Í septemberlok árið 1976 brá hópur saumakvenna úr Lystadún sér í „lystireisu“ í Grafninginn. Reisa kvennanna tók fljótt óvænta stefnu þegar kolsvartur minkur „spratt upp undan fótum þeirra“ og gerði þeim bylt við.

 

Við þetta virðist morðæði hafa runnið á saumakonurnar. Vísir lýsti aðförunum svo þann 23. september 1976:

 

„Þær tóku þó fljótt við sér og hlupu allar á eftir minknum, sem sá þann kostinn vænstan að leggjast til sunds i Hagavíkinni. Saumakonurnar voru þó ekki af baki dottnar, heldur ráku minkinn með grjótkasti á land aftur, þar sem þær unnu svo á honum með spýtum og öðru lauslegu.“

 

Eftir að hafa ráðið niðurlögum hins loðna ófétis héldu saumakonurnar beinustu leið á ritstjórnarskrifstofu dagblaðsins Vísis, að sögn til þess að fá upplýsingar um hugsanleg veiðilaun fyrir minkinn. Óli Tynes blaðamaður tók við það tækifæri þessa mynd af illa leiknu minkslíkinu og stutt frétt um atburðinn birtist á þriðju blaðsíðu Vísis daginn eftir.

 

Af fyrirsögninni að dæma mætti halda að blaðamenn Vísis hafi fundist minksdráp saumakvennanna á einhvern hátt spaugilegt, en lesendur blaðsins voru því ekki allir sammála. Degi síðar, 24. september 1976, birti Vísir skilaboð frá lesenda, frú Guðrún Jakobsen, sem vandaði saumakonunum ekki kveðjurnar: