Árið 1949 samþykkti ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Ákvörðunin var mjög umdeild á sínum tíma, og fjöldi manns safnaðist saman við Austurvöll þann 30. mars í mótmælaskyni. Eins og frægt er, kom til harðvítugra átaka milli andstæðinga samningsins, lögreglu og stuðningsmanna aðildar.
Valgerður Tryggvadóttir var þá 33 ára gömul og bjó við Tjarnargötu. Hún fylgdist með atburðunum þennan dag og tók nokkrar magnaðar ljósmyndir af framvindu mála. Þær hafa nú uppgötvast og birtast opinberlega í fyrsta skipti hér á Lemúrnum.
Fyrir tilviljun hefur Valgerður áður birst lesendum Lemúrsins. Hún var á ljósmynd í safni Hollendingsins Willem van de Poll sem kom til Íslands sumarið 1934 þegar Valgerður var 18 ára gömul.
Talið er að um 8-10 þúsund manns hafi verið á Austurvelli þennan dag. Átökin voru hörð og þeim lauk ekki fyrr en lögreglan dreifði táragasi um þetta annars friðsæla torg í hjarta Reykjavíkur.
Skrif dagblaðanna í kjölfar atburðanna bera glöggt vitni um andstæðurnar í íslenskum stjórnmálum á þeim tíma. Þjóðviljinn sagði að ákvörðun Alþingis hefði verið tekin „í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“ og kallaði þá sem samþykktu aðild að NATO Bandaríkjaleppa. Morgunblaðið sparaði heldur ekki stóru orðin og sagði að „trylltur skríll hefði ráðist á Alþingi“.

Fólk er byrjað að safnast saman fyrir framan Alþingishúsið. Allar rúður á Alþingishúsinu eru enn heilar.

Yfirlitsmynd yfir Austurvöll. Búið er að byrgja fyrir gluggana á húsunum í baksýn. Væntanlega hafa eigendur búist við vandræðum.

Fyrir framan Alþingi. Lögreglumenn eitthvað farnir að ókyrrast. Efst til hægri horfa erlendir ferðamenn á Hótel Borg yfir völlinn.

Fólki er farið að hitna í hamsi. Lögreglumenn reiða kylfur á loft. Gluggar Alþingishússins eru mölbrotnir eftir grjóthríð.