Í rúma tvo áratugi hefur illræmdasta raðmorðingja í sögu Norðurlandanna verið haldið innan veggja réttargeðdeildarinnar í Säter í Svíþjóð. Quick hefur í gegnum tíðina gengist við fjölda ódæðisverka og lýst hrottalegri meðferð á fórnarlömbum sínum, nauðgunum og mannáti fyrir hverjum þeim sem vildi heyra. Það merkilegasta við sögu þessa þekktasta glæpamanns Svíþjóðar er að hann virðist ekki hafa framið neitt af þeim morðum sem hann hefur játað á sig.

 

Thomas Quick fæddist í Dölunum í Svíþjóð árið 1950 og var gefið nafnið Sture Ragnar Bergwall af foreldrum sínum (hann tók síðar upp nafnið Thomas eftir fyrsta fórnarlambi sínu og Quick sem var ættarnafn móður hans). Hann var einn af sex systkinum og framan af var ekkert sem benti til annars en að hann væri eðlilegur ungur drengur. Þegar hann komst á táningsaldur fór að bera á ögrandi hegðunarmynstri og stjórnsemi. Quick varð mjög trúaður á þessum árum og ætlaði sér að verða prestur, þó varð ekkert úr þeim áformum og byrjaði hann þess í stað að vinna á spítala í Falun strax eftir menntaskóla.

 

Árið 1969 hófst brotaferill Quicks þegar hann leitaði á fjóra unga drengi og var hann dæmdur til vistar á geðdeild árið eftir fyrir þau brot. Læknar þar komust að þeirri niðurstöðu að hann væri haldin barnagirnd og kvalalosta á háu stigi. Þeirri niðurstöðu var seinna meir snúið að mestu þegar dómnum var áfrýjað, honum var þó gert að vera áfram undir eftirliti geðlækna.

 

Árið 1974 framdi Quick sinn næsta glæp þegar hann stakk mann í Uppsölum. Þar sem hann var ennþá undir eftirliti lækna og hafði verið sviptur sjálfræði var hann ekki ákærður fyrir brotið. Næstu árin hélt hann sér innan ramma laganna og var það ekki fyrr en árið 1991 að hann var enn á ný dæmdur til meðferðar undir eftirliti geðlækna eftir að hafa tekið fjölskyldu í gíslingu og þvingað fjölskylduföðurinn til þess að greiða sér 245.000 sænskar krónur. Þá komust geðlæknar að þeirri niðurstöðu að Quick væri með geðklofaröskun.

 

quick007

 

Undir sálfræðimeðferð viðurkenndi Thomas Quick í fyrsta sinn að hafa framið morð. Var það á 11 ára gömlum dreng sem Quick sagðist hafa rænt og myrt árið 1980.

 

Thomas Quick átti aðeins vista á stofnuninni í skamman tíma en til þess kom ekki að honum var sleppt lausum. Meðan hann var vistaður innan veggja geðdeildarinnar í Säter viðurkenndi hann að hafa rænt og myrt ellefu ára dreng að nafni Johan Asplund árið 1980. Enn á ný var Quick læstur inn á geðdeild og var dælt í hann geðlyfjum í miklu magni. Í meðferðinni játaði hann að hafa framið þrjátíu morð í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi á árunum 1964-1993, þar sem persónluleikarnir Nana, Cliff og Ellington hafi sagt honum fyrir verkum.

 

Í yfirheyrslum lýsti Quick því fyrir lögreglu og læknum hvernig hann hafði misþyrmt fórnarlömbum sínum, nauðgað sumum þeirra, svívirt líkin og jafnvel lagt sum þeirra sér til munns.

 

Fyrstu réttarhöldin yfir Quick voru árið 1994 vegna morðsins á hinum 15 ára gamla Charles Zelmanovits. Við vitnaleiðslur lýsti Quick því hvernig hann og vitorðsmaður hans höfðu leitað að réttu fórnarlambi. Þegar þeir sáu Zelmanovits, buðu þeir honum far og fengu hann til þess að taka þátt í kynferðislegum athöfnum. Eftir að því var lokið sagðist Quick hafa kyrkt drenginn og bútað niður líkið. Lýsti hann því hvernig hljóð holdið gaf frá sér þegar hann skar í það og að lyktin hafi verið unaðsleg.

 

Annað og þriðja morðið sem hann var dæmdur fyrir var á hollensku hjónunum Marinus og Janny Stegehuis sem myrt voru í svefni á tjaldstæði árið 1984, en þau höfðu verið á ferðalagi um Svíþjóð.

 

Fjórða morðið sem hann hlaut dóm fyrir var á ísraelska námsmanninum Yenon Levi sem var í heimsókn hjá ættingjum í Rörshyttan. Quick sagðist hafa rænt honum fyrir utan lestarstöð ásamt vitorðsmanni og þegar Levi hafi reynt að flýja þá hafi hann drepið hann.

 

Fimmti dómurinn féll yfir Quick fyrir morðið á fimm ára norskri stúlku að nafni Therese Johannesen sem hvarf frá heimili sínu í Drammen í Noregi árið 1988. Sagðist hann hafa lamið höfði hennar utan í stein þar til hún lést. Sagðist hann sundurlimað hana, grafið líkamsparta á mismunandi stöðum og síðar snúið aftur til þess að brenna líkamsleifarnar. Við yfirheyrslur sagði Quick frá vonbrigðum vegna þess að stúlkan var ekki drengur.

 

Sjötta og sjöunda morðið sem Thomas Quick var dæmdur fyrir var á tveim norskum konum sem voru myrtar árið 1981 og 1985. Sagðist hann hafa nauðgað þeim, pyntað þær og síðan kyrkt þær.

 

Áttundi og síðasti dómurinn sem féll yfir Quick var vegna fyrsta morðsins sem hann játaði fyrir geðlæknum. Hinn ellefu ára gamli Johan Asplund var brottnuminn einhverstaðar nálægt heimili sínu í Bosvedjan árið 1980. Quick sagðist hafa dregið Asplund inn í bíl sinn og ekið með hann út í skóg. Þar sagðist hann hafa nauðgað honum, kyrkt hann og síðan bútað líkið í sundur. Líkamspartana sagðist hann ýmist hafa grafið eða borðað.

 

Quick játaði einnig að hafa framið tuttugu og tvö morð til viðbótar sem aldrei fóru fyrir dómstóla. Meðal þeirra voru morð á tveim sómölskum piltum í Noregi, þeir fundust síðar báðir á lífi en þeir höfðu látið sig hverfa sjálfviljugir.

 

 

download

 

Í viðtölum við lækna sagðist hann hafa átt hræðilega barnæsku og að hann hafi mátt þola mikið harðræði af höndum móður sinnar ásamt því að faðir hans hafi misnotað hann kynferðislega. Sagði hann að í eitt skiptið sem faðir hans hafi verið að misnota hann hafi móðir sín gengið inn á þá. Var hún þá þunguð og komin sjö mánuði á leið, við að sjá þetta varð henni svo um að hún hafi misst fóstrið samstundis fyrir framan þá feðga. Lýsti Quick því síðan hvernig faðir hans afhöfðaði látið barnið fyrir framan hann og að foreldrar hans hafi kennt honum um fósturlátið. Lýsti hann því síðan hvernig næstu ár hvernig móðir sín hafi ítrekað reynt að koma honum fyrir kattarnef. Ýmist með því að reyna að drekkja honum eða hrinda honum fyrir bíla.

 

Misnotkunin sem Quick sagðist hafa orðið fyrir af hendi foreldra sinna og sú hræðilega sýn sem hann varð vitni að þegar móðir hans missti fóstur var líklega einnig hugarburður hans. Ekkert bendir til þess að hann hafi sætt misnotkun af hendi foreldra sinna né nokkurs annars.

 

Árið 2008 fékk sænski rannsóknarblaðamaðurinn Hannes Råstam leyfi til þess að heimsækja Thomas Quick á réttargeðdeildina í Säter og út frá þeim viðtölum sem áttu sér stað þar gerði Råstam heimildamyndina Thomas Quick: Att Skapa en Seriemördare. Í viðtölunum viðurkennir Quick fyrir Råstam að hann hafi ekki framið einn einasta glæp af þeim sem hann játaði á sig, hvorki þá sem hann var dæmdur fyrir né hina. Út frá því var farið í nýjar rannsóknir á játningum Quicks og sakfellingum og út frá því hefur hver dómurinn á fætur öðrum verið ógildur og í dag, þann 31. júlí 2013, var Thomas Quick hreinsaður af síðasta morðinu sem hann var dæmdur fyrir.

 

Bendir allt til þess að haldist hafi í hendur slæleg vinnubrögð lögreglunnar í Svíþjóð sem og óstjórnleg lygasýki og persónuleikaraskanir Quicks sem hafi gert það að verkum að hann hefur verið á réttargeðdeild i í rúm tuttugu ár fyrir glæpi sem hann framdi aldrei.

 

Óvíst er nú hvað tekur við en miklar líkur eru á að Quick verði áfram undir eftirliti á viðeigandi stofnun þar sem hann er augljóslega ekki heill á geði, þó að kaldrifjaður morðingi sé hann ekki.

 

Vefsíða Quick.

 

Heimildamynd Hannes Råstam (ótextuð):

Vídjó

 

Heimildir:
http://www.dn.se/nyheter/sverige/bergwall-frias-for-alla-mord/

http://www.gp.se/nyheter/sverige/1.1872680-leif-g-w-god-chans-till-gigantiskt-skadestand-

http://www.aftonbladet.se/nyheter/article4021647.ab

http://www.gq.com/news-politics/newsmakers/201308/thomas-quick-serial-killer-august-2013?currentPage=1

http://www.aftonbladet.se/nyheter/article4021721.ab