Á sama tíma og orðræðan milli Íran og Bandaríkjanna verður æ herskárri eru líkur á að kvikmynd frá Íran vinni til frægustu kvikmyndaverðlauna Bandaríkjann. Íranska kvikmyndin Aðskilnaður Nader og Simin (Jodaeiye Nader az Simin, á ensku A Seperation) er meðal þeirra fimm mynda sem tilnefndar eru til Óskarsverðlauna í flokki erlendra mynda í ár. Myndin er fimmta kvikmynd leikstjórans Asghar Farhadi og hefur undanfarin misseri farið sigurför um heiminn. Hún vann meðal annars Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í fyrra.

 

Kvikmyndin er einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta frumsamda handrit. Leikstjórinn Farhadi samdi handritið, en sjaldséð er að erlendar myndir séu tilnefndar í þessum flokki.

 

Vídjó

 

Myndin fjallar um miðstéttarhjón í Teheran sem skilja að skiptum. Simin vill flytja til útlanda með 11 ára dóttur sína en eiginmaður hennar, Nader, deilir ekki þeim vilja þar sem aldraður faðir hans er illa haldinn af Alzheimer. Þau fá ekki leyfi til þess að skilja formlega svo að Simin flytur út og til foreldra sinna og skilur Nader eftir með dótturina og hinn veika föður. Nader ræður til sín lágstéttarkonu til þess að sjá um föðurinn, en hún er mjög trúuð og á í erfiðleikum með að sinna öllum skyldum sínum við sjúklinginn. Deilur Naders og konunnar verða að hádramatískum og flóknum fjölskylduharmleik.

 

Kvikmyndagagnrýnandinn Lee Marshell sagði í dóm sínum í bandaríska tímaritinu Screen Daily að myndin segði sögu sem væri „ekki aðeins um menn og könur, börn og foreldra, réttvísi og trúarbrögð í Íran nútímans, heldur vekti flóknar og alþjóðlegar spurningar um ábygð, um huglægni og óvissu þess að ‘segja sannleikann’, og hversu línan getur verið stutt á milli óbilgirni og stolts — sérstaklega karlmannlegs stolts — og eigingirni og undirokunar.“

 

Rogert Ebert útnefndi myndina bestu mynd árins 2011 og kallaði hana „varanlegt meistaraverk„. Langtíburtistan er sammála og hvetur þá sem misstu af myndinni á RIFF í haust að sjá hana með öðrum hætti.

 

Leikstjórinn Asghar Farhadi.

 

Írönsk yfirvöld fylgjast grannt með kvikmyndargerðarmönnum þar í landi og Farhadi var á tímabili bannað að vinna að myndinni. Ekki vegna þess að efni hennar væri yfirvöldum á móti skapi, heldur hafi hann haldið ræðu til stuðnings kollega sínum Jafar Panahi, sem var handtekinn í ‘grænu byltingunni’ 2009. Farhadi baðst afsökunar á ræðunni og fékk þá að halda áfram gerð myndarinnar.

 

Íran hefur sent mynd til Akademíunnar árlega frá 1994, en einungis tvær verið tilnefndar. Hin var Börn himinins eftir Majid Majidi, árið 1997.

 

Miðausturlönd eru annars áberandi á Óskarnum í ár, en einnig er tilnefnd nýjasta mynd ísraelska leikstjórans Joseph Cedars. He’arat shulayim eða Fótnóta fjallar um flókið samband feðga sem báðir vinna við rannsóknir á hebreskum fornritum við háskólann í Jerúsalem. Myndin fékk verðlaun fyrir besta handrit á Cannes í fyrra. Síðasta kvikmynd Cedars, hin frábæra Beaufort, var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2007.

 

Vídjó