Í dag, 30. september, eru 23 ár liðin síðan Ríkisútvarpið hóf útsendingar textavarps árið 1991. Þessi dagur varð auðvitað fyrir valinu, sem afmælisdagur textavarpsins, vegna þess að þann 30. september 1991 voru jú einnig 25 ár síðan Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar.

 

Árið 1991 voru þegar liðin hátt í tuttugu ár síðan BBC hóf fyrstu textavarpsútsendingarnar (textavarpið á raunar 40 ára afmæli um þessar mundir), en það var Íslendingum enn mikil nýlunda, og vakti talsverða umræðu í þjóðfélaginu — sérstaklega neikvæða.

 

Ástæðan var helst að þá gátu sjónvarpstæki um 17% landsmanna þegar tekið á móti textavarpsútsendingum, en einungis örfáir Íslendingar áttu nógu nýleg og fín sjónvarpstæki til að geta birt íslensku stafina, broddstafina og Þ, Ð, Æ.

 

Geir Magnússon var umsjónamaður textavarps RÚV á bernskuárum þess.

Geir Magnússon var umsjónamaður textavarps RÚV á bernskuárum þess.

 

Til þess að fá íslensku stafina þurfti að gera breytingar á mótttökutækjum sjónvarpstækja og slíkt gat kostað sitt. „Dýrt að sjá íslenska stafi í textavarpi Sjónvarpsins: Þ og ð kosta ekki undir 20 þúsundum. Umboðsaðilar sjónvarpstækja vakna upp við vondan draum“ hljóðaði fyrirsögn í DV þann 7. september 1991, þegar tilraunaútsendingar textavarps voru að hefjast.

 

Ef textavarpsnotendur voru ekki með slík tæki birtist textinn ankannalega, eins og grínast er með í þessu ljóði eftir „M“ sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 29. september 1991:

 

umsjonarmadur

 

Þótti mörgum það miður að ekki væri hægt að birta íslenska stafi á textavarpinu, og óttuðust menn það gæti haft mengandi áhrif á íslenska tungu, ef ungir Íslendingar vendust brenglaðri stafsetningu textavarpsins.

 

Var jafnvel talað um að með þessu hefði Ríkisútvarpið „um það forgöngu að níðst sé […] á íslenzku ritmáli“, og leiðarahöfundur Morgunblaðsins hvatti ráðamenn til að beita sér í málinu: „Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra getur ekki setið aðgerðarlaus hjá í þessu máli. Alþingi getur ekki látið þetta yfir sig ganga.“

 

Málið þótti nægilega alvarlegt til að Íslensk málnefnd sendi útvarpsráði bréf þar sem Ríkisútvarpið er hvatt til þess að þetta vandamál sé leyst „hið bráðasta“.

 

Svarbréf útvarpsstjóra, Heimis Steinssonar, til málnefndar var síðan birt í öllum dagblöðum, þar sem hann ítrekar að það sé metnaðarmál Ríkisútvarpsins að standa vörð um íslenska tungu, og stafsetningin í textavarpinu sé einungis „tæknilegar fæðingarhríðir“. Hann hvetur og almenning til að „ræða torfærur textavarpsins“ af sanngirni og hófstillingu.

 

Sem betur fer fyrir alla Íslendinga rættist úr þessum byrjunarörðugleikum og í dag ættu flestir sjónvarpseigendur að geta notið textavarpsins í allri sinni dýrð og með öllum íslenskum stöfum. Sumum kann að þykja textavarpið úrelt nú á dögum internetsins, en svo er auðvitað alls ekki, textavarpið er lifandi miðill (á vef RÚV segir að um 62 þúsund Íslendingar noti textavarpið daglega) og hefur þar að auki mikla listræna möguleika sem flestir hafa kannski ekki áttað sig á.

 

Athygli er vakin á því að textavarp RÚV má einnig skoða á vefnum textavarp.is. Þar er fjöldinn allur af nytsamlegum upplýsingum kominn saman á einum stað: eins og t.d. staðan í bridge (síða 326) og frjótölur víða um land (síða 193).

 

Til hamingju með afmælið, textavarp!

 

Síða 565 útskýrir virkni textavarpsins.

Síða 565 útskýrir virkni textavarpsins.