Blómey Stefánsdóttir (1914-1997) og Óskar Magnússon (1915-1993) með mynd þeirra af Jósef Stalín. Hjónin bjuggu í torfkofa á Hellisheiði frá 1973 til 1984 og ófu myndir af stjórnmálamönnum, þjóðskáldum og fleiri hetjum. Stalín var í sérstöku uppáhaldi. Um þessa alþýðulistamenn á sviði vefnaðar má til dæmis lesa í bók Ásdísar Höllu Bragadóttur, Tvísaga: móðir, dóttir, feður, en Blómey var amma hennar. Þá skrifaði Ómar Ragnarsson um hjónin í bókinni Mannlífsstiklur.

Í níu ár samfleytt bjuggu hjónin Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon í næstum 400 metra hæð yfir sjávarmáli í litlum torfbæ uppi á fjalli fyrir ofan Skíðaskálann í Hverdölum.

Óskar vann við Reykjavíkurhöfn og hjólaði 35 kílómetra leið til vinnu daglega, jafnt að vetri sem sumri.

Hann var þá kominn vel á sjötugsaldur en trúarhiti, eldmóður og reiði í garð þjóðfélagsins hélt honum gangandi.

Hann hafði áður byggt magnað hús í Blesugróf, sem kallað var „Kastalinn“ en hafði þurfti að hrekjast úr því 1973 þegar Breiðholtsbraut var lögð þar.

Hann gerðist utangarðsmaður í mótmælaskyni í torfbænum litla sem hann reisti á fjallinu og þraukaði þar með konu sinni í heil níu ár við sérstaklega erfiðan kost þar sem vetrarríki og stórviðri ríktu líkt og á hálendi væri langt fram á sumar og stundum strax aftur í september.

Ómar Ragnarsson, https://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1297477/