Ítalía varð aldrei eins glæst nýlenduveldi eins og önnur ríki Evrópu. Þó gerðu Ítalir sínar tilraunir til þess að öðlast mikilmennsku nýlenduherranna, og lögðu meðal annars undir sig Líbýu og réðu þar ríkjum í skamman tíma, frá 1911 til loka seinni heimsstyrjaldar.

 

Í byrjun tuttugustu aldar var landsvæðið sem nú er Líbýa eini hluti Norður-Afríku sem enn var undir stjórn hins „sjúka risa“, Ottóman-veldisins. Alsír var í höndum Frakka og Bretar höfðu komist til áhrifa í Egyptalandi. Árið 1911 sló Ítalía til og gerði innrás í Líbýu.

 

Ottóman-veldið gaf fljótlega landsvæðið upp á bátinn, en Líbýumenn sjálfir börðust ötult gegn ítölskum yfirráðum í áratugi. Þeir voru enn að berjast þegar fasistar komust til valda í Ítalíu árið 1922.

 

Ítalskir fasistar töluðu mikið um að athafnir þeirra í Líbýu væru gjörólíkar nýlendustefnu Frakklands og Bretlands. Þeir kæmu til Líbýu ekki sem drottnarar heldur jafningjar, fátæk bændaþjóð sem einungis þyrfti meira landsvæði.

 

Raunin var auðvitað að Ítalir voru nýlenduherrar eins og hverjir aðrir. Þeir komu fram við innfædda af mikilli hörku og grimmd. Ekki eru til nákvæmar tölur um mannfall í stríðum Ítala við líbýska andspyrnumenn, en tímabilið 1911 til 1943 voru dauðsföll sem ekki mátti rekja til náttúrulegra ástæðna í Líbýu á bilinu 250.000 til 300.000. Íbúar landsins voru þá einungis um 900.000. Flest voru dauðsföllin eftir að fasistar komust til valda.

 

Síðasti andspyrnuleiðtoginn og þjóðhetja Líbýumanna, Omar Mukhtar, í haldi ítalskra nýlenduherra. Gaddafí heitinn var hrifinn af þessari mynd og nældi hana á brjóstið á jakkanum sínum þegar hann fundaði með Berlusconi.

 

Í byrjun fjórða áratugar náðu Ítalir loksins að kveða niður síðustu andspyrnumennina og árið 1937 heimsótti sigursæll Benito Mussolini sjálfur „fjórðu strönd“ Ítalíu, Líbýu. Hápunktur heimsóknar Mussolinis var umfangsmikil athöfn í eyðimerkurvin skammt frá höfuðborginni Trípólí, þar sem hann lét útnefna sjálfan sig „Verndara íslams“.

 

Undir fallbyssuskothríð og í viðurvist 2600-manna heiðursvarðar steig fram innfæddur ættbálkahöfðingi og afhenti il Duce gríðarstórt sverð með handfang úr skíragulli, sjálft „Sverð íslams„, sem Mussolini brá síðan á loft með miklum tilþrifum.

 

Átti þetta sjónarspil að fanga hjörtu líbýsku þjóðarinnar, eða bara gæla við hégóma Mussolinis sjálfs? Mussolini hefur kannski sótt innblástur til Napóleons, sem breyttist tímabundið í múslima þegar hann lagði undir sig Egyptaland. Hann ritaði þá til egypsku þjóðarinnar að Frakkar væru „einlægir múslimar“, ekki minnst hann sjálfur: „Ég tilbið Guð miklu meira en Mamlúkarnir, og virði Spámann hans og hinn dýrlega Kóran.“

 

Verndari íslams, Benito Mussolini.

 

Sverð íslams var þó ekki til þess að fylkja líbýsku þjóðinni bak Mussolini. Nýlenduævintýrið gekk allt frekar brösulega, enda Líbýa ekki besta landið til umfangsmikils landbúnaðar, verandi 98% skraufþurr eyðimörk. Ítalir eyddu gríðarlegum fjárhæðum í að reyna að breyta sandinum í ræktanlegt land með litlum árangri.

 

Sverðið sjálft var fært til Ítalíu og geymt í virkinu Rocca delle Caminate í Emilia-Romagna á Norður-Ítalíu þar sem Mussolini dvaldi jafnan á sumrin. Það hvarf þaðan í handaganginum við fall fasismans 1943 og hefur ekki sést síðan.