Ímyndaðu þér dimmt húsasund. Þú ert einn og þú gengur inn í myrkrið. Allt í einu heyrirðu spilað á harmonikku.

 

Þetta er vinaleg tónlist, er það ekki? Erum við kannski komin á harmonikkuball, eins og eldri borgarar halda stundum á Íslandi, draga fram dansskóna á meðan einhver þenur nikkuna, kannski niðri á bryggju í einhverju sjávarplássi úti á landi.

 

Vídjó

 

En þetta sem þú heyrir í dimmu húsasundinu er alls ekki þannig tónlist. Og þetta húsasund er ekki að finna í einhverju sakleysislegu þorpi á Íslandi. Og þeir sem þenja nikkurnar eru ekki gamlir íslenskir sjóarar nýkomnir úr Kolaportinu heldur menn með kúrekahatta og í glansandi skóm úr krókódílaleðri, og með stórar glansandi skammbyssur í beltum.

 

Því erum komin til borgarinnar Culiacán í Sinaloaríki við Kyrrahafsströndina í Mexíkó. Þar hafa eiturlyfjagengi því miður ráðið ferðinni um árabil. Sinaloa-gengið er eitt það herskáasta í Mexíkó en leiðtogi þessi, El Chapo Guzmán, einn eftirlýstasti glæpamaður heims, var nýlega handtekinn eftir að hafa legið í felum í langt árabil.

 

Líklegt er að Guzmán hafi hlustað á harmonikkutónlist á leynistað sínum. Ein vinsælasta tónlistarhefð Mexíkó nefnist Corrido. Í slíkri tónlist eru sungnar langar ballöður yfir tilþrifamiklum harminokkuleik og gjarnan sagðar langar sögur með textanum.

 

Mexíkóski eiturlyfjakóngurinn José Rodrigo Aréchiga sem hlotið hefur viðurnefnið El Chino Ántrax, Miltisbrandskínverjinn, var handtekinn á flugvellinum í Schiphol í Amsterdam í Hollandi. Mexíkósk og bandarísk stjórnvöld hrósa happi því þau telja að hinn 33 ára gamli El Chino Ántrax sé einn af forsprökkum glæpasamtakanna í Sinaloa, eins valdamesta hópsins í hinum hörmulegu átökum sem geisað hafa í Mexíkó síðustu ár. En lögreglan getur kortlagt líf þessa meinta bófa mun betur en ýmissa annarra. Því El Chino Ántrax hefur hlaðið inn ógrynni mynda á síðustu misserum á samfélagsmiðlana Instagram og Twitter.

Mexíkóski eiturlyfjakóngurinn José Rodrigo Aréchiga sem hlotið hefur viðurnefnið El Chino Ántrax, Miltisbrandskínverjinn, var handtekinn á flugvellinum í Schiphol í Amsterdam í Hollandi. Hann hefur hlaðið inn ógrynni mynda á síðustu misserum á samfélagsmiðlana Instagram og Twitter. Hann hlustaði mikið á harmonikkutónlist.

 

Undirgrein hefðarinnar nefnist narcocorrido og er kennd við fíkniefni. En slíkir söngvar eru sungnir af eiturlyfjagengjum og ýmsum misindismönnum. Kannski sambærilegt við hið svokallaða gangsterrapp frá Bandaríkjunum, þar sem rappararnir rappa um ýmsa glæpi sem þeir hafa framið.

 

Frægasti söngvarinn í þessari tónlistarhefð, narcocorrido eða eiturlyfja-corrido, hét Chalino Sánchez. Hann hefur stundum verið kallaður „Tupac Shakur Mexíkó“ því hann var myrtur árið 1992 og síðan þá hafa plötur með honum rokselst.

 

En hver var Chalino?

Chalino Sanchez.

Chalino Sanchez.

 

Hann var fæddur í grennd við Culiacán árið 1960. Og þetta verður vart goðsagnakenndara. Þessi saga mun vera dagsönn: Þegar Chalino var 15 ára varð sá skelfilegi atburður að glæpakóngur í hverfinu nauðgaði systur hans. Chalino beið ekki boðanna, leitaði manninn uppi, ruddist inn í veislu, gekk upp að bófanum hljóðalaust og skaut hann til bana.

 

Eftir þetta þurfti Chalino að flýja heimahagana og flutti yfir landamærin til Bandaríkjanna og settist að í Los Angeles þar sem frænka hans bjó.

 

Þar vann hann við ýmis glæpatengd störf. Smyglaði fíkniefnum og ólöglegum innflytjendum til Bandaríkjanna. Hann var því svokallaður sléttuúlfur, en það kallast mexíkóskir glæpamenn sem stunda slíkt smygl.

 

Bróðir Chalino var helsti samverkamaður hans í þessu þangað til árið 1984 þegar hann var myrtur.

 

tumblr_mbyc0crnMM1r9fsf5o1_r2_500

 

Það hafði mikil áhrif á glæpamanninn unga og nú fór hann að syngja og spila ballöður. Hann var reyndar ekki sérstaklega góður söngvari en þótti frábær textahöfundur. Í corrido-tónlist snýst allt um að segja langar sögur með textanum og í því skaraði Chalino framúr.

 

Hann lenti í fangelsi og söng um hina fangana. Fljótlega urðu söngvarnir eftirsóttir og Chalino fór að selja þá. Fangar borguðu honum fyrir að smíða saman söngtexta um þá.

 

Og hróður hans barst út fyrir fangelsið. Nú vildu ýmsir glæpamenn í Mexíkó fá samin um sig lög. En þeir vildu ekki bara einhverja útprentaða texta. Þeir vildu tónlist á kassettum sem þeir gætu spilað fyrir vini sína.

 

Vídjó

 

Chalino leit ekki á sig sem söngvara og ákvað að ráða menn í hljómsveit til að flytja fyrir sig lögin. En hann var ósáttur við flutning þeirra og einn daginn hrifsaði hann til sín míkrófóninn og fór að syngja sjálfur og lagði hann varla frá sér eftir það og tók upp fjölda laga á kassettur fyrir glæpakónga hér og þar.

 

En tónlist Chalino fór að breiðast út og lög hans að heyrast á útvarpsstöðvum. Sumir furðuðu sig á vinsældum hans. Hann var, eins og áður segir, ekkert sérstaklega góður söngvari. En það var kannski einmitt það. Chalino þótti ekta. Þetta var sannur nagli með kúrekahatt. Þetta var alvöru rödd eiturlyfjasmyglarans, mannsins á pallbílnum sem keyrir um eyðimörkina eins og sléttuúlfur með hlaðna skammbyssu í beltinu.

 

Vídjó

 

Tónlistarfræðingar hafa líkt þessu við það þegar rappið náði fótfestu í Bandaríkjunum. Með rappinu horfði bandarískur almenningur í augu við glæpi í borgum og blákaldan veruleika í samfélaginu. Og hinn nýi glæpamannaballöðustíll sem Chalino boðaði var á svipaðan hátt líkt og köld vatngusa í andlit mexíkósku þjóðarinnar. Chalino og félagar voru ekki feimnir við að sýna sig sem glæpamenn. Á plötum og kassettum voru myndir af þeim með byssur.

 

Chalino varð mjög vinsæll beggja megin landamæranna. Með textum sínum sagði hann sögur af ýmsum skuggahliðum hins spænskumælandi samfélags í Kaliforníu en fjallaði líka um ástina og lífið.

 

En hann var enn jaðarfyrirbæri í byrjun árs 1992. Þá hélt hann tónleika í Coachella í Kaliforníu, en það er bær sem nú er þekktur fyrir stóra tónlistarhátíð. Chalino stóð á sviði og spilaði við mikinn fögnuð gesta. Skyndilega gekk atvinnulaus bifvélavirki upp á sviðið og skaut hann. Chalino dró upp byssuna sína og skaut til baka. Tilræðismaðurinn lést og fjöldi tónleikagesta særðist í skothríðinni.

 

Chalino dansar.

Chalino dansar.

 

 

Þessi atburður gerði Chalino mjög frægan því fjallað var um atburðinn í fréttum um öll Bandaríkin og Mexíkó.

 

Nokkrum mánuðum síðar, þetta sama ár 1992, hélt Chalino tónleika í Culiacán. Hann sló í gegn. En eftir tónleikana tók hins vegar verra við. Chalino var á leiðinni í veislu þegar dularfullir og óeinkennisklæddir menn stöðvuðu hann úti á vegi og sögðust vera lögreglumenn, sýndu honum skilríki. Chalino fór með þeim. Daginn eftir fannst hann látinn í skurði. Hann hafði verið skotinn til bana.

 

Vídjó

 

Og eins og gerist gjarnan þegar tónlistarmenn deyja ungir varð nafn Chalino gríðarlega frægt eftir dauðann. Hann varð einn af vinsælustu tónlistarmönnum Mexíkó og plötur hans seldust í bílförmum.

 

Margir hafa fetað í fótspor hans, gerast söngvarar og sveifla byssum og rifflum á myndum.

 

Við skulum enda þetta spjall á skemmtilegu sönglagi í corrido-stíl sem heyrðist í þáttaröðinni vinsælu Breaking Bad. Bandið Los Cuates de Sinaloa, frá fyrrnefndu Sínalóaríki í Mexíkó, syngur um eiturlyfjakónginn Heisenberg og bláa efnið hans, sem unnendur þáttaraðinnar vita að er dulnefni menntaskólakennarans Walters White. Textinn er í sígildum stíl, nokkurs konar söguljóð, með innihaldsríkri frásögn.

 

Vídjó

Jólakveðja frá hættulegu gengi.

Jólakveðja frá hættulegu gengi.