Lemúrinn var stofnaður 8. október 2011 og er því þriggja ára í dag! Ritstjórn þakkar frábærar viðtökur síðastliðin ár.

 

Margt hefur gerst á árinu. Við höfum gert nokkrar umbætur á vefnum: Lesendur geta nú skoðað greinar eftir löndum á Lemúrskortinu, og farið á tímaflakk á Tímalínu Lemúrsins. Þá er Greinasafnið betra í sniðum og nýir pennar hafa gengið til liðs við okkur. Náttborðið, bókahorn Lemúrsins, var sett á laggirnar fyrr í ár.

 

Á Náttborði Lemúrsins er fjallað um bækur úr ýmsum áttum

Á Náttborði Lemúrsins er fjallað um bækur úr ýmsum áttum.

Veturinn 2013 til 2014 var Lemúrinn með vikulegan þátt á Rás 1. Útvarpsþættir Lemúrsins, og Leðurblakan, sumarþáttur Lemúrsins, eru aðgengilegir á Útvarpssíðunni.

 

Lesendahópurinn heldur áfram að vaxa. Við minnum ykkur á að fylgjast með Lemúrnum á Facebook, en hópurinn þar telur nú hátt í sex þúsunds manns. Við erum einnig á Twitter og með RSS veitu. Lesendur eru auðvitað hvattir til þess að segja vinum og vandamönnum frá okkur.

 

Hér eru tíu vinsælustu greinar ársins:

 
 

1. Hundrað magnaðar ljósmyndir frá Íslandi um aldamótin 1900 eftir Frederick W.W. Howell

Fjallagarpurinn og ljós­mynd­ar­inn enski, Frederick W.W Howell, tók stór­kost­legar ljós­myndir frá Íslandi um alda­mótin 1900.

2. „Íslenzku blóði hefir úthelt verið“: Íslenskir hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni

Ríflega 1200 Íslendingar börðust í fyrri heimsstyrjöld, flestir þeirra fyrir Kanadaher en sumir fyrir Bandaríkjaher. Þó að um Vestur-Íslendinga hafi verið að ræða fæddist um þriðjungur þessara manna á Íslandi. 144 týndu lífi og fjölmargir slösuðust, flestir í hinum mannskæðu orrustum á vesturvígstöðvunum.

3. Íslensk morðsaga frá 1704: Var dæmdur til dauða fyrir morð og höfuð hans sett á staur

Árið 1704 var óhugnanlegt morð framið í grennd við Reykjavík. Morðingjarnir, Sigurður og Steinunn, voru dæmd til dauða. Hann var hálshöggvinn og höfuð hans sett á staur öðrum til viðvörunar. Henni var drekkt.

4. Geimferjan Enterprise á Íslandi, 1983

Í maí 1983 lenti sérútbúin Boeing 747 þota á Keflavíkurflugvelli. Það hefði ekki verið í frásögur færandi hefði hún ekki flogið með geimferjuna Enterprise á bakinu!

5. Magnaðar myndir frá súrrealísku kvöldverðarboði Rothschild-fjölskyldunnar

Árið 1972 bauð Marie-Hélène de Rothschild, eiginkona helsta erfingja Frakklandsarms Rothschild-veldisins, til kvöldverðarboðs sem var einkar metnaðarfullt. Í kvöldverði súrrealísku höfðanna kom fínasta og ríkasta fólk Parísarborgar. Og Salvador Dali var lykilmaður.

6. Fáðu níunda áratuginn beint í æð með Miklagarðstíðindum

Verslun Miklagarðs í Holtagörðum í Reykjavík var stærsta verslun landsins á níunda áratugnum. Mikligarður opnaði 1983 og lokaði tíu árum síðar þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. Lemúrinn skoðar Miklagarðsbækling frá árinu 1985.

7. Buðu þýskum nasistaprinsi að verða kóngur á Íslandi

Árið 1952 gaf þýskur aðalsmaður, Friedrich Christian prins af Schaumburg-Lippe, út æviminningar sínar. Í ævisögunni sagði hann frá fundi sem hann hafði átt vorið 1938 í Berlín með þremur Íslendingum. Á fundinum var prinsinum boðið að verða konungur Íslands eftir að landið hefði öðlast sjálfstæði.

8. Jón Gnarr í gegnum árin

Jón Gnarr hefur verið áberandi í þjóðfélaginu um langt skeið og hefur notað ólík birtingarform og búninga til að skemmta landanum. Nú þegar ljóst er að Jón mun láta af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkur er ekki úr vegi að renna yfir feril Jóns í dagblöðunum.

9. Sex orða smásaga Hemingway kom fólki til að gráta

Með betri sögum sem fara af rithöfundinum Hemingway er þegar hann ákvað að veðja við nokkra starfsbræður sína úr rithöfundastétt að hann gæti skrifað smásögu sem væri aðeins sex orð að lengd – en gæti engu að síður fengið lesendur til að bresta í grát.

10. Trúboðasleikjari: Tónlistarmyndbandið sem þjóðin fékk aldrei að sjá

Árið 1988 kom stuttskífan Hold út, fyrsta plata gleðisveitarinnar Ham. Skömmu síðar sendi sveitin frá sér tónlistarmyndband við lagið Trúboðasleikjari. Óttarr Proppé var því miður ekki á landinu þegar það var tekið upp en þeir fengu Stefán Karl Guðjónsson, trommuleikara Fræbbblanna, til liðs við sig. Útkoman var í senn stórkostleg og hryllileg.