Pelé kom einu sinni til Íslands! Heims­meist­ara­keppn­in í fót­bolta í Brasilíu hefst bráðum. Lemúrinn fjallar um ýmsa atburði sem tengir knatt­spyrnu­sögur Íslands og Brasilíu saman.

 

Þegar kemur að knatt­spyrnu er við fyrstu sýn ekki margt sem bindur Brasilíumenn og Íslend­inga saman. En hér verður þó fjallað um ýmsa atburði sem tengir knatt­spyrnu­sögur land­anna saman.

 

Förum til ársins 1991. Sumarið það ár var einstaklega hlýtt. En um þetta hlýja sumar komu ekki bara geitungar. Því hinir hlýju suðrænu vindar, sem kannski komu alla leið frá Brasilíu, feyktu líka sjálfum knattspyrnusnillingnum Pelé hingað til lands.

 

kapa1

 

 

Árið 1991 kom ævisaga Pele út á íslensku og rataði eflaust í marga jólapakkana það árið. Enda var mynd á kápunni af Pelé umkringdum íslenskum börnum. Síðasti kafli ævisögunnar var um þessa ferð en Víðir Sigurðsson, landskunnur blaðamaður og knattspyrnusérfræðingur, skrifaði hann. Lemúrinn hefur þessa bók undir höndum.

 

Pelé kom til Íslands að kvöldi 11. ágúst 1991 og fór aftur að morgni 14. ágúst. Stutt heimsókn, en nýtt út í ystu æsar, því Brasilíumaðurinn fór í nokkurs konar hringferðum landið og hitti unga knattspyrnuáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.

 

 

Pelé, Geir Þorsteinsson, núverandi formaður KSÍ og fleiri knattspyrnumenn.

Pelé, Geir Þorsteinsson, núverandi formaður KSÍ og fleiri knattspyrnumenn.

 

 

Hann afhenti verðlaun á Norðurlandamóti drengjalandsliða í Eyjum, vígði knattspyrnuvöll á Egilsstöðum, fékk afhentan bæjarlykil á Akranesi og afhenti verðlaun KSÍ, svo stiklað sé á stóru. Lesum nokkra búta úr frásögn Víðis.

 

Heimsóknin vakti mikla athygli og Pelé var umkringdur hver sem hann fór. Og það var ekki bara yngri kynslóðin sem laðaðist að honum. Á Akureyri fór hann inn í stóra verslun, og þar varð öngþveiti, því afgreiðslukonurnar vildu allar fá mynd af sér með goðinu. Á flugvellinum á Egilsstöðum voru staddir ítalskir ferðamenn og augun ætluðu útúr höfðum þeirra þegar þeir sáu sjálfan Pelé þar. Á dauða sínum áttu þeir von, en ekki á því að rekast á sjálfan Pelé í lítilli flugstöð á Íslandi.

 

Ásgeir Sigurvinsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, var sérstaklega fenginn til að koma og fylgja Pele, til þess að Brasilíumaðurinn hefði félagsskap af manni sem þekkti knattspyrnuna frá svipaðri hlið.

 

Móttökunefndin hafði litla flugvél til umráða sem beið á Keflavíkurflugvelli og þaðan var flogið beint til Akureyrar og lent þar um miðnættið. Þó ekki allt snuðrulaust fyrir sig, því við komuna til Keflavíkur kom í ljós að ferðatöskur Pelés og fylgdarmanns hans, brasilíska lögfræðingsins Hélio Viana, sem er hans helsti ráðgjafi, höfðu ekki orðið samferða þeim til Íslands. Við eftirgrennslan kom í ljós að þær höfðu aldrei farið frá Ríó de Janeiro.

 

Þegar komið var inná herbergin á Hótel KEA, biðu þar allar helstu nauðsynjar. Stefán Gunnlaugsson, sem sá um móttöku Pelé á Akureyri, hafði brugðist skjótt við og útvegað náttföt, náttslopp, rakáhöld og annað nauðsynlegt á meðan vélin var á leiðinni norður. „Hann skildi náttfötin eftir, við björguðum þeim og ætli þau verði ekki boðin upp síðar meir!“ sagði Stefán!

 

Krakkarnir hópuðust að Pelé og hann reyndi allt fyrir alla að gera og vera sem persónulegastur við hvern og einn. Nokkurs konar blaðamannafundur var haldinn á Akureyrarvelli þar sem krakkar voru uppi í stúkunni en Pelé niðri á hlaupabrautinni. Krakkarnir fengu að leggja fyrir hann spurninga, sem voru túlkaðar fyrir Pelé og svör hans voru síðan túlkuð til krakkana.

 

Hann sagði að bestu minningarnar væru frá heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1958 þegar hann varð heimsmeistari 17 ára gamall með Brasilíu. Mestu vonbrigðin sagði hann hinsvegar vera þegar Brasilía féll útúr heimsmeistarakeppninni í Englandi árið 1966.

 

Akureyringum leist vel á kappann og gáfu honum góða einkunn: „Pelé sjarmeraði alla upp úr skónum, elskulegur og látlaus, hreinn öðlingur. Mannbætandi að hafa kynni af honum.“

 

egilsstadir1

Hvílík líkamsbeiting, hrein list! Pelé vígir fótboltavöll á Egilsstöðum með pottþéttu skoti.

Næst var farið til Egilsstaða þar sem svarta perlan vígði nýjan grasvöll knattspyrnudeildar Hattar. Hermann Níelsson, formaður deildarinnar, fylgdist forviða með snillingnum:

 

„Pelé og Ásgeir Sigurvinsson tóku miðju, og síðan dansaði Pelé upp völlinn með boltannn og skoraði með pottþéttu skoti frá vítateig í bláhornið. Ég hef aldrei séð aðra eins líkamsbeitingu við markskot, það var hrein list. Þó þarna væri fimmtugur maður á ferð, fór ekki á milli mála að um hreinan snilling var að ræða,“ sagði Hermann.

 

En Pelé var ekki bara snillingur í fótbolta að sögn þeirra sem komust í návígi við hann þetta sumar á Íslandi árið 1991. Ásgeir Sigurvinsson fylgdist með honum í flugvélinni á leið til Vestmannaeyja og sá að Pelé var klókur í að spara orku, gat slökkt á sér:

 

„Á leiðinni til Eyja sá maður hve vel Pelé hafði þjálfað sig í að nýta réttan tíma til að hvíla sig. Hann var ekki fyrr kominn upp í flugvélina en það slökknaði á honum og hann steinsvaf þar til rétt áður en við lentum. Þá sá hann Heimaey úr austri, en byggðin var í hvarfi. Hann var mjög heillaður af þessari sjón og spurði mig hvort ég ætti þessa eyju!“

 

Í Eyjum afhenti Pelé enska drengjalandsliðinu verðlaun fyrir að hafa sigrað svokallað norðurlandamót sem haldið var þar. Ensku strákunum fannst ótrúlegt að hitta sjálfan Pelé á þessari furðulegu eyju.

 

Pelé fór í þyrlu frá Reykjavík til Akraness, þess mikla fótboltabæjar og snæddi hádegisverð með ýmsum gömlum kempum, til dæmis Ríkharði Jónssyni. Pelé fékk að gjöf handprjónaða ullapeysu sem gömul kona á Akranesi prjónaði.

 

Þyrlan skilaði Pelé aftur til Reykjavíkur og lenti á Hótel Loftleiðum. Pelé fór þar á blaðamannafund. „Þó ekki allir, lögfræðingurinn Hélio Viana notaði tímann til að skjótast í fataverslun og kaupa spariföt á Pelé í stað þeirra sem voru í farangrinum sem aldrei kom, og sem betur fór hitti hann á föt sem smellpössuðu á kappann!“

 

pele19915 egilsstadirpele Pele1991 2

 

Í Reykjavík heilsaði Pelé upp á krakka á Laugardalsvelli og fór á hátíðarkvöldverð á Grillinu á Hótel Sögu með stjórn KSÍ, en þar voru líka Davíð Oddsson forsætisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra.

 

Morguninn eftir, hinn 14. ágúst 1991 flaug hann frá Keflavík til Sviss þar sem hann fylgdist með heimsmeistaramóti unglinga.

 

Allir voru ánægðir með heimsókn Pelés til Íslands. Hann þótti koma sérlega vel fram, hefði verið hógvær, ljúfur, einlægur. „„Elskulegur“ er lýsingarorð sem nokkrir viðmælendur gripu til þegar þeir voru beðnir um að segja frá kynnum sínum við Pelé, skrifar Víðir Sigurðsson höfundur þessarar greinar sem við höfum verið að lesa úr.

 

Sérstaklega þótti Pelé bregðast ljúflega við þó ferðatöskurnar hefði aldrei skilað sér frá Brasilíu. Hann hlýtur að hafa orðið uppiskroppa með föt fyrst lögfræðingur hans fór í fataverslun í Reykjavík í leit að sparifötum á hann.

 

Síðustu orðin í frásögn Víðis Sigurðssonar af heimsókn Pelés til Íslands voru svona:

 

Einn þeirra sem rætt var við um Íslandsferð Pelé, sagði að sér væri til efs að frægari maður hefði stigið á íslenska grundu, að forsetum stórveldanna meðtöldum. (það er að segja Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhaíl Gorbasjeff leiðtoga Sovétríkjanna sem hist höfðu í Reykjavík fimm árum áður).

Pele1991

Pele4

Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi tekur á móti Pelé.

 

Pele8

Pele6

 

Pele7

 

Pele5

Pele2

 

Pele1