Matur og matreiðsla er eitt vinsælasta afþreyingarefni sem fyrirfinnst í vestrænum prent-eða ljósvakamiðlum. Heilu sjónvarpsstöðvarnar eru helgaðar matreiðslu, ferðalögum á veitingastaði, ferðalögum á framandi staði til að bragða framandi afurðir  – svo ekki sé minnst á alla raunveruleikaþættina þar sem „keppt“ er í matreiðslu.

 

En svona hefur þetta ekki alltaf verið, síður en svo. Eins og með flest annað sem er keyrt áfram af almenningsáliti og áhuga, þá þurfti að fá smá krydd inn í þennan heim matreiðslunnar. Kryddið þótti ekki nægilegt með sjónvarpskokkum á borð við Juliu Childs, nú eða svo dæmið sé fært til Íslands, þá er ólíklegt að fólk horfi á Sigmar B. Hauksson bara því hann er svo myndarlegur. Rétt eins og rokktónlistin þurfti á mjaðmahnykkjum Elvis Presley að halda þá þurfti matreiðsluheimurinn á kyntákni að halda. „Sex sells“ er sagt á engilsaxnesku, orðatiltæki sem er jafn órjúfanlegur hluti hins kapítalíska markaðshagkerfis og stjörnurnar í bandaríska fánanum. Eða, af hverju ætli  Nigella Lawson sé svona vinsæl? Eða „the naked chef“?

 

Kryddið sem til þurfti var fundið í Marco Pierre White, en hann má sjá á myndinni fyrir ofan. White var á sínum tíma yngsti kokkurinn frá upphafi til að vinna sér inn þrjár Michelin stjörnur, aðeins 33 ára að aldri. Hann var þó orðinn stjórstarna miklu fyrr. Hann lærði tökin á bransanum hjá frægustu kokkum Bretlandseyja, en þar á meðal var Albert Roux – sem er einmitt faðir Michel Roux yngri, sem hefur verið minnst á í Mahlzeit. White var búinn að opna sinn eigin veitingastað í London aðeins 26 ára og sló sá staður, Harveys, strax í gegn. Meðal þeirra sem unnu í eldhúsi White á þessum tíma var Gordon Ramsay en síðar hafa unnið hjá honum stjörnukokkar á borð við Eric Chavot og sérvitri snillingurinn Heston Blumenthal. Í myndskeiðinu að neðan má sjá matreiðsluþátt frá árinu 1988, þar sem White eldar þriggja rétta máltíð fyrir lærifaðir sinn, Albert Roux.

 

Vídjó

 

White hefur oft verið kallaður „guðfaðir“ breska eldhússins, þar sem hann þótti ná framúrskarandi árangri við að kynna klassíska franska eldhúsið fyrir gestum sínum. Hann ávann sér einnig viðurnefni eins og „enfant terrible“ vegna þess hve skapstór hann þótti (og þykir) sem og „rokk-kokkurinn“ eða álíka frumlegar nafngiftir, því hann þótti jú svo afskaplega aðlaðandi.

 

White nýtti sér það út í ystu æsar. Hann spilaði listavel á fjölmiðla og var óhræddur við að miðla til þeirra ímynd snillingsins, hins þjakaða listamanns sem enginn gat skilið til fulls, ímynd kyntáknsins sem fór sínar eigin leiðir og lét engan standa í vegi fyrir sér.

 

Hápunktinum í þessari ímyndarnotkun var bókin White Heat, sem kom fyrst út árið 1990. Bókin var nokkurs konar blanda af sjálfsævisögu og matreiðslubók sem þykir í dag vera lykilverk í heimi rita um matreiðslu og veitingahúsaiðnaðinn. Til að undirstrika markmiðið, sem var að undirstrika kynþokka White, var ljósmyndarinn Bob Carlos Clarke fenginn til að ljósmynda White að störfum, eldhús meistarans og starfslið, að ógleymdum matnum sjálfum. Clarke þessi var einn frægasti tískuljósmyndari heims á þessum tíma, en hann sérhæfði sig í „erótískum“ ljósmyndatökum – að sjálfsögðu.

 

Ljósmyndarinn, Bob Carlos Clarke, þótti einn fremsti í bransanum. Hann framdi sjálfsmorð árið 2006.

Hinn misskildi snillingur, meistari franskrar matargerðar, ákvað síðan árið 1999 að leggja hnífinn á hilluna. Hann var á hápunkti ferils síns, átti vinsælasta veitingastað Lundúna – en hann var ekki ánægður. Honum fannst hann þurfa á nýrri áskorun að halda, honum fannst hann þurfa að enduruppgvöta sjálfan sig.

 

Marco Pierre White um það leyti sem hann skilaði Michelin-stjörnum sínum.

White er eftir sem áður stjórstjarna í heimalandi sínu. Hann rekur nokkra veitingastaði sem gengur flestum vel, er vel stæður og kemur oft fram í fjölmiðlum. Hann sinnir ekki eldamennsku á veitingastöðum sínum, en hefur þó dustað rykið af hnífnum fyrir þætti eins og Great British Feast – og þá var hann dómari í hinum ömurlegu þáttum Hell’s Kitchen (breska útgáfan er þó skömminni skárri en sú bandaríska, nota bene).

 

Aðdáendur White, undirritaður meðtalinn, urðu þó fyrir miklum vonbrigðum þegar hann ákvað að gerast talsmaður Knorr matvælarisans. Leikur hann í matarþáttum þar sem hann notar ætíð Knorr krafta í hvaðeina sem hann kann að matreiða. En bíðum við… andskotinn ef þetta er bara ekki samt smá skemmtilegt. Og það er bara vegna þess að White er með einhvern kraft. Hann er með dáleiðandi rödd, er vel máli farinn og notar líkamann til að leggja áherslu á það sem skiptir máli. Þessar Knorr auglýsingar ættu með öllu að vera hræðilegar, en White nær að bjarga þessu. Hann er bara svo sexy… eða hvað finnst ykkur? Með orðum White, sem Mahlzeit tekur undir:  „Your Choice.“

 

Vídjó

 

Marco auglýsir Knorr kjötkraft.