James Abram Garfield (1831 – 1881) var tuttugasti forseti bandaríkjanna, og einn af fjórum bandaríkjaforsetum sem myrtir voru í embætti.  Það er hins vegar spurning hvort það hafi verið byssukúla morðingjans sem varð honum að bana, eða skelfileg vanhæfni skottulæknanna sem önnuðust hann í kjölfarið.

Garfield forseti (vinstri) og maðurinn sem skaut hann, Charles Guiteau (hægri).

 

Charles Guiteau, ungur predikari með geðraskanir, hafði skrifað ræðu Garfield til stuðnings í forkjöri Repúblíkanaflokksins vorið 1881.  Að launum hafði hinn ungi draumóramaður hugsað sér sendiherrastöðu í Vín eða París og mætti dag eftir dag í Hvíta húsið til þess að krefja forsetann um embættið.  Garfield hunsaði þessar beiðnir, og Guiteau var að lokum sagt að hypja sig og koma aldrei aftur.  Í bræði sinni fór Guiteau að elta forsetann hvert sem hann fór, bíðandi eftir tækifæri til þess að ná fram hefndum.

 

Garfield forseti liggur eftir byssuskotin.

Þann 2. júlí 1881 var Garfield forseti staddur á lestarstöðinni í Washington, á leið í sumarfrí í New Jersey, þegar Guiteau steig fram úr mannþrönginni og skaut hann tvisvar.  Fyrri kúlan fór í gegnum handlegg Garfields án þess að valda meiriháttar skaða en sú síðari festist djúpt í fituvefjum í kviði hans.  Forsetinn hneig niður á gólfið og engdist um af sársauka á meðan lögreglumenn handsömuðu Guiteau.

 

Fyrsti læknirinn til þess að mæta á svæðið gaf forsetanum brennivín og ammóníak, með þeim afleiðingum að hann kastaði upp.   Síðan mætti D. W. Bliss nokkur á svæðið, en hann var frægur læknir í Washington og auk þess bernskuvinur forsetans.  Bliss hófst handa við að troða járntein inn um skotsárið í leit að kúlunni.  Teinninn festist innan um brotin rifbein forsetans, sem öskraði af sársauka. Bliss reyndi þá að ná teininum út með því að stinga skítugum puttunum djúpt inn í sárið.  Að þessu loknu var ákveðið að flytja forsetann í Hvíta húsið.  Þar mætti Dr. Baxter nokkur á svæðið, en hann var persónulegur læknir forsetans.  Ekki leist Bliss á þennan keppinaut sinn, og brátt kom til slagsmála þeirra á milli við sjúkrarúmið.  Bliss varð ofan á í átökunum, og eftir barsmíðarnar gerði Baxter ekki frekari tilraunir til þess að annast forsetann.

 

Læknar við rúmstokk forsetans (úr Kiplinger-safninu, 1881).

 

Næstu vikurnar leituðu margir helstu læknar Bandaríkjanna til Washington, allir sem einn spenntir að fá að annast forsetann.  Hver á fætur öðrum tróðu þeir skítugum puttum og ósótthreinsuðum læknatólum inn í sárið, og brátt var 7 sentimetra gatið í kviðnum orðið að 25 sentimetra djúpum, stórkostlega sýktum skurði.  Gulir vessar láku úr sárinu í miklu magni, en læknarnir töldu þetta vera merki um bata.

 

Eftir að sýkingunni varð ágengt átti Garfield erfitt með að halda niðri mat og ældi sífellt af mixtúrunum sem læknarnir píndu ofan í hann.  Hann léttist um 40 kíló á örskömmum tíma.  Þá var ákveðið að gefa honum mat í gegnum stólpípu, og píndu læknarnir upp í endaþarm hans blöndu af eggjum, kjötkrafti, viskí, ópíum og öðru gómsæti.  Þetta gerði ekkert til þess að lækna sýkingu forsetans, en hann lést að lokum 19. september 1881, eftir 80 daga af skelfilegri þjáningu.

 

Garfield forseti deyr umkringdur skottulæknunum.

 

Engar sjúkratryggingar voru í boði í Bandaríkjum 19. aldar, og „læknismeðferð“ forsetans reyndist feikilega dýr.  Skottulæknarnir kröfðust samtals 90 þúsund dollara í laun, sem bandaríska þingið samþykkti að greiða að mestu.   Af Guiteau er það að segja að hann ákvað að verja sig sjálfur fyrir rétti, sagðist saklaus og ásakaði læknana um að hafa gengið að forsetanum dauðum.  Hann var snarlega sakfelldur og hengdur — örlög sem læknar Garfields áttu ef til vill ekki síður skilið.

 

Guiteau í réttarsalnum.