Sagt er að jöklarnir á Íslandi verði horfnir eftir 200 ár. Þá verður spennandi að sjá hvað kemur undan þeim. Fyrir rúmum 15 árum síðan fengum við ótrúlegan forsmekk að því.
Árið 1996 bræddi eldgosið í Grímsvötnum gríðarlega mikið af jökulvatni. Í háleynilegri aðgerð var ísjaki, sem rann undan Vatnajökli í Skeiðarárhlaupinu mikla 1996, fluttur á rannsóknarstofu í San Pedro í Los Angeles.
Í ísnum, sem nú bráðnaði hratt í sólinni í Kaliforníu, voru líkamar tveggja Íslendinga. Víkinga hvorki meira né minna sem uppi voru fyrir 1000 árum síðan. Þeir höfðu legið frystir í jöklinum og varðveist fullkomlega. Þetta virkaði eins og frystirinn sem Walt Disney er sagður geymdur í, sem mun þó reyndar ekki vera rétt.
Vísindamennirnir á rannsóknarstofunni voru sérfræðingar í lághitalíffræði og tóku til starfa með sín flóknu tól. Þeir töluðu hratt um amínósýrur, hugsanlegan frumuskaða og „unoflex gas system“ og eitthvað svoleiðis. Það skiptir ekki öllu máli, þeir kunnu sitt fag. Vísindamennirnir ýttu á takka í tölvunum og hrópuðu „Come on baby! Come on baby!“.
Diamont Teague, sérfræðingur í yfirnáttúrulegum fyrirbrigðum, fylgdist vel með öllu. Hann var einn þeirra er fór til Íslands og fann þessar merkilegu frystu (og hugsanlega lifandi) menjar um víkingaöldina.
Tölvukerfi hófu lokastig þiðnunar. Mikil gufa myndaðist og ýmis ljós blikkuðu. Eureka! Vísindamönnunum tókst ætlunarverk sitt. Annar víkingurinn hafði verið afþíddur og hjartsláttur mældist! Hér var semsagt elsti Íslendingurinn á lífi, yfir þúsund ára gamall og nú kominn alla leið til Los Angeles í Bandaríkjunum!
En Askur var ekki lengi í Paradís. Víkingar eru óargadýr og kunna hvorki að tala né haga sér almennilega. Um leið og blásið hafði verið lífi í þennan Íslending reis hann öskrandi á fætur og barði vísindamennina sundur og saman.
Augljóst var að stórhætta myndi skapast ef þessi villti miðaldamaður fengi að ganga óáreittur um borg englanna.
En einn góður maður hafði kynnt sér sögu víkinganna og þóttist vita hvernig bjarga ætti málunum. Sá hafði, rétt eins og víkingurinn, ýmsa fjöruna sopið, í orðsins fyllstu merkingu. Því hann var strandvörður. Og hét Mitch Buchannon. Hann ætlaði finna þennan aldna Íslending í fjöru.
En það var einn hængur á. Á rannsóknarstofunni var hinn víkingurinn í þann mund að þiðna.
Hér fyrir neðan er klippa með nokkrum eftirminnilegum atriðum:
Ég hafði ekki séð þennan stórkostlega kafla í hinum mikla sagnabálki sjónvarpsþáttaraðarinnar Baywatch Nights síðan hann var sýndur í Ríkissjónvarpinu í kringum 1997. Þar hétu þættirnir Á næturvakt.
Fyrir þá sem eru of ungir til að skilja hvað gengur eiginlega á hér var Baywatch Nights furðulegt afsprengi strandvarðasápuóperunnar Baywatch sem sýnd var í sjónvarpi við gríðarlegar vinsældir á tíunda áratugnum.
Gefum Stíg Helgasyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, lokaorðið. Hann rifjaði upp þessa dásamlegu þáttaröð í pistli fyrir nokkrum misserum:
Eftir sex þáttaraðir voru framleiðendur [Strandvarða] eðlilega að verða uppiskroppa með leiðir til að draga drukknandi menn úr sjó, svo tilbreytingar var þörf. Og það var því mikill hvalreki fyrir áhugafólk um lífið við strendur Kaliforníu þegar þáttaröðin Baywatch Nights hóf göngu sína.
Fyrir þá sem ekki muna þættina vel snerust þeir um einkaspjærastofu þeldökku fjórhjólalöggunnar Garners, sem fékk áðurnefndan Mitch til liðs við sig og með hjálp kvenkyns hörkutóls sem Angie Harmon túlkaði eftirminnilega réðu spæjararnir niðurlögum smyglara og ræningjagengja á hjólaskautum og leystu morðgátur með hinni hendinni á meðan.
Þetta þótti mér athyglisvert sem ungum dreng. Ekki síst fór ég að örvænta um örlög Hoby Buchanan, fyrst faðir hans var strandvörður frá átta til fjögur og var síðan í lögguleik frá kvöldmat og fram undir morgun. Uppeldið hefur líklega setið á hakanum.
Eftir fyrstu seríu urðu framleiðendur varir við það að þess lags mixtúra af Colombo og Fimm-bókunum naut ekki nægrar hylli, og í ljósi gríðarlegra vinsælda nýrra þátta sem nefndust X-files var ákveðið að blása til sóknar. Í næstu þáttaröð fengum við því að fylgjast með hetjunum glíma við morðóðar amöbur, marbendla, frosna íslenska víkinga, vampírur, geimverur og tímaflakk án þess að þær kipptu sér sérstaklega mikið upp við það. Ég held að það sé rík ástæða til að skora á Pál Magnússon að endursýna þetta góða efni í sjónvarpi allra landsmanna.