Í BBC þáttaröðinni Meet the Stans frá árinu 2003 ferðast breski sjónvarpsmaðurinn Simon Reeve um fjögur fyrrum sovétlýðveldi í Mið-Asíu: Kasakstan, Kirgisistan, Tadsjikistan og Úsbekistan.
Fæstir vita mikið um þessi fátæku, afskekktu og landluktu ríki. Þau voru eitt sinni mikilvægur áfangastaður á Silkiveginum svokallaða sem á miðöldum rann frá Kína til Evrópu gegnum fornu borgina Samarkand, sem er í dag næststærsta borg Úsbekistans.
Mið-Asíuríkin fjögur geyma gríðarlegar auðlindir í formi olíu og sjaldgæfra málma en eru þjökuð af sovésku arfleifðinni: spillingu, mengun, og hræðilegri kjarnorkugeislun. Reeve talar við heimamenn og fræðist um lífið þúsundir kílómetra frá næsta úthafi.
Þættirnir eru fjórir, einn fyrir hvert ríki, og eru 40 mínútur að lengd. Reeve hefur sjálfur gert þá aðgengilega á netinu.