Árið 1930 var Hótel Borg reist. Talað var um að sóma lands og þjóðar hefði verið bjargað með stofnun hótelsins – en sá sem lagði út peningana var íslenskur sirkuslistamaður, Jóhannes Jósefsson.

 

Þegar orðinu sirkus er slegið upp í leitarvélum á vefnum koma oftast upp upphrópanir sem lýsa því að Alþingi sé sirkus, eða að þetta og hitt sé fjölmiðlasirkus. Sirkus hefur neikvæða merkingu hjá fjölda fólks. Að sama skapi er hægt að fletta upp orðinu trúður og sjá tuðandi bloggara og svokallaða „virka í athugasemdum“ gera lítið úr borgarstjóranum Jóni Gnarr, því hann sé trúður.

 

Töskumerki frá fjórða áratugnum. (Ebay).

Töskumerki frá fimmta áratugnum. (Ebay).

Þó margir sirkusar hafi sótt Ísland heim á árum áður, er ekki hægt að tala um að hér hafi verið sirkushefð. Nokkrir Íslendingar störfuðu þó í sirkusum og viðundrasýningum erlendis, til dæmis Jóhann risi og Ólöf eskimói.

 

Helsti fánaberi íslensks sirkus á erlendum vettvangi í seinni tíð er tvímælalaust Vesturport með sirkusútgáfu sinni á Rómeó og Júlíu. Sirkus Íslands var stofnaður 2007 og safnaði á síðasta ári fyrir sirkustjaldi svo eftir var tekið. Þrír meðlimir hans stunda nú nám í hinum virta Codarts-sirkuslistaskóla í Rotterdam og þeirra á meðal er Eyrún Ævarsdóttir. Eyrún sérhæfir sig í loftfimleikum, þá aðallega í loftfimleikum í reipi. Á dögunum skrifaði hún ritgerð um Íslendinga og sirkus og fékk Lemúrinn leyfi til að þýða kafla úr ritgerðinni og nota heimildir sem Eyrún tíndi til.

 

„Árið 1930 var mikið merkisár í sögu þjóðarinnar eins og kunnugt er. Þúsund ár voru liðin frá stofnun alþingis, og framundan voru mikil hátíðahöld og gestakoma til landsins meiri en nokkru sinni fyrr. En sá var ljóður á ráði lítillar og fátækrar þjóðar, að hún var þess vanbúin að taka á móti og hýsa fjölda erlendra fyrirmanna, þar sem ekkert hótel hafði verið byggt. Enginn var sá aðili hér á landi, sem taldi sig þess umkominn að standa undir slíkri stórframkvæmd fjárhagslega.

Þá varð það til bjargar sóma lands og þjóðar, að Jóhannes Jósefsson, glímukappi, sem dvalizt hafði með framandi þjóðum um árabil, getið sér frægðar og frama og nokkurs fjár, kom heim og leysti þennan vanda.“ (úr Vikunni, 8. tbl. 1970)

 

Jóhannes Jósefsson lagði til peninga til byggingar og innbús Hótel Borgar árið 1930, upphæðin nam 1,3 milljónum króna. Til að glöggva sig á hversu mikill peningur þetta var þá skal nefnt að hádegismatur á nýopnaðri Borg kostaði 2 krónur og 50 aura.

 

Hvernig mátti það vera að glímukappi gæti lagt út fyrir þvílíkri stórframkvæmd? Jú, hann „meikaði það“. Hann ferðaðist um heiminn í tvo áratugi og sýndi íslenska glímu.

 

Frá sirkusárunum. Úrklippa úr Morgunblaðinu, 1993.

Frá sirkusárunum. Úrklippa úr Morgunblaðinu, 1993.

 

Jóhannes Jósefsson var fyrsti íslenski sirkuslistamaðurinn á erlendum vettvangi. Hann sýndi glímu í sirkusum og fjöllistasýningum (variety shows) í Bretlandi, Danmörku, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Jóhannes var ekki einn á ferð – hann sá fyrir fjölskyldu á ferðalaginu, konu sinni Karólínu Guðlaugsdóttur og dætrunum Daisy Sögu og Heklu.

 

Karólína sá um búningana og peningamálin og fjölskyldan bjó á hótelum. Þegar Jóhannes fékk menn í heimsókn til að spila póker átti Karólína það til að fela peninga í brjóstahöldum sínum svo Jóhannes myndi ekki spila öllu út. Svo brjóstahöld Karólínu eiga líka sinn þátt í því að peningarnir voru til staðar.

 

Evening Times 

Í nóvember árið 1919 segir Morgunblaðið frá ummælum erlendra miðla um Jóhannes, sem hefur kynnt glímu fyrir heiminum, en í formála segir: „Hér á landi eru hálfgerð dauðamörk á glímunni. Menn nenna ekki að glíma og aðrir nenna ekki að horfa á.“

 

Þegar þarna var komið við sögu hafði Jóhannes sýnt glímu erlendis í níu ár. Talað er um að glímuflokkur Jóhannesar sé algjör hápunktur fjöllistasýninganna, að hann kasti af sér þremur mönnum sem eru vopnaðir hnífum og skammbyssum. Samkvæmt barnabarni þeirra, listakonunni Karólínu Lárusdóttur, birtust greinar eftir Jóhannes og Karólínu í amerískum kvennablöðum um hvernig konur gátu nýtt sér íslenska glímu til sjálfsvarnar.

 

Jóhannes glímir við skógarbjörn.

Jóhannes glímir við skógarbjörn.

 

Þekktasta atriði Jóhannesar var að glíma við skógarbjörn. Þessi mynd er fengin úr bókinni Jóhannes á Borg – Minningar glímukappans sem Stefán Jónsson skrifaði og var gefin út 1964. Í Bandaríkjunum kom Jóhannes meðal annars fram með Barnum og Baileys-sirkusnum, og margir listamenn sem komu fram þar urðu síðar heimsfrægir, til dæmis töframaðurinn Harry Houdini.

 

Árið 1960 seldi Jóhannes Hótel Borg hlutafélagi með sama nafni.

 

Efsta myndin er unnin með raunverulegum veggspjöldum hjá Circusmuseum.nl.