Þessar ljósmyndir voru teknar árin 1876-1877 í London þegar sú borg var hulin þoku og kolareyk sem breytti dögunum í dimmar nætur. Vegna iðnbyltingarinnar flæddi fólk frá sveitunum og kol úr námunum til borgarinnar. Þetta var áratug áður en Kobbi kviðrista lét til skarar skríða og hver veit nema að hann leynist á þessum myndum.
Bretland var voldugasta ríki jarðar og Viktoría drottning og breska yfirstéttin stjórnaði nýlendum um allan heim frá þessari borg. Sama ár og myndirnar voru teknar tók drottningin sér titilinn Empress of India, keisaraynja af Indlandi. Hún ríkti yfir heilu álfunum sem hún heimsótti aldrei.
Bókasafn London School of Economics birtir myndirnar á Flickr-síðu sinni. Þar segir að ljósmyndirnar hafi birst í tímaritinu Street Life of London. Útgefandi þess var ljósmyndarinn sjálfur, John Thompson. Með myndunum birtust textar eftir blaðamanninn Adolphe Smith þar sem myndefninu var lýst. Ljósmyndatæknin var ekki gömul og þetta var með fyrstu tilraunum manna í ljósmyndablaðamennsku (photojournalism).
Með myndunum fylgja stuttir en hnitmiðaðir textar sem enn eru mjög læsilegir. Hér er rætt við aragrúa fólks sem lifði við kröpp kjör í lægsta þrepi hinnar alræmdu bresku stéttskiptingar á Viktoríutímanum. Þetta eru til dæmis blómasalar og sótarar, skóburstarar og lásasmiðir.
John Thompson tók allar myndirnar og tilvitnanir eru úr textum Adolphe Smith.
Skiltaberi. „Ef þeir ganga á gangstéttinni, fleygir lögreglan þeim grimmilega í strætið, þar sem þeir flækjast á milli vagnhjóla, og þar sem leiguvagnar og aðrir hestvagnar keyra miskunnarlaust á þá.“
Jarðarberjasalar. „Árstíð jarðarberjanna, bestu ávaxta Englands, er lokið. Aðrar óæðri lyktir eru komnar í stað hins ljúfa angans berjanna sem sumargolan flutti á milli húsasunda - það er hið venjubundna andrúmsloft hinna yfirfullu hverfa, það er haustlyktin af rotnandi dýrum og grænmeti, sem loðir við lágstéttarhverfi London.“
Starfskraftar á flutningabátum á Thames-fljóti. „Þeir eru flestallir harðdugleg og samviskusöm gæðablóð. Fátækt þeirra kemur í veg fyrir að þeir geti menntað börnin sín. Þess vegna eru langflestir þeirra ólæsir.“
„Fjörutíu og þrjú ár á götunum og rúmlega það, og fyrir utan gigtina, líður mér alveg jafn vel og flestir myndu óska sér,“ sagði Cast-Iron Billy vagnstjóri.
Ódýr fiskur úr tunnu.
Black Jack og asninn hans.
Hálfpenníís. „Ítölsku ískarlarnir gefa London sérstakt yfirbragð, en þeir eru hins vegar almennt hunsaðir af almenningi. Við tökum svo oft eftir tunnunum á ólíkum stöðum sem æst og gráðug börn umkringja, en við gleymum því hversu umfangsmikið og flókið ferlið það er að dreifa þessu góðgæti um alla London.“
„Ljósmyndin sýnir hóp verkamanna sem eru í vinnu hjá Herra Dickson, hinum þekkta blómakaupmanni. Bissnessinn snýst eingöngu um blóm og þeir snerta aldrei á grænmeti né ávöxtum.“
Menn sem selja auglýsingar sem þeir hengja upp á veggi.
„Fyrrum fangar og ýmis grey fá að snæða á þessum veitingastað og eru alltaf velkomnir aftur.“
„Second-hand“ fatabúð.
Skiltagerðarmaðurinn Tickets.
Jacobus Parker, skóburstari. „Þrátt fyrir að ferill Parker hafi verið eins og þoka og ævisaga hans snúist að mestu um baráttu og vonbrigði, hefur hann barist af hugrekki, og er öldungur með mörg ör.“
Sótarinn John Day.
Skransalar.
Trúðurinn Caney var hæfileikaríkur leikari. Hann átti farsæl ár á sviðinu framan af en meiðsli enduðu ferilinn. Eftir það vann fyrir sér með því að gera við stóla. „Á jólunum dregur hann stundum fram gamla trúðabúninginn og gengur um götur með æstum listamönnum.“
Ljósmyndari og aðstoðarmaður hans, „Donkey-Boy“.
Menn sem starfa við götuauglýsingar. Þeir unnu frá sjö á morgnana til sjö á kvöldin.
„Götulæknir“ sem seldi hóstameðul og ýmis lyf.
„Opinberir sótthreinsarar. Til að minnka dánartíðnina, hefur nýleg heilsufarsreglugerð búið til stétt manna sem verða að vera í snertingu við hrikalegar hættur á degi hverjum.“
Hermenn nálægt Westminster Abbey.
Blómasalar í Covent Garden.
„Þrátt fyrir hina þekktu grimmilegu rödd, hrátt yfirbragð og kvartgjarnan tón eru vagnstjórar ávallt áreiðanlegir og samviskusamir.“
„Flækingar. Fólkið fer á flóamarkaði og útisölur og selur ódýra skrautmuni eða nytsamlegt smádót. Á ákveðnum árstímum vinnur þessi stétt í hverfum borgarinnar. Á öðrum árstíðum fer fólkið til sveitanna til að taka þátt í uppskerunni.“
Ungur skóburstari. „Móðir hans þarf að hjúkra fötluðum eiginmanni og drengurinn verður að vinna.“
Ítalskir götutónlistarmenn.
Notuð húsgögn til sölu.
Öskukarlar.
Fisksalar.
Lásasmiður.
Vatnsberi.
Smith kallaði stétt betlara „The Crawlers“, þá sem skríða. „Það má segja að þeir gangi um göturnar með annað augað opið en hitt lokað, svo veikburða eru þeir.“
Reykt og drukkið eftir annasaman dag.