Ætla má að einhverjir þeirra sem lögðu leið sína um Austurstrætið í Reykjavík, laugardaginn 21. júlí 1934, hafi rekið augun í ljósmynd sem hékk í glugga á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins ofarlega í götunni.
Kannski söfnuðust jafnvel saman litlir hópar fólks við gluggann, af og til yfir daginn, því þetta var ansi sérkennileg mynd. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða mynd þetta var, en það getur vel hafa verið þessi hér:
Skýringu á þessari uppstillingu Morgunblaðsmanna mátti finna á þriðju síðu blaðsins þennan laugardag. Var þar endursögð nýleg frétt úr austurríska dagblaðinu Telegraf af kynlegum kvistum sem komnir voru til höfuðborgarinnar Vínar.
„Annars kalla þeir sig „ísfólk“ á auglýsingum sínum, en þeir eru hinir svonefndu Albinos, eða „hvítir“ menn. Þeir koma frá hinu fjarlæga heimkynni sínu, hinu sagnauðga Íslandi, og ætla að ferðast um Evrópu og sýna íslenska þjóðsiðu, þjóðdansa og leika. Þeir ganga í hinum skrautlegu þjóðbúningum sínum og ætla að sýna í Zirkus-Zentral-Gebäude í Prater (Tivoli). En þeir þjást svo mikið af hita, að það var að sækja lækni í dag handa tveimur konum, sem eru í flokknum.“
Segir Morgunblaðið ennfremur frá því að austurríska blaðið hafi rætt við forsprakka þessara „Íslendinga“ sem haldi því fram á að á landinu þrífist enn nokkrar fjölskyldur „hvítra“ manna, einangraðar.
„Þeir sjeu mjög næmir fyrir hita, því að hörund þeirra vanti lit. Og svo sjeu augasteinarnir í þeim rauðir, og þoli þeir ekki sterkt ljós. Fjelagar sínir, sem sje nýkomnir frá Íslandi, geti ekki lifað, nema þeir fái stöðugt fjallagrös og fjallagrasaseyði. Sjálfur kveðst hann hafa farið þriggja ára gamall frá Íslandi og vera orðinn öllu vanur.“
Þetta glens féll ekki í kramið hjá blaðamanni Morgunblaðsins, sem í lok greinarinnar spyr: „Finst íslensku stjórninni ekki ástæða til þess, að koma í veg fyrir að þessi flokkur flaggi með því út um allan heim, að hann sje frá Íslandi?“
En hverjir voru þessir undarlegu ísmenni, sem þóttust vera Íslendingar á alþjóðavettvangi?
Leiðtogi loddaranna, sem austurríska blaðið Telegraf ræddi við, var meðal merkustu sirkuslistamanna síns tíma og átti langan feril að baki. Hann kallaði sig Tom Jack en var fæddur Karl Breu í Dubňany, sem nú er í Tékklandi.
Foreldrar hans voru Þjóðverjar, báðir glerskerar, en framtíð í þeirri iðn átti ekki eftir að liggja fyrir syninum. Hann var albínói, og þóttu viðkvæm augu hans henta illa til glerskurðar — og þar að auki fékk hann í æsku brennandi áhuga annari grein, sirkus.
Þar vann skringilegt útlitið með honum. Á táningsaldri fór hann að heiman og gekk til liðs við sirkus, fyrst sem trúður, lagði svo fyrir sig galdrabrögð. Hann heillaðist sérstaklega af Harry Houdini, sem um þessar mundir, á fyrstu árum tuttugustu aldar, var á hátindi frægðar sinnar.
Með þrotlausum æfingum sérhæfði Jack sig í kúnst Houdinis — að sleppa úr ýmisskonar fjötrum og prísundum, að því er virtist með undraverðum hætti. Hann safnaði miklu hvítu hári og skeggi og fékk viðurnefnið „Ískonungurinn“ sökum kuldalegs útlitsins.
Ískonungurinn Jack náði talsverðum frama í Evrópu og þjénaði ágætlega. Hann giftist albínóastúlku sem einnig var í sirkusbransanum. Á fjórða áratugnum söðlaði hann svo um og kynnti nýtt atriði til leiks: „To-Ya og Ísfjölskylduna“, meðlimir hverrar voru allir hvítir eins og Jack í útliti, þó ekki hafi allir verið albínóar í raun — hvít hárkolla þótti nægja.
Og sögunni fylgdi að þetta væru sjaldgæfir afdala-Íslendingar sem nærðust aðeins á mosa og fjallagrösum.
Ískonungurinn var reyndar ekki alls ókunnur alvöru Íslendingum. Þann 25. júlí 1934 segir Morgunblaðið frá því að Jóhannes Jósefsson, glímukappinn frækni sem reisti Hótel Borg hafi rekið augun í myndina af loddurunum alræmdu í Vín í glugga Morgunblaðshússins í Austurstræti.
Þekkti hann þar strax Tom Jack, sem hafði verið samtíða honum í fjölleikahúsi í Pétursborg árið 1909. Þá hafði Jack enn aðallega stundað ýmisskonar Houdini-brögð. Jóhannes hafði og ekkert frétt af honum síðan, og gat því engar skýringar gefið á nýjasta uppátæki hans.
Morgunblaðið notaði þó enn tækifærið og hvatti íslensk stjórnvöld til þess að grípa til aðgerða gegn loddurunum: „Ekki hefir blaðið ennþá frjett, að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að láta þessa náunga hætta því uppátæki að nefna sig Íslendinga.“
Þremur dögum síðar komst Ísfjölskyldan aftur á síður Moggans. Ræddi blaðið þá við Gunnar Guðjónsson skipamiðlara sem hafði rekist á „hvítu Íslendingana“ í Amsterdam þá um vorið ásamt vélamanninum Gísla Jónssyni. Blöskraði þeim báðum ósvífni þessara þykjustu-Íslendinga, og kröfðu einn þeirra um svör:
Við ávörpuðum hann á íslensku, en í henni skildi hann ekki eitt orð. En dönsku kvaðst hann kunna. Við sögðum, að á Íslandi væri ekki töluð danska. Þá spurði hann okkur, hvaðan við værum.
— Frá Reykjavík.
— Já, það lá að. Við erum frá Norðurlandi og þar er töluð alt önnur mállýska heldur en á Suðurlandi!
— Hvaðan eruð þið þá?
— Við erum upprunnir rjett hjá Akureyri.Hvaðan eða úr hvaða sveit vissu þeir ekki. En sá sem talaði við Gunnar og Gísla, sagðist vera prófessor.
Íslendingunum „ofbauð þessi frekja“ albínóanna svo mjög að þeir reyndu að vekja áhuga hollenskra dagblaða á því að „fletta ofan af þessum svikahröppum“. Það tókst ekki en Morgunblaðið lét ekki sitt eftir liggja og krafðist þess enn og aftur að „íslenska stjórnin taki í taumana svo rækilega, að loddarar þessir hætti þessum skrípaleik.“
Segir næst af málinu í Mogganum 18. ágúst. Þá hafði austurríski baróninn Hans von Jaden, sem var giftur Ástu Pétursdóttur, systur Helga Pjeturss, tekið það á sig að fara á fund loddaranna sem staddir voru í heimaborg hans:
Segir hann m.a. að han hafi bent þeim á þá óhæfu, að ganga þannig undir fölsku nafni. „Þjóðbúningur“ þeirra er, segir hann, rauðröndóttir sokkar, bláar treyjur með röndum og skringilegar húfur. Þá segir v. Jaden, að sami flokkur muni hjer áður hafa sýnt sig sem „svarta dvergþjóð“ („búskmenn“).
Líklega varð þessi síðasta staðreynd ekki til þess að auka vinsældir Ísfjölskyldunnar á Íslandi. En Morgunblaðið fjallaði ekki frekar um málið og þrátt fyrir herferð blaðsins aðhöfðust íslensk stjórnvöld ekkert í því að fletta ofan af þessum kræfu svika-Íslendingum, sem hentu gaman að landi og þjóð.
Ekki veit Lemúrinn hversu lengi Tom Jack og fölu félagar hans dvöldu í Vínarborg, en þaðan lá leið þeirra til Spánar og Belgíu. Allavega er ljóst að þeir fengu að halda uppteknum hætti einhver ár enn. Líklega varð það síðari heimsstyrjöld sem batt enda á feril Ísfjölskyldunnar, frekar en þrýstingur frá ósáttum íslenskum stjórnvöldum eða blaðamönnum Morgunblaðsins.
Þeim sögum fer af konunginum sjálfum, Tom Jack, að eftir heimsstyrjöldina ætlaði hann að setjast í helgan stein með konu sinni og börnum, á landspildu sem hann hafði keypt fyrir sirkuslaun sín á heimaslóðum í Tékklandi. Hann starfaði þá fyrir bandaríska herinn í Tékklandi sem túlkur, því hann hafði náð góðum tökum á ensku á flakki sínu um Evrópu sem sirkuslistamaður.
Það fór þó ekki svo vel því eins og fleiri Þjóðverjum var honum og fjölskyldu hans ekki stætt í Tékklandi eftirstríðsáranna. Þau fluttust að lokum yfir landamærin til Þýskalands. Ískonungurinn Tom Jack bar beinin í þýskum smábæ í október 1953, 69 ára að aldri — en hvað varð um aðra meðlimi Ísfjölskyldunnar er óvíst.