Heimsmeistarakeppnin í fótbolta í Brasilíu hefst bráðum! Lemúrinn fjallar um ýmsa atburði sem tengir knattspyrnusögur Íslands og Brasilíu saman.
Lemúrinn flettir í stórskemmtilegri bók. Futebol: The Brazilian Way of Life eftir breska blaðamanninn Alex Bellos. Í formála segir:
Fótboltinn kom til Brasilíu árið 1894. Hin „ofbeldisfulla breska íþrótt“, eins og hún var kölluð, sló óvænt í gegn. Eftir nokkra áratugi var hún orðin að mesta sameiningartákni Brasilíu. Landsliðið hefur, eins og við vitum öll, unnið fleiri heimsmeistaratitla en nokkurt annað lið. Og landið bjó til Pelé, besta leikmann sögunnar. Brasilíumenn fundu upp litríkan, frábærlega spennandi og gullfallegan leikstíl sem orðið hefur að óhagganlegri fyrirmynd fyrir heimsbyggðina. Við Bretar köllum þennan stíl „the beautiful game“ – fallega leikinn. Hjá Brasilíumönnum heitir hann „futebol-arte“, list-fótbolti. Ekkert í íþróttaheiminum er jafn aðlaðandi og þessi stíll.
Þessi bók fjallar um óteljandi birtingarmyndir brasilíska boltans. Í fyrsta kafla hennar er ljósmynd af brasilískum fótboltamanni. Við sjáum þessa mynd hér efst í greininni. Hann er nánast nakinn, er klæddur í mjög efnislitla sundskýlu. Upp úr skýlunni gægist sígarettupakki. Það er sól og hiti þarna. Maðurinn heitir Marcelo og er staddur uppi á þaki heima hjá sér, í múrsteinshlöðnum kofa í favelu eða fátækrahverfi í Rio de Janeiro í Brasilíu.
Í hlíðunum sem umkringja þá ótrúlegu borg eru ótal slík hverfi. Á myndinni sem við sjáum er maðurinn umvafinn móður sinni og börnum sínum. Hann horfir í átt til myndavélarinnar í gegnum sólgleraugu með speglagleri. Og á meðan kyssir hann gylltan bikar sem glóir eins og gullstöng í sólskininu. Hann kyssir þennan bikar eins og hann sé sjálfur heimsmeistarabikarinn. En þegar betur er að gáð sést hvaða bikar þetta er. Þetta er verðlaunagripurinn fyrir Besta framherja í efstu deild í færeyska boltanum fyrir árið 2000. Í bakgrunni glittir í Copacabana, ströndina fallegu.
Alex Bellos hitti þennan fótboltakappa í Rio. Og í leit sinni að undrahliðum brasilíska boltans ferðaðist hann til Færeyja til að sjá hvernig maðurinn, Marcelo Marcolino, besti framherjinn í Færeyjum, hefði það.
Marcelo horfir á snævi þakta fjallshlíð út um gluggann í þorpinu Toftir sem er umlukið dapurlegri þoku. Hann segir að þetta sé alltaf eins, það komi aldrei regnbogi eða fallegur himinn til að brjóta upp þetta eyðilega og kuldalega andrúmsloft. Fyrir utan blæs miskunnarlaust kuldarok. Göturnar eru auðar. Marcelo fer hvort sem er ekki út fyrir hússins dyr: hann eyðir lunganu úr deginum fyrir framan sjónvarpið. Hann horfir á gervihnattastöðvar sem eru á tungumálum sem hann skilur ekki.
Marcelo lék með færeyska félaginu B68 í kringum aldamótin. Þetta var góður kostur fyrir hann. Það voru ekki margir möguleikar fyrir hann í fátækrahverfinu heima. En hann var eins og fiskur á þurru landi.
„Þetta hús er eins og fangelsi. Það er erfitt. Ég er vanur annarri menningu: strönd, bjór, stelpum. Hér er ekkert líf. Enginn fer út úr húsi. Og ef það er partí einhversstaðar er það eins og að vera í erfidrykkju eða jafnvel kistulagningu. […] En ég er kóngurinn á svæðinu. Það er enginn jafn góður og ég.“
Marcelo vann í fiski meðfram fótboltanum. Eigandi B68 var útgerðarmaðurinn í bænum. Hann eignaðist talsvert af peningum rétt fyrir aldamótin. Það áraði vel. En það vantaði flinka leikmenn í liðið. Hann hringdi því til Íslands. Hann átti vini á Ólafsfirði en á þeim tíma voru margir Brassar í fótboltaliðinu þar, Leiftri. Og Leiftur skaffaði Marcelo.
Fjallað er um fleiri brasilíska fótboltamenn í Færeyjum og rætt við Fábio Menezes, sem starfaði sem umboðsmaður fótboltamanna á Íslandi og í Færeyjum í kringum aldamótin. Höfundurinn heimsótti hann á heimili hans í Rio de Janeiro. Þar sýndi Fábio honum gríðarstórt safn fótboltabúninga frá öllum heiminum. Hann dró eina bláa fram. Á henni stóð „KSÍ“.
„Gettu hvaða landsliðsbúningur þetta er!“ Alex Bellos vissi ekki svarið.
„Þetta er búningur Íslands. Frá því liðið spilaði gegn Brasilíu í Florianópolis [brasilísk borg]. Brasilía vann 3-0,“ segir Fábio.
Alex Bellos gefur honum fjörlega lýsingu:
Fábio mun komast í sögubækurnar fyrir það að vera maðurinn sem ýtti brasilíska boltanum lengst í norður. Rétt eins og könnuðir heimsskautanna leiddu mannkynið til ókunnra endimarka flutti hann landa sína norðar en nokkru sinni. Hann er umboðsmaðurinn sem fyrstur flutti Brasilíumenn til Íslands og Færeyja.
Það var fyrir tilviljun sem Fábio hóf þennan undarlega útflutning. Hann komst í kynni við menn hjá finnska fótboltafélaginu FC Jazz þegar hann var á bakpokaferðalagi um Evrópu þegar hann var enn námsmaður. Í kjölfarið annaðist hann sölu leikmanns í fátækrahverfi til félagsins. Síðan gerðist ekkert í nokkur ár þangað til norrænir menn fóru skyndilega aftur að banka á dyrnar.
Íslenski þjálfarinn Páll Guðlaugsson hafði séð FC Jazz spila í Intertoto-keppninni og leist frábærlega á sambataktanna hjá brasilíska leikmanninum. Og hann bað um nokkra leikmenn frá Brasilíu, bæði fyrir Leiftur og færeyska félaga sína, en Páll var á sínum tíma þjálfari færeyska landsliðsins og hafði mikil ítök í boltanum þar.
Samstarfið gekk svo vel að Fábio flutti til Ólafsfjarðar, meðal annars til að starfa sem túlkur fyrir þá leikmenn sem fengnir voru til Leifturs. Hann vann þar við sjávarútveg, bæði við útflutning á fiski og í frystihúsinu. Síðar flutti hann til Keflavíkur.
Páll Guðlaugsson var farinn að þjálfa Keflavík og þar á bæ báðu menn um þrjá Brassa. Fábio flaug suður til Rio og fann stráka. Páll fór líka út. Á endanum komu þrír leikmenn til Keflavíkur. Hér er umfjöllun um komu þeirra. Rætt er við Pál Guðlaugsson (DV, 13. mars 2000):
„Tilgangurinn með að fá þá var að breikka leikmannahópinn og líka það að þetta var tiltölulega ódýr kostur miðað við þann mannskap sem hægt er að fá hér heima. Við erum að fá þrjá leikmenn sem við þurfum að borga lítið meira fyrir en að útvega húsnæði og atvinnu. Þetta dæmi er þó hugsað svolítið öðruvísi en fyrir norðan en við erum með því hér að hugsa meira fram í tímann.“
Leikmönnunum var ætlað stórt hlutverk en yfirmennirnir vissu þó að aðlögunin yrði strembin.
„Þeir eru í ágætri hlaupaæfingu en aðrir þættir þurfa sinn tíma. Þeir þurfa sinn tíma í aðlöguninni og ég er ekkert hræddur um að það gerist ekki. Það tók t.d. Christian Daum, þjálfara Bayer Leverkusen, að koma sínum mönnum frá Brasilíu inn í hóp hjá sér. Fyrsta árið fór einungis í það að koma þeim inn í þjóðfélags- og félagslega þáttinn. Ég verð ánægður ef þessir þremenningar komast í 18 manna hópinn hjá mér.“
Hvernig lögðust fyrstu dagarnir í þá félaga. Voru þetta ekki mikil viðbrigði?
„Jú, þetta voru gríðarleg viðbrigði fyrir þá. Það sem hefur hins vegar hjálpað þeim mikið er að aðstæðurnar hjá okkur er mjög góðar. Þeir hafa tök á því að æfa 2-3 á dag og eru að leggja það á sig. Þeim líst vel á aðstæður og eru bara ánægðir en svo virðist sem þeir eigi bara auðvelt með að aðlagast aðstæðum hér á landi. Ég kynntist Brasilíumönnum fyrst fyrir norðan hjá Leiftri og síðan núna hér hjá Keflvíkingunum. Þeir eru þægilegir í viðmóti og samskipti við þá eru í alla staði góð. Með tilkomu Reykjaneshallarinnar urðu umskipti hvað aðstæður áhrærir en fyrir norðan [á Ólafsfirði] stjórnaði maður æfingum í fjörunni fram í júní.“
En Adam var ekki lengi í Paradís. Örfáum vikum síðar voru Brasilíumennirnir sendir heim! DV, 6. apríl 2000:
Fingralangir Brassar
Brasilíumennirnir þrír sem komu til úrvalsdeildarliðs Keflvíkinga i knattspyrnu ekki alls fyrir löngu og áttu að spila með liðinu í úrvalsdeildinni í sumar hafa verið reknir frá félaginu.
Þeir urðu uppvísir að þjófnaði frá félaginu og leikmönnum liðsins og í kjölfarið ákvað stjórn félagsins að losa sig við leikmennina.
„Þeir voru að hnupla úrum, skartgripum og fatnaði bæði frá strákunum í liðinu og frá félaginu og það kom ekki annað til greina en að taka hart á þessu. Þeir verða sendir úr landi og leika ekki með okkur i sumar. Þetta kom auðvitað mjög flatt upp á okkur og auðvitað setur þetta strik í reikninginn hvað varðar hópinn. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun hvort við fórum út í að fá aðra leikmenn i staðinn en það verður skoðað fljótlega,“ sagði Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, við DV.
Þannig fór um sjóferð þá. Umboðsmaðurinn Fábio var auðvitað miður sín yfir þessu. „Menningarlegi þátturinn getur verið svo erfiður. Ég hefði fundið betri leikmenn ef ég hefði haft lengri tíma.“ Þrátt fyrir þessi vonbrigði bjó Fábio áfram í Keflavík, vann í fiski eins og áður, en líka sem þjónn á pizzastað. „Það var ekkert annað að gera þarna. Lífið var að vinna og safna peningum.“
En á endanum fór hann aftur heim til Brasilíu. „Ég vildi ekki vera á Íslandi alla ævi. Það gat verið erfitt þar.“ Þegar kuldinn og myrkrið svarf að huggaði hann sig með því að fara í vasann á úlpunni sinni. Þar geymdi hann öll seðlabúntin sem hann nurlaði saman við vinnuna á Fróni.
Hann má þó vera stoltur af mörgum löndum sínum sem komu til Íslands og Færeyja um aldamótin. Þeir settu margir bráðskemmtilegan svip á fótboltann. Leiftur var með magnað lið á sínum tíma og Brassanir í B68 og fleiri liðum í Færeyjum spiluðu við góðan orðstír. Margir innlendir leikmenn lærðu mikið af þessum mönnum.
Hér sést Marcelo – sá sem kyssir bikarinn – í ham í færeyska boltanum. Gæði myndbandsins eru reyndar ekki upp á marga fiska.
Við mælum eindregið með áðurnefndri bók., Futebol: The Brazilian Way of Life. Um hana sagði Norman Cook, betur þekktur sem Fatboy Slim: „Fjörleg lýsing á rómantíkinni og ástríðunni sem við þekkjum frá Brasilíu. Furðusögurnar inni á milli eru skemmtilegar. Stórkostleg lesning.“
Endum þetta knattspyrnuspjall með frændum okkur Færeyingum. Í september árið 1990 unnu þeir ótrúlegt afrek í fyrsta alvöru landsleik þeirra. Keppt var við Austurríkismenn í undankeppni EM, en leikurinn fór fram í Svíþjóð þar sem vellir í Færeyjum þóttu ekki nógu góðir. En Færeyingar unnu þennan leik 1-0, ótrúlegt en satt.
Hver var þjálfari liðsins? Jú, auðvitað Páll Guðlaugsson, sem kom við sögu áðan.
Markvörðurinn Jens Martin Knudsen átti frábæran leik og varði eins og berserkur. Torkil Nielsen var þó tvímælalaust maður leiksins en hann skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu, Nielsen hirti boltann af sofandi varnarmönnum Austurríkis og renndi honum síðan framhjá austurríska markverðinum.
Hlustum á færeyska lýsandann þegar Torkil skoraði: