Ég rata í huganum að þessum steini þó ég sé í annarri heimsálfu og það sé liðinn langur tími frá því ég var í kirkjugarðinum gamla við Suðurgötu. En ég þvældist mikið í honum þegar ég var lítill. Heilinn ræður við þetta og dregur upp mynd af kirkjugarðinum, þó eflaust sé kortið kolrangt á sumum stöðum.
Legsteinninn er stór og stæðilegur, þungur og þykkur og því tilkomumikil sjón þegar hann kemst í sjónlínu þeirra sem ganga krákustíginn sem er næstur honum, en hann er kannski ekki oft genginn.
Á menntaskólaárunum vann vinur minn í garðinum. Hann sló þar gras og hafði lesið á næstum hvern einasta legstein yfir sumarið. Og eitt laugardagskvöldið þegar við vorum á leiðinni í bæinn komum við í dimmum kirkjugarðinum með volgar bjórdósir í Bónus-pokum.
Hann leiddi mig að þessum steini. „Sjáðu, hvað hann var ungur þessi, þegar hann dó. Hann var fótboltamaður. Markvörður. Hann dó í miðjum leik,“ sagði hann.
Ég trúði því svona mátulega. En virti legsteininn fyrir mér. Stórt merki íþróttafélagsins Vals. Og þessi áletrun:
Jón Karel Kristbjörnsson, F. 19. des 1911, D. 17. júní 1933.
Kveðja frá Val.
En svo héldum við leið okkar áfram og ég hugsaði ekki meira um þetta. Ekki fyrr en um daginn að ég sá þessa heimildarmynd á netinu:
Hún er eftir bandaríska heimildarmyndamanninn Errol Morris og ber nafnið Sport Funerals. Hún segir frá amerísku fólki sem vill láta grafa sig með merkjum uppáhaldsíþróttafélaga sinna á líkkistunni og legsteininum.
Ég fór á Google og leitaði að Valslegsteininum. Og þetta var eins og vinur minn, sláttumaðurinn (slyngi) í kirkjugarðinum hafði sagt. Björn Th. Björnsson fræðimaður segir frá umræddum legsteini í bók sinni Minningarmörk í Hólavallagarði:
Til eru […]þeir sem láta ekki nein andlegheit trufla sig frá veraldlegu gammni, svo sem sjá má á legsteini í reit O 301, þar sem merki fótboltafélagsins Vals, valur með knött í klónum, trónar stoltlega yfir nafni hins látna. Slík veraldarhyggja er þó afsakanleg um þann sem hér hvílir, Jón Karel Kristbjörnsson (1911-1933), því slys á knattspyrnuvellinum á Melunum varð honum að aldurtila. Merkið sjálft er frábært steinhögg, en þar hélt Ársæll steinsmiður Magnússon um meitil og hamar.
„Er Jón óefað langbezti markvörður hér í Reykjavík“
Alþýðublaðið birti sumarið 1930 grein um úrslitaleik Íslandsmótsins í knattspyrnu sem fram fór á milli KR og Vals. Leikurinn endaði með 2-1 sigri Vals. Einar Björnsson, knattspyrnugagnrýnandi blaðsins, skrifaði þetta:
„Gerðu nú KR-ingar enn mjög harða sókn. En erfiði þeirra bar ekki árangur. Allar sóknir þeirra stöðvuðust á hinni ágætu varnarlínu Vals; Nokkrum skotum komu þeir þó á markið, en markvörður Vals, Jón Kristbjörnsson var ekki síður starfi sínu vaxinn en félagar hans. Tók hann knöttinn hvar og hvernig sem hann kom á markið. Er Jón óefað langbezti markvörður hér í Reykjavík.“
Og sumarið 1933 voru Reykjavíkurstórliðin Valur og KR í eldlínunni eins og svo oft áður á Íslandsmótinu. Fram og Víkingur voru hin liðin á mótinu, sem var smátt í sniðum á þeim árum. Allir leikirnir fóru fram á Melavellinum.
Valur og KR kepptu til úrslita 15. júní. Var Jón Karel í marki. Leikurinn var rifjaður upp í Valsblaðinu árið 1961.
Þetta ár verður lengi minnisstætt, fyrir þá sök, að í úrslitaleik milli Vals og KR skeði það að markmaður liðsins, Jón Karel Kristbjörnsson, slasaðist svo illa að hann lézt af þeim völdum 2 dögum síðar. Mun hann hafa rifnað innvortis og fengið lífhimnubólgu, sem leiddi hann til dauða.
Var mikill mannskaði að Jóni, sem var mjög efnilegur maður, góður markvörður og hafði verið meðal þeirra sem haldið höfðu hvað lengst hópinn og leikið í aðalliðinu undanfarin ár, og í yngri flokkunum.
Þegar slysið vildi til stóðu leikar þannig, að jafntefli var 2:2, en er Jón féll á völlinn náði framherji KR knettinum og sendi hann í mannlaust markið. 3:2 fyrir KR.
Varamarkvörðurinn, Hermann Hermannsson, er tekinn í markið. En við þetta áfall, að markvörðurinn verður að hætta, þjappast liðið svo saman, að sjaldan hefði betur til tekizt, og á næstu 40 mín. skorar Valur 4 mörk, og vann leikinn 6:3.
Valur sá um útför Jóns heitins og var hún hin virðulegasta.
Frumstætt „Photoshop“
Eftir þennan hörmulega endi á Íslandsmótinu var venju samkvæmt tekin ljósmynd af hinum nýkrýndu Íslandsmeisturum. En Jón Karel gat ekki verið með. Var því brugðið á það ráð að beita frumstæðri tækni í myndvinnslu og klippa hinn látna unga mann inn á ljósmyndina. Var Íslandsmeistaramyndin frá 1930 notuð til bragðsins.
Ég held að ég hafi ekki séð tragískari ljósmynd af fótboltaliði.
„Við minnumst þín, er þú sem lítill drengur varðir mark félags þíns fyrsta sinni.“
Að lokum er hér úrklippa úr blaðinu „Valur 25 ára“ sem út kom árið 1936. Svona kvöddu liðsfélagarnir Jón. „Við minnumst þín sem góðs vinar og afbragðs leikbróður.“