Jólin árið 1944 voru síðustu jólin í Þýskalandi nasismans. Aðeins tæpi hálfu ári síðar hrundi ríki nasista til grunna þegar herir þess voru gersigraðir af Bandamönnum og foringinn Adolf Hitler framdi sjálfsmorð í loftvarnarbyrgi sínu í höfuðborginni Berlín.

 

En áróðursvél nasistaflokksins var enn í fullum gangi jólin 1944, þrátt fyrir að löngu ljóst væri orðið að Þýskaland myndi tapa síðari heimsstyrjöldinni og að þar í landi, eins og annars staðar, létust þúsundir manna á degi hverjum í hörmulegum stríðsátökum.

 

Hitler og félagar notuðu kirkjuna og siði hennar eftir hentisemi á valdatíma nasista. Til dæmis þekktist að skreyta jólatré með hakakrossum og öðru nasistaglingri.

 

Nasistaflokkurinn gaf út sérstakan jólabækling jólin 1944 með titlinum Deutsche Kriegsweihnacht (Þýsk stríðsjól).

 

Á einni síðunni var jólakveðja frá Adolf Hitler sem ekki getur talist sérstaklega jólaleg: Öll náttúran eru gríðarstór átök á milli styrks og veikleika, eilífur sigur hins sterka.“

 

Á annarri síðu var myndin af Hitler við jólatré og eftirfarandi hugvekja frá Jósef Göbbels, áróðursmeistara hans:

 

„Á þessu aðfangadagskvöldi skulum við hugsa um Foringjann, sem er allstaðar í anda þar sem Þjóðverjar koma saman, og við sameinum krafta okkar í þágu föðurlandsins. Þegar þessu stríði lýkur verður það mikilfenglegra, fallegra og enn ótrúlegra. Það verður stolt heimaland okkar allra. Við lofum Foringjanum nú á þessari stundu að hann geti reitt sig á fólkið sitt á vígvellinum, heima og víða um heiminn. Hann leiðir okkur áfram. Við fylgjum honum.“

 

Forsíðan á jólakveri nasistaflokksins.

 

Adolf Hitler við jólatréð.

 

Grafir fallinna hermanna og jólatré.

 

 

Hermenn hreiðra sig saman við lítið jólatré í skýli sínu á vígstöðvunum. Með myndinni fylgir bréf frá eiginkonu hermanns á jólunum 1943. Það endar svona: „Eins og hjá milljónum kvenna í dag, skín hjarta mitt af gleði og ást og lýsir upp vígvöllinn, gerir lengstu nótt ársins bjarta, þar sem þú stendur vaktina og berst fyrir okkur hin. Það ljós er innra með okkur og mun gefa okkur allan styrkinn sem til þarf til að komast alla leið yfir í ferskt vor. Það er mín sterka og óhaggaða von.“

 

Ungur hermaður og amma hans.

 

Jólakveðja frá Foringjanum.

 

Heimild: German Propaganda Archive/Deutsche Kriegsweihnacht (München: Franz Eher, 1944).