Kvikmyndin White Men Can’t Jump er fyrir löngu orðin að nokkurs konar költ-fyrirbæri meðal körfuboltaáhugafólks um allan heim. Tímasetning hefur þar mikið að segja. Myndin, sem var leikstýrð af Ron Shelton, var frumsýnd þann 27. mars að vori ársins 1992 eða einmitt um þær mundir sem NBA-æðið var að ná hápunkti með Michael Jordan í fararbroddi – svo ekki sé minnst á æðið sem fylgdi sigurför bandaríska Draumaliðsins á sumarólympíuleikunum í Barcelona sama ár.

 

Fyrir tíma internetsins var erfitt fyrir unga NBA-aðdáendur að leita sér fróðleiks um allar þær stjörnur sem koma fram í myndinni, fyrir utan aðalleikarana sjálfa, þá Wesley Snipes (sem þá hafði slegið í gegn í Spike Lee myndinni Jungle Fever og meistaraverki Marios Van Peebles New Jack City) og Woody Harrelson (þekktastur fyrir hlutverk sitt sem hinn treggáfaði Woody í Staupasteini). White Men Can’t Jump var nefnilega framleidd með aðstoð nokkurra farsælla NBA-leikmanna sem voru ef til vill ekki heimsþekktir, í öllu falli ekki á Íslandi.

 

white_men_cant_jump_27647_medium

 

Þar má fyrstan nefna miðherjann Bob Lanier, sem lék lengst af með Detroit Pistons (1970-1980) og síðar Milwaukee Bucks (1980-1984). Lanier var stjörnuliðsleikmaður átta sinnum og var valinn besti leikmaður stjörnuleiksins árið 1974. Hann var tekinn inn í Frægðarhöll körfuboltans árið 1992, líklega æðsti heiður sem körfboltamanni getur hlotnast. Á ferli sínum skoraði Lanier 20,1 stig að meðaltali, tók 10,1 frákast og var með 51,4% skotnýtingu sem verður að teljast einkar frambærilegt.

 

Margar góðar sögur fara af Lanier sem leikmanni, til að mynda sú að hann reykti ávallt sígarettur í hálfleik. Kareem Abdul-Jabbar, einn besti körfuboltamaður allra tíma, reyndi að nýta sér þennan ósið Laniers þegar miðherjarnir mættust með því að láta hann hlaupa meira en venjulega í síðari hálfleik. Bjóst Jabbar við að Lanier væri talsvert andstyttri eftir reykingarnar.

 

Lanier í leik með Detroit Pistons árið 1970.

Lanier í leik með Detroit Pistons árið 1970.

 

Lanier starfaði sem einkaþjálfari þeirra Harrelson og Snipes í sérstökum körfuboltabúðum þar sem leikararnir lærðu og skerptu á grunnatriðum íþróttarinnar. Hann hélt því fram að eftir einkaþjálfunina höfðu leikararnir náð svo góðum tökum á körfubolta að þeir hefðu getað staðið sig vel í þriðju deild NCAA-háskólaboltans. Lanier lét einnig hafa eftir sér, að milli leikaranna tveggja, væri Harrelson betri leikmaður.

 

Næstur á blað er aukaleikarinn Marques Johnson, sem fór eftirminnilega með hlutverk Raymonds. Hann var vel „höstlaður“ af þeim Sidney Deane og Billy Hoyle eftir að hafa veðsett skambyssu sína skömmu fyrir leik til að eiga fyrir veðmáli. Hann átti þá hina ódauðlegu setningu:

 

„I’m going to my car, get my other gun. Shoot everybody’s ass.“

Vídjó

 

Johnson átti glæsilegan feril í NBA-deildinni eftir að hafa átt frábæran tíma hjá háskólaliði UCLA hjá John Wooden. Þar varð hann NCAA-meistari árið 1975 og var, eftir lokaár sitt í háskólaboltanum, valinn leikmaður ársins árið 1977. Johnson var valinn þriðji í nýliðavalinu sama ár og lék með Milwaukee Bucks frá 1977 til 1984 en var þá skipt til Los Angeles Clippers fyrir Terry Cummings, sem er mörgum NBA-aðdáendum að góðu kunnur. Johnson lagði skóna á hilluna árið 1987 en tók þá aftur fram um stutt skeið árið 1989 og lék þá 10 leiki fyrir Golden State Warriors.

 

Af Johnson fara einnig skemmtilegar sögur en sú besta er líklega að hann hafi fundið upp hugtakið um „point forward“, sem er jafnan notað um fjölhæfa framherja sem geta borið boltann upp og stýrt sóknarleiknum. Að hans eigin sögn kom hugtakið fram í leik í úrslitakeppninni 1984 þegar báðir leikstjórnendur Bucks voru meiddir. Don Nelson, þáverandi þjálfari, sagði Johnson að henn þyrfti því að bera boltann upp og stýra sóknarleiknum.

 

„Ertu að segja að ég eigi að vera point forward,“ spurði Johnson við tilefnið.

Marques Johnson í leik með Milwaukee Bucks, gullfallegur á velli.

Marques Johnson í leik með Milwaukee Bucks, gullfallegur á velli.

 

Síðasti NBA-leikmaðurinn sem kemur við sögu að einhverju ráði í myndinni er Freeman Williams en hann fór með hlutverk Ducks Johnson, hluti hins goðsagnakennda tvíeykis myndarinnar; The King & the Duck!

 

Williams lék sem vængmaður fyrir San Diego Clippers frá 1978 til 1982 og lék þar til að mynda með Joe Bryant, þá nýbökuðum föður pilts að nafni Kobe. Williams vakti strax athygli fyrir einstaka hæfileika til að skora en hans besta tímabil var 1980-1981. Þá skoraði hann 19,3 stig að meðaltali í leik á einungis 24,1 mínútu – sem er auðvitað algert rugl. Honum var síðar skipt til Atlanta Hawks en þar átti hann eftir að setja sitt dýpsta spor í sögu deildarinnar. Það spor var í stuttu máli að vera notaður sem skiptimynt fyrir goðsögnina Dominique Wilkins, sem hafði verið valinn af Utah Jazz í nýliðavalinu en neitaði að leika með liðinu. Freeman Williams náði sér aldrei á strik eftir þau skipti og lék aðeins 18 leiki með Jazz.

 

Freeman Williams brýst að körfunni í leik gegn Nets um 1980.

Freeman Williams brýst að körfunni í leik gegn Nets um 1980.

 

Þess má síðan til gamans geta að sá sem fór með hlutverk King Faroo, í áðurnefndu tvíeyki, var tónlistarmaðurinn Louis Price. Hans 15 mínútum af frægð (fyrir utan White Men Can’t Jump, vitaskuld) var sennilega varið við að vera einn aðalsöngvara The Temptations á stuttu tímabili hljómsveitarinnar hjá Atlantic Records á árunum 1977 til 1980 eftir að Dennis Edwards hafði yfirgefið hljómsveitina. Hann lék aldrei körfubolta sem atvinnumaður þótt áhorfendur gætu haldið annað. Tónlistarferli hans lauk, eða svo gott sem, þegar Edwards sneri aftur í Temptations. En, reyndar, í útlegðinni hafði Edwards samið lag, sem kom þó ekki út fyrr en 1984, og varð alger smellur. Svona höfum við öll einhverju hlutverki að gegna.

 

Smellurinn var að sjálfsögðu: „ Don’t Look Any Further.“

 

Vídjó