Hér að ofan sjáum við rithöfundinn Arthur C. Clarke og kvikmyndaleikstjórann Stanley Kubrick á meðan tökur stóðu yfir á meistaraverkinu 2001: A Space Odyssey. Og fyrir neðan eru margar fleiri frábærar ljósmyndir.
Fáar kvikmyndir hafa haft jafnmikil áhrif og þessi góða geimmynd frá 1968, sem Clarke og Kubrick skrifuðu saman og sá síðarnefndi leikstýrði. Segja má að hún hafi gerbreytt sögu vísindaskáldsögulegra mynda.
Greinin var færð upp á hærra plan. Vísindaskáldsagnagerð er ekki tómt afþreyingarform. Margar merkilegar bækur eru skrifaðar innan þess geira og nú var loksins komin kvikmynd sem sýndi það og sannaði.
Myndin þótti mikið afrek. Það er ekki sjálfsagt mál að kvikmynda „í geimnum“ eins og við sjáum á þessum myndum, sem Lemúrinn fann hér.
Í örstuttu máli er söguþráður kvikmyndarinnar á þá leið að óþekkt menning geimvera fylgist með þróun lífs á Jörðu og hefur áhrif á hana. Dularfullur hlutur birtist meðal mannapa í Afríku og hrindir þeim áfram á þróunarbrautinni.
Löngu seinna finnst samskonar hlutur á Tunglinu og sendir frá sér merki til Júpíters. Geimskipið Discovery er því gert út þangað.
Á leiðinni fer allt í handaskolum þegar hin skyni gædda tölva, HAL-9000, gerir uppreisn þegar tveir geimfarar ætla að aftengja hana af því að þá grunar að hún sé biluð.
Tölvan drepur geimfarann Frank Poole en David Bowman nær að lokum að taka HAL úr sambandi.
Þegar til Júpíters kemur uppgötvar Bowman risastóran hlut af sama tagi og fundist hafði á Tunglinu en þegar hann fer að rannsaka hlutinn hverfur hann inn í dularfulla innri veröld sem ekki er gott að segja hvort er raunveruleg eða hugarástand, líf eða dauði.