Þegar Jóhannes Birkiland fór í leynilega leigubílferð í Alþingishúsið til að selja bækur og gerði upp auðmýkt við þingforsetann.
Ármann Kr. Einarsson (1915-1999) var einn afkastamesti höfundur barna- og unglingabóka á Íslandi á tuttugustu öld. Árið 1997 gaf hann út sjálfsævisöguna Ævintýri lífs míns, þar sem hann sagði meðal annars frá kynlegum kvistum og furðulegu fólki í Reykjavík. Ármann starfaði sem leigubílstjóri í íhlaupavinnu og hitti þar mann og annan. Þessa sögu segir hann af Jóhannesi Birkiland, rithöfundi og lífskúnstner, sem frægastur var fyrir bókina Harmsaga æfi minnar.
Má ormurinn líta upp til sólarinnar!
Einn sérkennilegasti maður er ég kynntist á árunum, sem ég hafði leigubílaakstur að ígripavinnu var Jóhannes Birkiland. Hann var draumóramaður og skáld, sem hafði mistekist flest í lífinu. Böl sitt og andstreymi rakti hann til æskuáranna í Skagafirði. Uppeldið hafði brugðist og lítið varð úr skólagöngu. Þó var á allra vitorði að pilturinn væri fluggreindur. Kannski var það upphafið að því að hann áleit sig sjálfur öllum öðrum snjallari. Laust eftir tvítugsaldur heldur hann til Vesturheims. En þar var ekki að finna gull né græna skóga. Eftir margra ára flæking erlendis hélt hann heim slyppur og snauður.
Jóhannes var sískrifandi og orti bæði á ensku og íslensku. Hann gaf út tímarit, blöð og bæklinga, sem hann síðan seldi mest sjálfur. Stærsta verk hans var Harmsaga ævi minnar, sem kom út í fjórum heftum á fimmta áratugnum. Það var við sölu þeirrar bókar, sem ég kynntist Jóhannesi. Þá var hann kominn yfir miðjan aldur, kvæntur og átti þrjár dætur. Við fyrstu kynni vakti Jóhannes ekki sérstaka athygli. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, toginleitur og gekk með gleraugu. Í skrifum sínum og tali var Jóhannes frægur fyrir stóryrði og illkvittni. Hann gat líka verið spaugsamur og klókur í tiltektum sínum. Þá hlið draumóramannsins þekkti ég best.
Fyrsta bíltúrnum sem ég keyrði Jóhannes gleymi ég aldrei. Hann kom á stöðina með skjalatösku og dálítinn bókapakka undir hendinni og bað um bíl. Ég var næstur í röðinni og kom það í minn hlut að keyra hann. Jóhannes settist í aftursætið og bað mig að keyra að Alþingishúsinu bakdyramegin. Ég varð mjög undrandi, þetta voru ekki nema nokkrar húslengdir og ekki var þyngdinni fyrir að fara á bókunum sem hann hélt á. Ég fór að sjálfsögðu eftir ósk viðskiptavinarins og ekki minnkaði undrun mín, þegar hann bað mig um að fela bílinn svo að hann sæist ekki út um glugga Alþingishússins.
Það þætti kannski flottræfilsháttur af vesælum farandbóksala að keyra um í rándýrum leigubíl. Ég ætla nefnilega að selja Gísla Sveinssyni þingforseta ævisögu mína, hélt Jóhannes áfram, ekki bara síðasta heftið, heldur öll heftin fjögur sem út eru komin. Þau eru nokkuð dýr, tautaði skáldið og nefndi nokkur þúsund krónur. Ekki skaðar að bæta við nokkrum pésum, sumum á ensku. Heimsmálið ætti alténd að njóta virðingar í augum menningarvita og þingskörunga, sagði hann og brosti kíminn.
Jóhannes var nú búinn að opna bókapakkann og setja þessar tilteknu bækur í skjalatöskuna.
Heldurðu að mér takist að selja þetta allt saman einum og sama manni? spurði Jóhannes um leið og hann snaraðist út úr bílnum, gráglettinn á svip.
Það þykir mér ótrúlegt, svaraði ég í hreinskilni.
Nokkur stund leið og ég beið í bílnum.
Skyndilega birtist Jóhannes aftur skælbrosandi með tóma skjalatöskuna undir hendinni og hlammaði sér inn í bílinn.
Keyrðu í burtu, fljótt, fljótt!
Ég hlýddi og beygði á stundinni út í Vonarstrætið.
Heppnaðist salan?
Já, já og meira en það, svaraði Jóhannes ofsakátur. Ég hugsa mér gott til glóðarinnar seinna.
Gísli er höfðingi!
Já, hélt hann áfram, en metnaðargirni og hégómaskapur hans er yfirgengilegur og á það spilaði ég.
Nei, hvað segirðu!
Jú, sjáðu til. Mér var vísað af ritara hans inn í stórt herbergi þar sem þingforsetinn sat við gríðarlega stórt skrifborð. Ég gekk hægt og settlega inn gólfið og hneigði mig lítilsháttar einu sinni eða tvisvar á leiðinni. Þegar ég nálgaðist skrifborðið nam ég staðar, hneigði mig djúpt og sagði hátíðlegri röddu:
Má ormurinn líta upp til sólarinnar?
Þingforsetinn reis virðulega á fætur, horfði hátt og það var gleðiglampi í augum hans.
Gerðu svo vel.
Ég bar upp erindi mitt og við ræddum saman litla stund.
Ég kaupi öll skáldverk yðar samlede værker, sagði Gísli loks, hripaði eitthvað á miða og rétti mér miðann. Ritarinn minn greiðir yður peningana.
Ég þakkaði auðmjúkur, kvaddi og gekk nokkur skref aftur á bak um leið og ég fór. Allt kom þetta heim og saman, ritarinn borgaði mér bækurnar áður en ég yfirgaf húsið.
Nokkrum sinnum keyrði ég Jóhannes í söluferðum hans. Ekki man ég eftir að hann hefði meðferðis mikið af bókum og aldrei fór hann út úr bænum. Mér fannst hann dálítið flott að taka leigubíl til að snúast með sig um borgina. Sjálfsagt hefur hann aldrei kunnað með peninga að fara, enda bláfátækur alla sína ævi.
Eitt sinn var öll fjölskyldan með Jóhannesi í bílnum, Ragnhildur Magnúsdóttir kona hans og dæturnar þrjár, sem þá voru sjö og átta ára. Konan minnist á að kaupa einhverja hressingu. Skáldið kvaðst enga peninga hafa fyrr en hann væri búinn að selja eitthvað.
Ég kenndi hálfpartinn í brjósti um fjölskylduna og bauð öllum heim í kaffi á Eiríksgötuna.
Eru nokkur veikindi í húsinu? spurði Jóhannes.
Ekki það ég veit, svaraði ég dálítið undrandi. Seinna varð mér kunnugt að Jóhannes var sjúklega sótthræddur.
***
Titlar eftir Jóhannes Birkiland hjá Bókin.is.