Einn af dularfyllstu persónum í sögu tuttugustu aldar er Sergej Iljits Úljanoff, tvíburabróðir Vladimirs Úljanoffs, sem betur er þekktur sem Vladimir Lenín. Þrátt fyrir að vera bróðir þessa áhrifamikla manns er sjaldan minnst á Sergej Iljits og fáar heimildir um lífshlaup hans.

 

Sergej og Vladimir ólust upp saman og voru mjög samrýndir, sem tvíburum sæmir, í æsku. Líkt og aðrir í Úljanoff-fjölskyldunni var Sergej umbótasinni frá blautu barnsbeini, en deildi þó aldrei hinum brennandi byltingaranda tvíburabróður síns.

 

Tvíburabræðurnir Vladimir og Sergei Iljits, fjögurra ára árið 1874.

 

Úljanoff-fjölskyldan árið 1879. Tvíburarnir níu ára, Sergej og Vladimir, í svörtum jökkum í forgrunni myndarinnar.

 

Vladimir og Sergej voru átján ára gamlir þegar eldri bróðir þeirra Aleksandr var fundinn sekur um tilræði við keisarann og tekinn af lífi, árið 1888. Bróðurmissirinn varð þeim mikið áfall. Í kjölfarið sökkti Vladimir sér í skrif Karls Marx og tók virkan þátt í starfi byltingarsinnaða stúdenta. Sergej varð hinsvegar afhuga námi og flutti til borgarinnar Úfa við rætur Úralfjalla, og gifti sig innfæddri konu.

 

Ungu hjónin Sergej Iljits Úljanoff og Zuhra.

 

Sergej Iljits mun hafa kunnað vel við ‘sveitalífið’ í Úfa, og aðlagaðist sig fljótt að lifnaðarháttum innfæddra. Hann tók upp íslamstrú, líkt og eiginkona sín og flestir hinna baskírsku íbúa Úfa stunduðu. Á meðan Vladimir bróðir hans stóð í ströngu við byltingarstörf, var fangelsaður og sendur til Síberíu, safnaði Sergej Iljits sér tveimur eiginkonum til viðbótaðar að íslömskum sið.

 

Sergej Iljits og eiginkonurnar þrjár í nágrenni Úfa, árið 1899. Nöfn síðari eiginkvennanna tveggja fylgir ekki sögunni.

 

Vladimir Iljits snéri aftur til Rússlands eftir langa veru erlendis árið 1905, og eitt af því fyrsta sem byltingarmaðurinn gerði var að heimsækja bóndabæ tvíburabróður síns í Úfa.

 

Vladimir Iljits Lenín brýnir exi á heimili bróður síns í Úfa, 1905-06.

 

Næst spyrst til Sergej Iljits árið 1917. Hann skildi eiginkonur sínar og börn eftir heima og flýtti sér til Pétursborgar um haustið þegar langþráð bylting var loksins að brjótast út. Þó Sergej hafi, sem fyrr segir, sennilega aldrei haft eldheitan byltingaranda í blóðinu, virðist sem ekki hafa komið annað til greina en að vera við hlið bróður síns á þessum mikilvægu tímum.

 

Úljanoff-bræður í Pétursborg, byltingarhaustið 1917.

 

Eftir að Lenín komst til valda var Sergej ætíð með annan fótinn hjá bróður sínum í Moskvu. Lenín fór auk þess reglulega í heimsóknir til bróður síns í sveitina, og ku aðalritaranum hafa þótt sérlega gaman að fara á veiðar.

 

Sergej Iljits á skrifstofu bróður síns í Moskvu, 1918.

 

Lenín ásamt hópi manna í veiðiferð á heimaslóðum Sergejs. Í byrjun þriðja áratugar.

 

Þegar Lenín lést árið 1924 var Sergej Iljits ekki lengur velkominn í valdamiðstöðvunum í Moskvu, og í raun hvergi í Sovétríkjunum. Hann sá sig á endanum tilneyddan til þess að yfirgefa landið sem bróðir hans hafi stofnað. Árið 1925 flúði Sergej Iljits yfir landamærin til Finnlands ásamt fjölskyldu sinni, og þaðan til Sviss. Fjölskyldan settist að í Zürich þar sem Sergej setti á stofn litla antíkverslun sem hann rak í rúman áratug.

 

Sergej Iljits og dóttirin Natasja, við finnsku landamærin.

 

Sergej Iljits við búðarborðið í antíkverslun sinni í Zürich, um 1937.

 

Sergej Iljits lokaði versluninni og settist í helgan stein árið 1938, þegar hann var 68 ára gamall. Í kjölfarið flutti hann suður á bóginn, til Mexíkó og undir verndarvæng gamals félaga þeirra tvíburabræðranna, Leóns Trotskíj. Þó að sletts hafi upp á vinskap Trotskíjs og Lenín mun þeim Sergej Iljits alltaf hafa komið vel saman, enda ku þeir lítið hafa rætt um stjórnmál.

 

Sergej Iljits og Trotskíj bregða á leik í Mexíkó. 1938.

 

Sergej Iljits í Mexíkó árið 1942.

 

Sergej Iljits hélt ætíð tryggð við íslam, trúarbrögðin sem hann játaðist á unglingsárum, jafnvel í öfgatrúleysi Sovétríkjanna. Eftir seinna stríð ferðaðist hann um hinn íslamska heim og heimsótti meðal annars Bagdad árið 1946. Það var í Bagdad, í viðtali við írakskan blaðamann, sem hann lét hafa eftir sér sína frægustu tilvitnun: „Íslam er síðasta von byltingarinnar“.

 

Árið 1949 lét Sergej svo langþráðan draum rætast og uppfyllti eitt af lífsskilyrðum trúrækinna múslima — hann fór í pílagrímsferðina til Mekka. Hinn heldur hlédrægi Sergej mun hafa vakið nokkra athygli í mannmergðinni í Mekka, enda enn sláandi líkur bróður sínum.

 

Sergej Iljits mætir blaðamanni í Bagdad árið 1946.

 

Sergej Iljits meðal pílagríma í Mekka. 1949.

 

Sergej Iljits eyddi síðustu æviárunum á Kúbu. Eftir byltinguna þar árið 1959 tók Fidel Castro fagnandi á móti bróður hins mikla Leníns. En hafi hann haft á hyggju að nota Sergej í áróðurskyni var það til lítils, enda Sergej þá orðinn háaldraður. Hann lést árið 1964, 94 ára gamall, og fór andlát hans ekki hátt í fjölmiðlum á Vesturlöndum.

 

Á ströndinni í Havana skömmu eftir komuna til Kúbu, árið 1959.

 

Sergej í garðinum við húsið sitt í Santiago de Cuba. 1964.

 

Lesandi góður! Þessi saga af Sergej Iljits Úljanoff er að sjálfsögðu hreinasta bull og uppspuni frá rótum. Lenín átti engan tvíburabróður. Myndirnar eru hluti af verkinu Óopinbert myndaalbúm eftir rússneska listamanninn Rinat Voligamsi.

 

Lemúrinn hefur sérstakt yndi af furðusögum um Lenín — kynnið ykkir einnig kenningar um að hann hafi í raun verið sveppur.