Frakkinn Louis-Jacques-Mandé Daguerre fann árið 1839 upp sniðuga aðferð í ljósmyndun sem fékk nafn hans, daguerréotype. Hann var einn helsti þáttakandinn á bernskuárum ljósmyndatækninnar. Daguerréotype er flókin og seinvirk aðferð en nýttist mjög vel í upphafi.

 

Í fróðlegri umfjöllun á síðu Ljósmyndarafélags Íslands er sagt frá upphafi ljósmyndatækninnar:

 

„Sögu ljósmyndatækninnar má rekja til franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce en hann hóf að gera tilraunir árið 1816. Árið 1824 tókst honum að gera varanlega mynd.

 

Sá sem tók við af Niépce í þróun ljósmyndatækninnar er annar franskur maður, Louis-Jacques-Mandé Daguerre og er upphaf ljósmyndarinnar yfirleitt miðað við árið 1839 þegar hann kynnti nýja tækni fyrir meðlimum frönsku vísindaakademíunnar. Daguerre byggði niðurstöður sínar að hluta til á niðurstöðum Niépces og urðu þeir samstarfsmenn.

 

Daguerre tæknin var við lýði í nokkur ár og hafa varðveist um tuttugu slíkar myndir af íslenskum mönnum og er sú elsta af Benedikti Gröndal, skáldi og náttúrufræðingi, tekin í Kaupmannahöfn 1848 og er handlituð deguerrótýpa. Tveir íslenskir menn, Helgi Sigurðsson, prestur á Melum í Melasveit og Siggeir Pálsson, prestur á Skeggjastöðum á Langanesströnd lærðu að taka ljósmyndir með aðferð Daguerres, en engar varðveittar daguerreótýpur eru eignaðar þeim.“

 

Hér eru nokkrar daguerréotype-myndir sem bandaríska þingbókasafnið Library of Congress geymir. Þær sýna ýmsa verkamenn í kringum 1850 sem stilla sér stoltir upp með verkfærum sínum.

 

Minnir skemmtilega á myndirnar af rússnesku verkamönnunum sem teknar voru á svipuðum tíma.