Svissneska súkkulaðið Toblerone á sér fjölmarga aðdáendur á Íslandi og víðar. Það voru þeir Theodor Tobler og Emil Baumann sem fullkomnuðu uppskriftina að þessu gómsæta hunangs-núggat-möndlu-súkkulaði árið 1908.

 

Toblerone hefur frá upphafi haft sína sérstöku lögun, hver moli – eftir að hann hefur verið brotinn frá bræðrum sínum – á helst að líkjast Matterhorn-fjallinu (ít. Monte Cervino), í vesturhluta Alpafjalla á landamærum Ítalíu og Sviss.

 

Matterhorn_from_Domhütte_-_2

Matterhorn er keimlíkt Toblerone-mola.

 

Reyndar segja synir Toblers að þríhyrningurinn sé kominn frá Burlesque-dönsurum Foliés Bergères leikhússins í París. Theodor varð víst mjög hrifinn að lokaatriði þeirra, þegar dansararnir mynduðu þríhyrning – ekki ósvipuðum og bandarískar klappstýrur sérhæfa sig í nú á dögum.

 

En hvað er málið með björninn í merkinu? Hafa einhverjir á annað borð tekið eftir honum? Augljóslega eru flestir birnir, ef ekki allir, sammála um að Toblerone er frábært súkkulaði. Það vottast hér með.

 

Skýringin er reyndar önnur og leiðinlegri. Þeir Tobler og Baumann bjuggu einfaldlega í Bern, og er björninn einkennisdýr borgarinnar. Þýska orðið fyrir björn er Bär sem útskýrir einnig ástæðuna fyrir ást Berlínarbúa á bjarndýrum.

 

Munið svo að geyma Toblerone-súkkulaðið í ísskáp! Það margborgar sig. Bæði verður það stökkara og bragðbetra, auk þess sem puttarnir þurfa aldrei að verða súkkulaði-kámugir aftur. Mahlzeit!

 

Toblerone_Bars