Í myrkum kastala alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA í Sviss spinna örlaganornirnar Sepp Blatter og lærisveinar hans hinn mikla örlagavef er ræður framtíð hinnar goðsögulegu heimsmeistarakeppni í knattspyrnu.

 

Nú berast óljósar fregnir frá mönnum sem segjast hafa komist inn í kastalann og séð þar í dimmum sölum glitta í örlagavefinn og seiðpotta nornanna hjá FIFA.

 

Fyrst sáu þeir það sem allir vita nú þegar. Næsta keppni verður haldin árið 2014 í Brasilíu. Árið 2018 verður HM í Rússlandi og í Arabaríkinu Katar árið 2022. Örlög þeirra tveggja síðarnefndu réðust endanlega í desember 2010 þegar formlegar kosningar fóru fram.

 

En það sem seiðpottarnir sýndu næst er hinsvegar afar óráðið enn en mjög spennandi.

 

Því það var ártalið 2030.

 

Þó að ártalið virðist afar fjarlægt okkur í dag (ætli flestum detti ekki í hug vélmenni og geimflaugar þegar þeir heyra það) þá eru 18 ár ekki ýkja langur tími þegar kemur að því að skipuleggja einn stærsta íþróttaviðburð heims.

 

Og það sem meira er: Árið 2030 verður heimsmeistarakeppnin orðin 100 ára gömul.

 

Úrúgvæ hélt fyrstu heimsmeistarakeppnina árið 1930, og urðu heimamenn fyrstu heimsmeistararnir, en þeir unnu Argentínumenn 4-2 fyrir framan 93 þúsund áhorfendur á Estadio Centenario í höfuðborginni Montevideo.

 

Og Sepp Blatter og félagar hans hafa látið út sér á undanförnum árum að beinast liggi við að halda keppnina aftur í Úrúgvæ árið 2030. Samkvæmt fléttureglu FIFA verður líka aftur komið að Suður-Ameríku þá.

 

Frá HM í Úrúgvæ árið 1930.

Úrúgvæsk stjórnvöld eru mjög áhugasöm um hugmyndina. Tabaré Vázquez, þáverandi forseti, fundaði með Blatter árið 2005. Og núverandi forseti Úrúgvæ, José „Pepe“ Mujica, hefur einnig lýst yfir stuðningi sínum við verkefnið.

 

En Úrúgvæ er lítið land og íbúar þess eru aðeins 3,3 milljónir manna. Því hafa Úrúgvæar leitað til nágranna sinna hinum megin við fljótið Rio de la Plata, Argentínumenn. Bæði lönd eiga marga góða leikvanga, hafa bæði haldið keppnina áður og ættu að vera þess megnug að halda stórmót árið 2030.

José Mujica, forseti Úrúgvæ, og Cristina Fernández de Kirchner, forseti Argentínu, eru bæði áhugasöm.

 

Argentínska knattspyrnusambandið tók vel í hugmyndina og hefur skipað starfshóp um málið.

 

Í vor munu hjólin hugsanlega fara að snúast hvað HM 2030 varðar. Úrúgvæ og Argentína munu kynna formlega sameiginlega umsókn sína hinn 25. maí næstkomandi á þingi FIFA í Búdapest í Ungverjalandi.

 

Hér er svo ákaflega skemmtileg heimildarmynd um HM 1930 í Úrúgvæ:

 

Vídjó