Davíð Oddsson, forsætisráðherra Íslands, treður í sig fyrsta McDonalds-hamborgaranum við opnun stærstu hamborgarakeðju í heimi á Íslandi, 26. október 1993.

 

Bandaríkjamenn telja jafnan hamborgarann sem þjóðarrétt. Þegar fyrri hluta umfjöllunar Mahlzeit um hamborgarann lauk var hann hins vegar staddur í Moskvu, núverandi höfuðborg Rússlands (kommúnistunum verður greinilega allt að vopni). Það skal þó viðurkennast að þá var hamborgarinn ekki svipur hjá sjón, að minnsta kosti miðað við hvernig hann er þekktur í dag.

 

Rétturinn sem endaði í formi hamborgara mun þá hafa verið útflatt hakkabuff sem var borðað hrátt. Þetta var á 13. öld. En eins og svo oft áður voru það ferðalög afurðarinnar sem breytti henni og þróaði. Í þetta sinn var það samleið Hansa-kaupmanna og rússneskra sjóliða sem gerði útslagið, en mestur var samgangur þeirra í hafnarborginni Hamborg.  Í byrjun 17. aldar gekk höfnin, sem liggur við mynni Saxelfar við Norðursjó, stundum undir nafninu „Rússahöfnin“, sökum þess hve margir Rússar voru staddir þar í tíma og ótíma. Rússarnir kynntu heimamenn fyrir útflöttu hakkinu, sem gekk þá enn undir nafninu „tatarasteik.“

 

New York-höfn í byrjun 18. aldar.

 

Það var svo á 18. og 19. öld sem fólksflutningar til Bandaríkjanna fóru að aukast verulega og verslun sömuleiðis. Fjölmörg verslunarskip lögðu leið sína frá Hamborg til New York og sáu þá matsölumenn sér leik á borði. Komu þeir fyrir sölubásum við höfnina og auglýstu „Hamburg Steak.“ Markmiðið var að lokka sjómennina til viðskipta, til að næla sér í bita sem minnti þá á heimaslóðir sínar í Hamborg. Þegar komið var fram yfir miðja 19. öldina voru hundruðir matsölustaða sem buðu upp á „Hamburg Steak.“

Karl von Drais fann upp hakkavélina. Hér er hann á hjólinu sínu, sem hann kallaði reyndar hlaupavél (Laufmaschine).

 

Þessa miklu útbreiðslu má öðrum fremur þakka þýska uppfinningamanninum Karl von Drais (sá hinn sami og fann einnig upp reiðhjólið og ritvélina – hvorki meira né minna). Drais fann upp hakkavélina snemma á 19. öld, sem gerði mögulegt að hakka kjöt í mun meira magni og á mun skemmri tíma en áður. Uppfinning Drais og hin svokallaða „gullöld nautakjötsins“ þýddi að hamborgarinn varð skyndilega draumur veitingamanna, bæði ódýr og auðveldur í framreiðslu. Gullöld nautakjötsins má rekja til landvinninga Bandaríkjamanna í vesturhluta Norður-Ameríku – þar sem fjölmargir nautgripabændur fengu gríðarstjórar jarðir nánast frítt (oft kallaðir kúrekar). Í kjölfarið varð nautakjöt langvinsælasta kjötafurðin í Bandaríkjunum.

Þegar hér er komið við sögu var hakkað kjötið ennþá aðeins lítillega reykt og borið fram með skornum lauk og brauðmynslu, það átti sumsé eftir að henda því á grillið eða steikarpönnuna. Enn er í raun óljóst hvernig það skref átti sér stað og margir hafa viljað eigna sér þann heiður, allt frá 8. áratug 19. aldar. Vandamálið var einfaldlega að þeir frumkvöðlar sem steiktu kjötið kölluðu það eitthvað allt annað – eða sögðu sögu sína mun síðar.

 

Grandpa Web að gæða sér á bjór.

Ein sagan af hamborgarafrumkvöðli er þó einstaklega falleg. Árið 1995 lagði bandaríski blaðamaðurinn Michael Wallis á sig ómælda rannsóknarvinnu til að komast að uppruna hamborgarans. Hann komst að þeirri niðurstöðu að höfundur hamborgarans í nútímamynd hafi verið Oscar Weber Bilby, oftast kallaður „Grandpa Web.“ Bilby átti jörð rétt fyrir utan borgina Tulsa í Oklahoma og samkvæmt barnabarni hans var hamborgarinn fundinn upp árið 1891. Gefum barnabarninu Harold Bilby orðið, sem segir þessa svakalegu sögu (lesist með bandarískum suðurríkjahreim):

 

Grandpa himself told me that it was in June of 1891 when he took up a chunk of iron and made himself a big ol’ grill. Then the next month on the Fourth of July he built a hickory wood fire underneath that grill, and when those coals were glowing hot, he took some ground Angus meat and fired up a big batch of hamburgers. When they were cooked all good and juicy, he put them on my Grandma Fanny’s homemade yeast buns – the best buns in all the world, made from her own secret recipe. He served those burgers on buns to neighbors and friends under a grove of pecan trees  . . . They couldn’t get enough, so Grandpa hosted another big feed. He did that every Fourth of July, and sometimes as many as 125 people showed up.“

 

Afkomendur Grandpa Web hafa að sjálfsögðu fært sér sögu hans í nyt. Fjölskyldan rekur veitingastaðinn Weber’s Root Beer í úthverfi Tulsa.