Sigríður Jónsdóttir, bóndi í Arnarholti í Biskupstungum, er höfundur ljóðabókarinnar Kanill. Ævintýri og örfá ljóð um kynlíf. Umfjöllunarefni Sigríðar er því, eins og titillinn gefur til kynna, kynlíf. Matur og matarafurðir skipa talsverðan sess í myndmáli bókarinnar, oftar en ekki matur sem er samofinn matarsögu okkar Íslendinga – mjólk, grjónagrautur, skyr og, auðvitað, kanill.

 

Sigríður Jónsdóttir. (Mynd: Fréttablaðið/Stefán).

 

Sigríður stígur þar, vitandi eða óafvitandi, inn á óljósa braut sem á mörk sín milli matar og kynlífs. Þessi illskilgreinanlega braut hefur verið talsvert milli tanna matgæðinga, sem og kynfræðinga. Ástæðan er væntanlega sú að báðar athafnir, þ.e. að borða og að stunda kynlíf, fela óumdeilanlega í sér (eða ættu að fela í sér að minnsta kosti) ákveðna nautn. Og þar með er ekki öll sagan sögð, því líkaminn virðist bregðast við á nákvæmlega sama hátt þegar hann er að búa sig undir að gæða sér á kræsingum… já, eða kræsingum holdsins. Það gæti verið ástæðan fyrir vinsældum „erótískra“ matarafurða, eða fyrir tilraunum fólks til að blanda kynlífi saman við létta máltíð. Þetta efni, eins og flestar aðrar félagslegar aðstæður hinnar vestrænu póstmódernísku tilveru, hefur að sjálfsögðu verið til umfjöllunar í sjónvarpsþáttunum Seinfeld:

 

Vídjó

 

En það er önnur saga, og alls ekki sagan sem Sigríður er að segja. Snúum okkar aftur að kanil. Fyrsta ljóð bókarinnar heitir Innihald:

 

Kanillinn er kynlíf

sykurinn er ástin

grauturinn og mjólkin eru lífið

bæði þykkt og þunnt.

 

Við höfum ekkert að gera við kanil eintóman

en hin efnin geta öll nýst án hans.

Þó eigum við kanil einan á bauk

að grípa til bragðbætis.

 

Þessi kanill verður blandaður sykri.

Þannig er hann bestur.

 

Það er óhætt að mæla með ljóðabók Sigríðar. Var hún til að mynda tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, í flokki fagurbókmennta. Hér má nálgast ritdóm um bókina á hinu frábæra bókabloggi; Druslubækur og doðrantar. Þar fer ljóðskáldið Kristín Svava Tómasdóttir fögrum orðum um verk Sigríðar, og er greinilega sammála Mahlzeit um að línan: „Hann penslar á mér skautið með limkollinum“ (bls. 9), sé ein sú eftirminnilegasta sem fram hefur komið í íslenskri ljóðagerð.

 

 

 

Hér má svo finna viðtal við Sigríði sem birtist á Vísi. Enn fremur má benda á síðu Sunnlenska bókakaffisins sem stóð að útgáfu bókarinnar undir nafni bókaútgáfunnar Sæmundur. Þar er hægt að festa kaup á Kanil, og vonandi að sem flestir skelli sér á eintak. Því hér gildir hið fornkveðna, kanill gerir allt betra!

 

Vídjó