Árið 1930 var blásið til stórhátíðar á Þingvöllum dagana 26.-28. júní. Tilefni hátíðarhaldanna var að þúsund ár voru þá liðin frá stofnun allsherjarþings á Íslandi. Kristján 10. konungur Danmerkur (og Íslands) kom til landsins af þessu tilefni og setti hátíðina. Hátíðin var vel sótt, en talið er að um 30-40.000 manns hafi verið á Þingvöllum í tengslum við hana.
Valgerður Tryggvadóttir, sem er lesendum Lemúrsins að góðu kunn vegna myndanna sem hún tók af NATO-mótmælunum, var þá 14 ára gömul og fylgdist með öllu sem fyrir augu bar. Hún festi á filmu ýmislegt markvert í tengslum við konungsheimsóknina og hátíðarhöldin, en Lemúrinn hefur nú fengið góðfúslegt leyfi til að birta þær myndir í fyrsta sinn.
Dagarnir í kringum hátíðina voru fyrir margar sakir merkilegir. Það var ekki alvanalegt að Danakonungur, sem þá bar raunar titilinn „Konungur Íslands og Danmerkur“ kæmi til landsins, og var nokkur viðhöfn í tengslum við þá heimsókn. Í föruneyti konungs var svo Valþjófsstaðahurðin, sem Danir skiluðu Íslendingum í tengslum við hátíðina. Þá var haldið norrænt stúdentamót í Reykjavík auk fjölda list- og menningarviðburða.
Áhugi á komu konungs og hátíðinni náði jafnvel út fyrir landsteinana, en erlend dagblöð fjölluðu meðal annars um efnið. Fulltrúar Íslands ytra söfnuðu slíkum úrklippum samviskusamlega og sendu þær heim. Skemmtilegt er að virða fyrir sér erlendu úrklippurnar í tengslum við myndir Valgerðar, sem sýna sömu viðburði, en frá öðru sjónarhorni.