Mahlzeit fagnar vorinu og birtunni sem því fylgir. Erfiðustu svefnpurrkur sem voru framan af vetri með kinnar sínar límdar við koddann geta nú skyndilega sprottið fram úr bóli sínu eins og ekkert sé. Birtan gefur sumsé  nýslegnum, sem og reyndari morgunhönum meiri tíma á degi hverjum, sérstaklega á morgnana. Þið vitið væntanlega hvert ég er að fara með þetta.

 

Það er hins vegar ekkert sjálfsagt að pönnukökur séu borðaðar á morgnana. Sá siður er vinsælastur í Bandaríkjunum og Kanada, eins og kannski flestir vita. Pönnukökur, í einni mynd eða annarri, eru í raun borðaðar um allan heim og skipa ríkan sess í matarmenningu flestra þjóða hins vestræna heims. Talið er að pönnukökur reki uppruna sinn til Forn-Grikkja, en þeir borðuðu þær einmitt í morgunmat. Elstu heimildir um tagēnitēs (skylt orðinu tagēnon sem þýðir steikarpanna) eru frá fimmtu öld. Voru þær gerðar með ólívuolíu, hveiti, hunangi og kotasælu.

 

Uppistaðan í venjulegri pönnukökuuppskrift er oftast mjólk, hveiti og egg. Til að gera amerískar pönnukökur er bætt við þykkari afbrigði af mjólk eins og súrmjólk eða ab-mjólk (í Ameríku nefnist sú afurð buttermilk – sem er reyndar sætara afbrigði) og einnig lyftidufti. Amerískar pönnukökur eru yfirleitt snæddar á morgnana og eru þykkari en gengur og gerist annars staðar. Pönnukökur á Norðurlöndunum eru til að mynda örþunnar, eins og við þekkjum á Íslandi, og það sama er uppi á teningnum víðast hvar í Evrópu.

 

Hinar frönsku Crêpes er auðvitað heimsfrægar. Vinsælt er að borða þær með sætu meðlæti; sykri, súkkulaði, sítrónusafa, bönunum, jarðarberjum – hverju sem hugurinn girnist. Í Frakklandi eru einnig vinsælar Galettes, en þær eiga uppruna sinn á Bretagne-skaga. Eru það pönnukökur gerðar með bókhveiti. Þær eru snæddar með afurðum eins og osti, skinku, sveppum, kryddpylsu, eggi – já, möguleikarnir eru óendanlegir.

 

Galette með osti, skinku og eggi.

 

Í raun virðist hver einasta evrópska þjóð hafa einhvers konar útgáfu af pönnukökum. Í löndum eins og Tékklandi og Slóvakíu eru borðaðar palačinky. Í fyrrum Júgóslavíu eru palačinke borðaðar með bestu lyst. Austurríkismenn eru þekktir sælkerar. Pönnukökuréttur þeirra, Kaiserschmarrn, er víðfrægur og var í raun borðaður um gjörvallt Austurríska-Ungverska keisaradæmið og er enn vinsæll í dag. Þá er sætindum eins og rúsínum, möndlum, eplum eða kirsuberjum dreift á pönnukökuna meðan hún er enn að steikjast og síðan skipt niður í litla bita með spaðanum þegar allt gúmmelaðið er enn á pönnunni. Afrakstrinum er síðan skellt á disk og flórsykri dustað yfir.  Síðan má alls ekki gleyma berja-eða ávaxtasósu, oft úr títuberjum, eplum eða plómum.

 

Kaiserschmarrn, með eplasósu.

 

Mahlzeit fagnar fjölbreytileika og fagnar því öllum þeim þúsundum uppskrifta sem prýða pönnukökuflokkinn í fæðuhringnum. Munið, engin uppskrift er skrifuð í stein – bestu pönnukökumeistarar geta gert sitt deig með bundið fyrir augun og algerlega eftir tilfinningu. Æfingin skapar meistarann og um að gera að prófa sig áfram. Einn fróðleiksmoli að lokum: ef maður er staddur í Berlín, þeim vinsæla áfangastað Íslendinga, þarf að biðja um Eierkuchen (eggjakökur) ef pönnukökuþörfin kviknar í bakaríi eða á veitingastað. Ef beðið er um Pfannkuchen (pönnukökur), fær maður berlínarbollu. Fyndið!

 

Ef maður biður um pönnuköku í Berlín, fær maður berlínarbollu.

 

_________________________________________________________

 

 

Charley hlýtur að hafa borðað heila tylft af pönnukökum. Ég hef aldrei séð hann borða svona margar pönnukökur, og Fred borðaði enn meira en Charley.

 

Þetta var tilkomumikil sjón.

 

Á borðinu var líka stórt fat með fleski og nóg af nýmjólk og ketill fullur af sterku kaffi og þarna var einnig skál af ferskum jarðarberjum. Stúlka úr bænum kom með þau, rétt fyrir morgunverðinn. Þetta var góð stúlka. Pálína sagði,  „Þakka þér fyrir, og hvað þú ert í fallegum kjól í dag. Saumaðirðu hann sjálf? Þú hlýtur að hafa gert það því hann er svo fallegur.“

 

„Ó, þakka þér fyrir,“ sagði stúlkan og roðnaði.  „Mig langaði bara til að koma með nokkur jarðarber til iDEATH fyrir morgunverð svo ég fór snemma á fætur og tíndi þau niðri við ána.“

 

Pálína borðaði eitt berjanna og rétti mér annað.  „Aldeilis fín ber,“ sagði Pálína.  „Þú hlýtur að vita um einhvern góðan stað þar sem þú tínir þau, og þú þyrftir að sýna mér þann stað.“

 

„Hann er rétt hjá styttunni af gulrófunni hjá boltavellinum, rétt fyrir neðan skrýtnu grænu brúna,“ sagði stúlkan. Hún var um það bil fjórtán ára gömul og ákaflega glöð yfir að jarðarberin hennar skyldu vekja svona lukku í iDEATH.

 

Jarðarberin voru kláruð við morgunverðarborðið og svo aftur sé vikið að pönnukökunum:  „Þetta eru virkilega dásamlegar pönnukökur,“ sagði Charley.

 

„Langar þig í fleiri?“ spurði Pálína.

 

„Kannski eina enn ef meira deig er til.“

 

„Það er nóg af því,“ sagði Pálína.  „Hvað um þig Fred?“

 

„Nú, kannski bara eina enn.“

 

 

 

Úr:

Richard Brautigan: Vatnsmelónusykur. Þýð: Gyrðir Elíasson.

 

Richard Brautigan (1935-1984).