanfarna mánuði hef ég verið að eltast við gralinn helga í erlendum framburðarfræðum. Svo bar til í janúar að Hery nokkur Rajaonarimampianina var kjörinn forseti lýðveldisins Madagaskar, eyþjóðar í Indlandshafi úti fyrir ströndum Suðaustur-Afríku.
Þetta nafn hefur verið að gera mig brjálaðan. Erlendir fréttaþulir hafa allir haft sína eigin mynd á þessu; meira að segja á BBC, þar sem þó er rekin sérstök skrifstofa framburðarráðunauta og málvísindamanna sem gefa út tilmæli hvern einasta dag ársins um raunhæft enskuskotið slump á framburð vel flestra erlendra nafna í fréttum; meira að segja þar var þetta í ólestri þá sjaldan að forsetann bar á góma.
Ég hef engar forsendur til að draga ályktun um neitt sem varðar tungumál sem töluð eru á Madagaskar. Ég veit ekkert um Madagaskar. Stutt rannsókn leiðir hins vegar í ljós að mannkynið steig ekki fæti á þessa eyju fyrr en í fyrsta lagi á 4. öld fyrir Krist, og í síðasta lagi á 6. öld eftir Krist. Þeir sem það gerðu voru bátsmenn á kanóum frá Borneó.
Það tók mannkynið 60.000 ár, frá því að það varð til í Austur-Afríku og flutti að heiman, að fara allan hringinn til Mið-Austurlanda, Evrópu, Indlands, Kína, Japans, Suðaustur-Asíu, Ástralíu, og frá Rússlandi yfir landbrúna til Ameríku og síðan hægt og rólega alla leið lengst suður á Eldland í Argentínu, áður en nokkrum Indónesum, mögulega á dögum Atla Húnakonungs, datt í hug að róa bara eitthvað út á Indlandshaf, láta sig reka 9.000 kílómetra í suðvestur og lenda síðan á Madagaskar, í næsta póstnúmeri við fæðingarstað mannkynsins. Á kanó.
Nokkrum öldum síðar uppgötvuðu afrískar þjóðir að ljósin voru allt í einu kveikt úti á þessari eyju, sigldu yfir og blönduðust asísku þjóðinni sem þar var fyrir. Það var langþráð eftir 60.000 ára aðskilnað.
Og þetta er ástæða þess að á Madagaskar eru töluð pólýnesísk tungumál en ekki afrísk.
Nema hvað. Ég ákvað í dag að ganga í þetta alvarlega mál og hætta ekki fyrr en ég fengi niðurstöðu í það. Og sjá, eins og brauð af himnum féll þessi bandaríska fréttasíða mér í skaut. Þar hafa fréttamenn haft uppi á konu frá Madagaskar sem býr í Washington, tekið símaviðtal við hana og beðið hana um að bera þetta voðalega nafn fram, Hery Rajaonarimampianina. Þetta nokkurra sekúndna símaviðtal er eins og tónlist í eyrum mínum.
Ég hef (svo oft) velt mismunandi varíöntum þessa framburðar fyrir mér að þegar ég heyrði loksins hvernig á að bera það fram langaði mig til að gráta af gleði. Hvað af þessu voru tvíhljóðar? Hvar átti að setja áhersluna? Voru aukaáherslur? Úrfellingar? Hvert var málvísindalegt gangvirki þessa framburðar?
Og svarið er svo einfalt og augljóst að ég skil núna hvernig Watson og Crick leið þegar þeir uppgötvuðu DNA. Skírnarnafn forsetans er eitt atkvæði því y fellur brott; í eftirnafninu er samstafan ‘jao’ táknuð með rödduðum affríkat og tvíhljóðanum [au], síðan verður úrfelling á tveimur mikilvægum stöðum sem báðir varða áherslulétta atkvæðið [i] (það er reyndar svo áherslulétt að það fellur brott með öllu), og tveimur síðustu atkvæðunum er til dæmis sleppt með öllu í daglegum framburði.
Og rúsínan í pylsuendanum: Áherslan í eftirnafninu er öll á lokaatkvæðinu! Saman eru skírnarnafnið og eftirnafnið bara sex atkvæði í framburði.
Ecce nomen (hástafir þýða sterka áherslu):
HER radsjá-nar-mam-PJAN!
Mér finnst núna eins og ég hafi klórað mér á mjög óþægilegum stað í fyrsta sinn í mörg ár.