Abdülmecid II, síðasti arftaki Múhameðs.

Yfir meira en sex hundruð ára sögu hins tyrkneska Ottóman-veldis gegndi æðsti valdamaður þess ætíð tveimur hlutverkum — annarsvegar var hann soldánn, sem stjórnaði hinu veraldlega amstri heimsveldisins, og hinsvegar kalífi. Orðið kalífi merkir „arftaki“, handhafi þess titils er arftaki Múhameðs spámanns á jörðu og æðsti valdamaður í samfélagi múslima. Kalífatitilinn var mikilvægur valdshöfum í hinum íslömsku heimsveldum til þess að réttlæta vald sitt gagnvart guðhræddri alþýðunni.

 

Þann 1. nóvember 1922 lagði tyrkneska þjóðþingið embætti soldánsins í Istanbúl af. Fyrst hafði það þó skipt embætti upp í tvennt — soldán og kalífa — og krónprinsinn Abdülmecid II (1868-1944), frændi fráfarandi soldáns, var kosinn í stól kalífa. Hann hafði aldrei nein raunveruleg völd og ríkti aðeins í 470 daga, þar til kalífaveldið var einnig lagt niður. Abdülmecid II var rekinn í útlegð til Frakklands. Hann mun þó ekki hafa syrgt kalífatitillinn, í hans augum var mikilvægasta embættið sem hann gegndi um ævina stofnandi og formaður ottómanska Listamannasambandsins. Hann var sjálfur afkastamikill olíumálari. Eins og forfeður hans eyddi hann meirihluta ævinnar í vernduðu umhverfi hirðarinnar og sýna málverk hans lífið við hirðina og í hinu margumrædda kvennabúri soldánsins.

 

Málverkið hér að ofan málaði kalífinn tilvonandi um 1917 ber heitið Haremde Beethoven — Beethoven í kvennabúrinu. Það er eitt af tvemur málverkum eftir hann sem sýnd voru á málverkasýningu í Vínarborg árið 1918, hitt heitir einfaldlega Goethe í kvennabúrinu:

 

Kona í kvennabúri soldánsins lítur upp úr lestri á Faust eftir Goethe.

Almúgi, 1889-1890.

Þoka. Byggt á ljóði eftir Tevfik Fikret, þekktan þjóðernissinna og andstæðings soldánaveldisins.

Hanzade, dóttir kalífans. 1936.