Jóga er ein vinsælasta gerð líkamsræktar í nútímanum. Milljónir manna um allan heim stunda óteljandi líkamsstellingar sem hressa og liðka bæði líkama og sál. En fyrirbærið jóga – eins og vestrænt fólk þekkir það – á sér furðulega sögu sem er mun nær okkur í tíma en við áttum okkur á. Og mun vestrænni.

Í upphafi tuttugustu aldar varð vinsæl hugmyndin um að hið nýja og þróaða iðnríki hefði skaðleg áhrif á manninn. Risastórar verksmiðjur spúðu eitri í dimmum og menguðum borgum sem skapaði hættu fyrir mannskepnuna, sem nú drabbaðist niður í aumingja.

Heilsuræktarfrömuðir á Vesturlöndum hvöttu því fólk til að horfa til glæstrar fortíðar mannsins í heiminum áður en iðnbylting hófst.

Talið var að menn til forna hefðu verið miklu þrekmeiri og sterkari – og af þeim sökum göfugri.

Á Íslandi birtust þessir menningarstraumar okkur í gegnum hinar svokölluðu Müllersæfingar, eftir danska leikfimikennarann Jørgen Peter Müller (1866-1936). Hann boðaði heilbrigt líferni og líkamsrækt byggða á teygjum, öndun og strokum. Æfingarnar eru kannski þekktastar í dag fyrir að vera oftar en ekki stundaðar af nöktu fólki, en Müller taldi mikla heilsubót fólgna í að klæða sig úr kæfandi fötum.

Müller varð einn frægasti maður heims á sinni tíð. Hann bjó í London á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöld og varð einn af boðberum nýrrar stefnu, svonefndra líkamsmennta eða physical culture, ásamt kraftakarlinum Eugen Sandow og fleiri frömuðum á borð við Mary Bagot Stack og Georges Hébert.

J.P. Müller.

Líkamsmenntahreyfingin hófst á Norðurlöndunum og Þýskalandi en breiddist hratt um Evrópu áður en hún skall á ströndum Norður-Ameríku. Hún komst líka til Indlands.

Og fyrir röð sögulegra tilviljana smitaðist jóga af þessum vestrænu heilsuræktaræfingum í kraumandi suðupotti breskra og indverskra áhrifa í sjálfstæðisbaráttu Indlands.

Þrekdjarfir fornmenn

Á Íslandi blandaðist trúin um líkamlega hnignun nútímamannsins saman við fortíðarþrá þjóðernishyggjunnar í sjálfstæðisbaráttunni. „Þegar vér lítum yfir aldursár hinnar íslenzku þjóðar, þá birtir oss þeim mun meir fyrir sjónum sem lengra dregur aptur í tímann. Lengst í fjarska, á bak við sortann, lýsir fornöldin sem leiptur um nátt. Þar hittum vér fyrir þrekdjarfa kynslóð, er lifir dáðrökku lífi.“

Þessi orð skrifaði dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði sem samdi bókina Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum árið 1908.

Í henni útskýrði hann hvernig menn á víkingaöld hefðu lifað miklu glæsilegri tíma vegna líkamsræktar sem þeir stunduðu daginn út og inn. Það segir sína sögu að Björn þýddi bókina Mín aðferð eftir J.P. Müller.

Í formála sagði „Yfirburðir þessarar aðferðar yfir aðra heimafimleiki eru aðallega í því fólgnir, að hún snýr einkar heilsusamlegan samþætting úr öllu þrennu: fimleikum, loftbaði og vatnsbaði, er við allra hæfi með litlum afbrigðum og þó öðrum aðferðum ódýrari, umsvifaminni og auðlærðari.“

Hér fyrir neðan gerir J.P. Müller sjálfur æfingar:

Víða um heim urðu til samtök Müllerista sem stunduðu líkamsrækt úti í guðsgrænni náttúrunni. Frægastur þeirra hér á landi var líklega Þórbergur Þórðarson. Annar rithöfundur, Franz Kafka, átti líka bók Müllers og spriklaði nakinn í íbúð sinni í Prag til að jafna sig á löngum dögum á skrifstofu tryggingarfyrirtækisins þar sem vann.

„Veturinn 1913-1914, leikfimi drengja í íþróttasal barnaskólans í Reykjavík. Ýmis áhöld til íþróttaiðkunar, hestur, kista, þverslá, rimlar, kaðlar og hringir í loftinu. Upp við vegginn er ofn til upphitunar og á veggnum eru teikningar sem sýna leikfimisæfingar, gætu verið svokallaðar Mullers-æfingar.“ Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Hnyklaði nakinn vöðvana

Prússneski kraftakarlinn Eugen Sandow var annar nafnkunnur heilsuræktarfrömuður í byrjun tuttugustu aldar. Hann hóf ferilinn sem lyftingamaður í sirkussýningum en varð heimsfrægur á ferðalögum sínum um heiminn, sérstaklega í Bretlandi.

Sandow er talinn faðir vaxtarræktar en hugtakið „bodybuilding“, kom fyrst fram í bók eftir hann árið 1904. Hann sýndi stæltan líkama sinn með lítið annað en fíkjublað til að skýla sér til að líkja eftir styttum frá fornöld.

Hreysti. Sandow hnyklar vöðvana.

Þegar hann var 10 ára gutti fór hann með pabba sínum til Rómaborgar þar sem þeir virtu fyrir sér grískar og rómverskar styttur af fögrum líkömum. „Hvers vegna eru menn ekki svona glæsilegir lengur, pabbi?“ Pabbinn svaraði um hæl að í gamla daga hefði nútímaþjóðfélagið ekki enn eyðilagt hina mikilvægu reglu um að hinir sterkustu kæmust af.

Líkamsræktarstraumarnir sem streymdu um Vesturlönd á þessum tíma tengdust hugmyndum um mannkynsbótastefnu (eugenics) og félagslegan darwinisma. Mannkyninu bar að leyfa hinum sterku að brjótast til áhrifa, en berjast gegn hverskyns úrkynjun og „kynspillingu“.

Æfingar í Stokkhólmi, 1910. Sænskar leikfimiaðferðir og heilsuræktarfræði voru áhrifamikil. Samkvæmt þeim bar ríkinu skylda til að mennta þegna sína á heilsuverndarsviðinu, ekki síður en á því fræðilega. Því varð leikfimi skyldugrein í skólum víða um heim.

Manninum væri þannig unnt að flýta fyrir darwinískri þróun og stýra náttúruvali. Með þessum leiðum yrði allt mannkyn um síðir hreint og sterkt. Þessar kenningar urðu síðar ein af undirstöðum og réttlætingum fyrir kynþáttahyggju nasista sem endaði með skelfingu.

En straumarnir höfðu líka önnur, nokkuð óvænt, áhrif.

Fortíðarþrá Breta

Boðskapur Sandows hitti beint í mark hjá Bretum. Breska heimsveldinu hnignaði smám saman í byrjun tuttugustu aldar og margir yfirstéttarmenn fóru að þjást af söknuði eftir hinum „einfaldari heimi“ fortíðarinnar, heilbrigðri sveitamenningu þar sem mannkynið ætti raunverulega heima. Þessar pælingar voru til þessar gerðar að réttlæta „nauðsynlega“ yfirburðastöðu hins ættgóða hvíta manns yfir heimsbyggðinni.

Sandow varð andlit alþjóðlegrar hreyfingar sem kennd var við líkamlega menningu. Valdamiklir Bretar boðuðu þessa heilsubyltingu því þeir trúðu einlæglega að hún gæti bjargað breska heimsveldinu og íbúum þess frá þeirri hræðilegu líkamlegu grotnun sem hin flókna heimsmynd nýs borgarsamfélags í heiminum olli.

Indverjar vildu líka verða sterkir

Bókin Yoga Body, eftir breska fræðimanninn og jógakennararann Mark Singleton, segir söguna af því hvernig hugmyndir Sandows og félaga urðu á furðulegan hátt, í árekstrum ýmissa afla, upphaf jóga eins og við þekkjum það í dag. Sandow ferðaðist um hnöttinn og kynnti æfingar sínar og skipulagði keppnina „The Empire and Muscle Competition“.

Gríðarlegur mannfjöldi mætti til að berja hann augum þegar hann kom til Indlands árið 1905. Þá geisuðu mikil átök á Indlandi. Bresku nýlenduherrarnir urðu sífellt óvinsælli. Boðskapur Sandows fékk hinsvegar óvænt mikinn hljómgrunn á meðal Indverja og fór nú að blandast á einkennilegan hátt við indverska þjóðernisstefnu.

Samsuða og þjóðernisást

Í lok þriðja áratugarins kom fram á sjónarsviðið heilsuræktarfrömuðurinn K.V. Iyer. Hann var nokkurs konar indversk útgáfa af Sandow. Vöðvar hans og líkamleg fullkomnun efldu indversku þjóðarsálina gegn ofríki Breta, sem höfðu ávallt litið niður á líkamlegt atgervi Indverja, töldu þá veikbyggða og spillta.

Indverski kraftakarlinn Iyer.

En þar sem þessi nýja heilsuræktarbylgja var í raun smituð frá Bretum sjálfum datt Iyer það snjallræði í hug að sjóða hana við aldagamla indverska siði til að málflutningur hans passaði betur við sjálfstæðisbaráttuna.

Til urðu ný samtök, „Yogic Physical Culture“. Í bók Singletons er farið í saumana á því hvernig jóga varð til úr þessari samsuðu vestrænna heilsuræktaraðferða – til dæmis vaxtarræktar Sandows og ýmsum aðferðum á borð við Müllersæfingarnar – við þjóðernishyggju í nútímaríki Indlands.

Jóga hafði auðvitað verið til um aldir á Indlandi og hafði, til dæmis, hlotið töluverða frægð á meðal menntamanna í Evrópu um aldamótin 1900. En hið hefðbundna forna jóga var af allt öðrum toga en sú gerð jóga sem frægust er í dag í heiminum.

Fróðleg bók.

Hið hefðbundna byggðist á sitjandi stöðum þar sem íhugun var lykilatriðið. Hið sögulega jóga var ekki þessi líkamlega íþrótt líkamsræktarstöðvarinnar sem við þekkjum svo vel í dag.

Maurar átu forna bók

Samverkamaður Iyer, jógakennarinn Tirumalai Krishnamacharya, kom fram með forna trúarlega speki sem í ljós hefur komið að var því miður uppspuni frá rótum. Tilgangurinn var að gefa þessari nýju blöndu jóga og heilsuræktar indverskan og dulspekilegan blæ. Krishnamacharya, sem síðar varð einn frægasti jógakennari sögunnar, sagði að jóga væri 5000 ára gömul hefð. Það hefði hann lært með því að lesa hina eldfornu bók Yoga Korunta, sem skrifuð var á sanskrít.

Hann sagðist hafa fundið bókina djúpt grafna í þjóðskjalasafni Indlands og þýtt hana yfir í munnlega útgáfu sem hann breiddi nú út á meðal fylgjenda sinna. Þegar reynt var að hafa upp á þessari gömlu bók sagði Krishnamacharya að maurar hefðu því miður étið hana upp til agna. Bók Singleton sýnir fram að speki Krishnamacharya var líklega ekkert annað en uppspuni og í raun hafi það jóga, sem hann boðaði, verið í anda vestrænnar heilsuræktar og átt lítið með hina fornu hefð að gera.

Vídjó

Krishnamacharya stundar jóga árið 1938.

Jóga fór í marga hringi

Ef marka má niðurstöður í bók Mark Singleton má ef til vill segja að nútímajóga sé á einkennilegan hátt sameiginlegt afkvæmi vestrænnar „Müllermenningar“ og indverskrar hefðar. Á tuttugustu öld sameinuðu menn eins og K.V. Iyer og Tirumalai Krishnamacharya hið forna jóga við ýmsar leikfimiæfingar sem þeir höfðu lært í gegnum breska valdhafa.

„Selastaðan“ í bók Mary Bagot Stack frá 1931 er nauðalík engisprettunni eða Shalabasana í jóga. (Building the Body Beautiful, the Bagot Stack Stretch-and-Swing System)

Þegar á leið tuttugustu öldina, sérstaklega upp úr 1970 þegar jóga breiddist út um allan heim, var fyrirbærið selt vestrænni menningu sem dularfull og dulspekileg asísk iðja.

„Dauðans aumingjar“

Þórbergur Þórðarson var landskunnur fyrir að stunda Müllersæfingar á adamsklæðunum einum. Færri vita ef til að hann iðkaði jóga. Í greininni „Ljós frá Austri“, sem birtist í Eimreiðinni árið 1919, sagði hann frá þeirri ástríðu sinni.

Þórbergur stundar Müllersæfingar í kvikmynd Ósvalds Knudsen.

Í ljósi þess sem komið hefur fram hér að ofan er ef til vill gaman að rifja upp nokkur orð sem hann skrifaði þar. Þó ber að geta þess að jógaiðkun hans bar til áður en hin mikla samsuða vestrænnar líkamsræktar og jóga varð að hina vinsæla alþjóðafyrirbæri sem það er í dag.

Yoga er reist á alt annari grundvallarskoðun á manneðlinu og umheiminum heldur en vestræn íþróttakerfi. Þeim er yfirleitt hreykt upp á þeirri flasfengnu staðhæfingu, að maðurinn sé líkami, samstarf skynrænna krafta. Yoga segir aftur á móti: maðurinn er „andi“, sem býr í og stjórnar skynrænum líkama. Á þessari staðhæfingu eða öllu fremur þekkingu er alt Yoga-kerfið reist. Yoga leggur með öðrum orðum megináherzluna á þroskun andans sem stjórnanda efnisins. Af þessum gagnólíka skilningi leiðir hinn mikla mun vestrænna líkamsæfinga og Yoga. Vestrænar líkamsæfingar eru fólgnar í vissum vöðvabreyfingum, ati, sem oft er frábærlega barbarískt og smekklaust, eins og t.d. grísk-rómverska glíman og fótboltinn, sem er orðinn landlæg plága hér í kveldroðarykinu á Melunum og sýnir, hverjir dauðans aumingjar vér erum enn í þekkingu og æðri og fínni menningu. Jafnæsandi óhemjuskapur heimskar ekki að eins og útslítur kröftum þeirra, sem halda honum uppi, heldur tryllir hann jafnvel fjölda fólks, sem lítið má missa, frá rósemd og skynsamlegu viti. Í margar þessar ánalegu hreyfingar fer óguðlega mikil orka forgörðum. Þær eru blátt áfram óhagrænar, miðað við nýtni náttúrunnar og nirfilsskap þjóðarinnar í garð þessara fáu vesalinga, sem hafa lagt sig niður við að hugsa. Menn láta eins og óðir, ef þeir vita af rennandi fossmigu einhvers staðar uppi á öræfum, hafa ekki flóafrið fyr en þeir hafa umturnað henni í mykju og hlutabréf. En mannlegur máttur er látinn fara út um hvippinn og hvappinn í allskonar fettur og brettur, pat og stapp, sem ekkert vit er í.

Þórbergur Þórðarson, „Ljós frá Austri“, 1919.

Ítarefni og heimildir:

Adam Curtis – Bodybuilding and Nation-building

Lalita Kaplish – Yoga gets physical

Birtist áður að hluta í Fréttatímanum, 19. maí 2016.