Jón Gnarr hefur verið áberandi í þjóðfélaginu um langt skeið og hefur notað ólík birtingarform og búninga til að skemmta landanum. Nú þegar ljóst er að Jón mun láta af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkur er ekki úr vegi að renna yfir feril Jóns í dagblöðunum, en hann hefur gegnum árin meðal annars starfað sem skáld, leikari, myndlistarmaður og rithöfundur.

 

Við hefjum leik í Þjóðviljanum. Undir lok níunda áratugsins birtust ljóð og viðtöl eftir ungt skáld, Jón Gnarr. Hann vann til verðlauna fyrir ljóð sín. Skondnar en snjallar ljóðlínur á borð við „Ég hlæ svo mikið að ég breytist í barnavagn og renn í burtu“ virtust hitta í mark hjá þessu tilraunakennda pönkskáldi.

 

Þjóðviljinn 1987

Þjóðviljinn í maí 1987.

 

Hér er hægt að lesa viðtal við Jón sem birtist í Þjóðviljanum árið 1987.

 

Ljóð eftir Jón Gnarr, Þjóðviljinn 1987.

Ljóð eftir Jón Gnarr, Þjóðviljinn 1987.

 

„Jón Gnarr heitir skáld í Reykjavík og sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu í haust. Í sögunni lýsir skáldið heldur nöturlegri borg þar sem líf ungra íbúa er ekki tekið út með sitjandi sældinni. Borgina kallar Jón Miðnætursólborgina.“ Þetta er upphaf greinar í Þjóðviljanum árið 1989 en þá hafði ljóðskáldið skrifað skáldsögu sem fjallaði um borg, nema hvað.

 

Við munum líklega fyrst eftir Jóni Gnarr á grínsviðinu árið 1993 í gamanþættinum Limbó á RÚV. Það var ekki langlífur þáttur þrátt fyrir að þar hafi mæst efnilegustu grínistar landsins. Þjóðin virtist ekki tilbúin fyrir nýja grínsstrauma á Íslandi. Jón birtist eftir 5 mínútur:

 

Vídjó

 

En tvíeykið Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson var ekki af baki dottið. Þeir félagarnir hófu að grínast í útvarpi og slógu í gegn með innslögum í magasínþættinum Dagsljósi á RÚV árið 1995. Hér er hægt að lesa skemmtilegt viðtal í DV við félagana frá í janúar 1996:

 

DV janúar 1996

 

Samstarfið bar ávöxt. Furðuskepnan Tvíhöfði varð til og hann átti eftir að skemmta landanum í útvarpi næstu árin. Hér er auglýsing frá Aðalstöðinni frá júní 1996:

 

DV júní 1996

 

Tvíhöfði var með vinsæla þætti á ýmsum útvarpsstöðvum, X-inu, Radíó, Radíó-X. Þeir gáfu líka út geisladiska með gríni sem voru nokkuð umdeildir. Unga kynslóðin elskaði þá en eldra fólk var ekki eins með á nótum. Árið 1998 ræddi Fókus, fylgiblað DV, við ýmsa kennara, presta og aðra aðila úr uppeldi Jóns og Sigurjóns um húmor þeirra:

 

Kristinn Skæringsson, fyrrverandi flokksstjóri Sigurjóns: „Þátturinn Tvíhöfði á ekki nógu vel við mig, mér fellur ekki nógu vel við húmorinn. Annars hef ég frekar lítið hlustað á þá. Sigurjón var í flokki sem var í minni deild hjá Skógrækt ríkisins í kringum 1986.“

 

Kári Arnórsson, skólastjóri Fossvogsskóla, og fyrrverandi kennari Jóns: „Já, ég get ekki sagt annað en að mér finnist Tvíhöfði svolítið fyndinn. Ég man eftir Jóni þegar hann var í skólanum hjá mér. Hann átti alltaf skemmtilegar athugasemdir. Húmor hans er sérstakur og ágætis tilbreyting við Spaugstofuna.“

 

Hr. Ólafur Skúlason, fermingarprestur Jóns: „Mér finnst þeim í Tvíhöfða takast mjög vel upp. Maður þarf samt að setja sig í sérstakar stellingar ef maður ætlar að njóta húmorsins til fullnustu. Jón Gnarr er nokkuð sérstakt nafn og það situr í mér síðan í gamla daga. Hann hefur örugglega fljótt verið iðinn við að segja gamansögur, ætli hann hafi ekki bara lært eitthvað af prestinum sínum hvað það varðar.“

 

Ívar Hauksson, sem að sögn Jóns lamdi hann þegar hann var ungur drengur: „Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég barði hann ekkert í æsku, ég hristi hann bara svolítið til. Þegar við vorum yngri var Jón alltaf öðruvísi en allir aðrir. Hann klæddist öðruvísi, hann talaði öðruvísi og hann hegðaði sér öðruvísi. Hann var þessi pönk týpa, reykti eins og skepna, klæddist leðurjökkum og það var olíulykt af honum. Hann var nörd í augum þeirra sem voru ekki á sömu línu og hann. Þess vegna varð hann stundum fyrir barðinu á þeim. í dag er Jón í raun alveg eins og hann var. […] Allt sem þeir segja er svo innilega satt, þetta er viss ádeila á þjóðfélagið sem þeir setja fram á svo skemmtilegan máta.“

 

Jón Baldvin Hannesson, kennari Sigurjóns í Grunnskólanum á Ísafirði: „Það fór lítið fyrir Sigurjóni, hann hafði sig ekki í frammi og var frekar latur við námið, gat miklu meira en hann nýtti sér.“

 

Screen Shot 2013-10-30 at 1.03.42 PM

 

Screen Shot 2013-10-30 at 1.02.52 PM

 

Hér er uppistandið Ég var einu sinni Nörd frá árinu 2000, sem einhver hefur hlaðið á YouTube í heild sinni. „Ég tek fram að ég á engan rétt á þessu efni, og hleð því hér upp eingöngu til skemmtunar mér og öðrum.“ skrifar notandinn og Lemúrinn hefur sama vara á.

 

Vídjó

 

Tvíhöfði í essinu sínu:

Screen Shot 2013-10-30 at 1.02.22 PM

 

Tvíhöfði var einnig hluti Fóstbræðrum, grínhópnum sem slóg rækilega í gegn á Stöð 2 á árunum 1997-2001. Þar var Jón Gnarr ógleymanlegur í ótal mörgum hlutverkum.

 

Vídjó

 

Jón stýrði síðar þættinum Gnarrenburg. Þar var hann nokkurs konar borgarstjóri en nafnið kom til vegna þýsku borgarinnar Gnarrenburg í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Hér er brot úr þættinum frá 2002:

 

Vídjó

 

 

DV nóvember 2002

DV, nóvember 2002.

 

Árið 2003 var síðan komið að tímamótum þegar tilkynnt var um lögskilnað Tvíhöfða. Sigurjón Kjartansson hóf samstarf með Dr. Gunna og höfðu þeir umsjón með útvarpsþættinum Zombie. Jón Gnarr réði sig til starfa hjá nýrri útvarpsstöð, Múzík, sem var í eigu fyritækisins Pýrít ehf, sem var aftur í eigu þeirra Valla Sport og Sigga Hlö. Pýrít varð ekki langlíft fyrirtæki.

 

Picture 12

Fréttablaðið, 28. febrúar 2003.

 

Picture 13

Fréttablaðið, 19. febrúar 2003.

 

Jón fékk sig að lokum fullsaddan af útvarpsmennskunni og snerist til kristinnar trúar, kaþólskrar nánar tiltekið. Í dag segist Jón ekki vera trúaður en viðurkennir hins vegar að hann hafi gert „einlæga og heiðarlega tilraun“ til að verða trúaður. Hann valdi sér nýjan starfsvettvang, sem bar vott um einlægni hans í trúnni – svo ekki sé meira sagt.

 

Picture 14

DV, 5. október 2005.

 

Jón skrifaði einnig bakþanka í Fréttablaðið á sama tíma. Pistlar hans einkenndust af kristilegum áherslum og kristilegri sýn á hversdagslífið. Sumum þótti oft nóg um á meðan aðrir grunuðu hann um að hafa skipulagt einhvers konar risagrín í anda bandaríska grínistans Andy Kaufman. Sumir sökuðu Jón um tepruskap, þegar hann lýsti yfir skoðun sinni á sjónvarpsþættinum Íslenski bachelorinn.

 

1421630_10151939153047010_183701680_n

 

Árið 2004 gerði Jón stuttmyndina Með mann á bakinu sem vakti athygli.

 

Vídjó

 

Morgunblaðið, júní 2004.

Með mann á bakinu. Úr stuttmynd eftir Jón Gnarr. Morgunblaðið, júní 2004.

 

Eftir aldamótin gerði Jón Gnarr talsvert af því að semja og leika í auglýsingum, fyrst ásamt Sigurjóni Kjartanssyni og síðar í fastri vinnu á auglýsingastofunni Ennemm. Árið 2011 var þessi auglýsingasería, sem var tekin upp fyrir Tal, valin sú besta í Íslandssögunni af 40 álitsgjöfum auglýsingastofunnar Fíton.

 

Vídjó

 

Í október 2006 bárust síðan fregnir af því að Jón væri að vinna að nýju leiknu efni, ásamt þeim Pétri Jóhanni Sigfússyni og Ragnari Bragasyni. Útkoma þessarar vinnu varð Næturvaktin, sem leiddi síðan af sér tvær þáttaraðir til viðbótar, svo ekki sé minnst á kvikmyndina Bjarnfreðarson.

 

Sirkus, fylgiblað Fréttablaðsins, 13. október 2006.

Sirkus, fylgiblað Fréttablaðsins, 13. október 2006.

 

Jón Gnarr er kannski þekktastur hjá yngstu kynslóðum í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar í Vakta-þáttunum. Í viðtali í Morgunblaðinu árið 2007 kemur fram að Gnarr hafi tekið sér langan tíma í að móta karakter þessa marxíska bensínstöðvarstarfsmanns og meðal annars bloggað í nafni hans til að átta sig betur á honum. Bloggsíðan er ennþá á vefnum, lesið á: http://georgbjarnfredarson.blogspot.com/

 

Það þarf kannski ekki að rifja upp ótrúlega kosningabaráttu Jóns og félaga hans í Besta flokknum, sem kom, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum árið 2010. Minningin um hana varðveitist í heimildarmyndinni Gnarr eftir Gauk Úlfarsson:

 

Vídjó

 

En allt fram streymir endalaust og bráðum verður Jón Gnarr ekki lengur borgarstjóri. Kjörtímabilið sem senn er á enda verður lengi í minnum haft enda það litríkasta í sögu borgarinnar. Gnarr er orðinn alþjóðlega þekktur enda hefur hann oft ratað í heimspressuna með uppátækjum sínum.

 

Jón hefur skrifað tvær bækur, nokkurs konar skáldævisögur. Þær heita Indjáninn (kom út 2006) og Sjóræninginn (2012). Jón Gnarr lýsti yfir í fréttum að hann hyggist snúa aftur á ritvöllinn, eftir að ljóst var að hann myndi hætta sem borgarstjóri.

 

Í Indjánanum segir: „Fæðing mín er annað reiðarslag fyrir fjölskylduna. Að vísu er ég ekki þroskaheftur. Það er léttir. En eftir fæðinguna blasir önnur hryllileg staðreynd við: Ég er rauðhærður. Það hefði ekki getað verið meira áfall þótt ég hefði verið svartur.“

 

Við endum þessa upprifjun á þessu viðtali við borgarstjórann okkar. Sem er geimvera:

 

Vídjó