Frakkanum Jean-Claude Romand, sem myrti foreldra sína, konu og börn árið 1993, hefur verið sleppt úr fangelsi eftir 26 ár. 

Allir ættu að lesa meistaraverkið Óvininn, bókina sem fjallar um voðaverkin og persónuleika morðingjans frá ýmsum hliðum.

Áður en hann framdi morðin lifði Romand tvöföldu lífi í 18 ár. Fjölskyldan hélt að hann væri læknir hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Sviss og rannsakaði æðakölkun.

En í raun hafði hann aldrei lokið námi og vann hvergi. Á meðan hann þóttist vera í vinnunni ráfaði hann stefnulaust á landamærum Frakklands og Sviss og sveik peninga úr ættingjum. Romand myrti fjölskyldu sína í janúar 1993 þegar ættingjar og vinir voru farnir að gruna að maðkur væri í mysunni.


Sigurður Pálsson þýddi
„L’Adversaire“ eftir
Emmanuel Carrère.

Fyrst barði hann konu sína til bana með kökukefli. Daginn eftir horfði hann á teiknimyndir og borðaði morgunkorn með sjö ára dóttur sinni og fimm ára syni. Hann skaut þau síðan til bana með rifli.

Næst keyrði hann 80 km heim til foreldra sinna. Þar drap Romand móður sína og föður. Heimilishundinn líka.

Hann kveikti svo í húsinu sínu þar sem kona og börn lágu í blóði sínu og gleypti svefnpillur. En Romand mistókst að fremja sjálfsmorð og var handtekinn og síðar dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Fréttablaðið 2003.

Rithöfundurinn Emmanuel Carrère skrifaði bókina „L’Adversaire“ (Óvinurinn) um mál Romands sem byggð er á bréfasamskiptum þeirra. Lemúrinn mælir með þessari frábæru bók, sem kom út á íslensku árið 2002 í þýðingu Sigurðar Pálssonar. Hún hefst svona:

Að morgni laugardagsins 9. janúar 1993, á sama tíma og Jean-Claude Romand var að myrða konu sína og börn, var ég með fjölskyldu minni á foreldrafundi í skólanum hjá Gabríel, elsta syni okkar hjóna. Þá var hann fimm ára, jafngamall Antoine Romand. Á eftir fórum við í mat heima hjá foreldrum mínum og Romand fór heim til foreldra sinna og drap þau eftir matinn. Enda þótt ég sé yfirleitt með fjölskyldunni um helgar var ég einn á vinnustofu minni laugardagseftirmiðdaginn og áfram á sunnudeginum því ég var að keppast við að klára bók sem ég var búinn að vinna að í heilt ár. Þetta var ævisaga Philips K. Dick sem skrifaði vísindaskáldsögur. Síðasti kaflinn segir frá því er hann lá banaleguna í dauðadái. Ég lauk við bókina á þriðjudagskvöld og á miðvikudagsmorgni las ég í dagblaðinu Libération fyrstu greinina um Romandmálið.