Ríkið Júgóslavía — land Suður-Slava — varð til í stakkaskiptunum miklu eftir fyrri heimsstyrjöld, við sameiningu nokkura slavneskra ríkja á Balkanskaga. Eftir síðari heimsstyrjöld komust kommúnistar til valda undir stjórn Josip Broz Tito. Tito gerði Júgóslavíu að sambandsríki og barði niður þjóðernis- og aðskilnaðaröfl af hörku.

 

Miklar umbreytingar fylgdu dauða Tito og þegar járntjaldið féll árið 1989 fór aftur að kynda undir gömlu þjóðernisöflunum. Þetta ferli leiddi til borgarastyrjaldar í byrjun tíunda áratugarins og endanlegrar upplausnar Júgóslavíu í sjö mismunandi þjóðríki — Serbíu, Makedóníu, Króatíu, Slóveníu, Bosníu og Hersegóvínu, Kósóvó og Svartfjallaland.

 

BBC heimildarþættirnir The Death of Yugoslavia frá árinu 1995 greina frá þessari atburðarás. Þeir geyma ótrúlegar upptökur úr borgarastríðinu og ítarleg viðtöl við Milosevic, Tudjman og aðra valdhafa, ásamt skýrri og sanngjarnri umfjöllun um flókna sögulega atburðarás. Það er ekki orðum aukið að hér sé á ferðinni framúrskarandi efni.

 

Þættirnir eru sex talsins og aðgengilegir á YouTube. Hver þáttur er 50 mínútna langur.

 

Vídjó