Ritstjóri og ævintýramaður datt í það með forseta Bandaríkjanna og lánaði honum peninga.

 

Jón Ólafsson ritstjóri, sem reyndi að stofna Íslendinganýlendu í Alaska, hitti Ulysses S. Grant, Bandaríkjaforseta að máli, í Washington árið 1875. Jón hafði skrifað skýrslu um Alaskaáætlanir sínar og afhenti forsetanum skýrslu um málið. Forsetinn studdi hugmyndir Jóns og virtist hafa tekið honum fagnandi. Grant var á þessum tíma í áfengisbindindi en hann hafði lagt slæma drykkusiði á hilluna eftir að hann komst í hið valdamikla embætti. Voru ráðgjafar forsetans mjög á tánum við að halda honum frá áfengi. En ekkert virðist hafa ráðið við Grant þegar Jón bar að garði.

 

Eftirfarandi saga er sögð af fundi þessum í bók Hjartar Pálssonar um Alaskaför Jóns:

 

Vel fór með [Jóni og Ulysses S. Grant], og kom þar brátt, að þeim þótti fullþröngt um sig í Hvíta húsinu og lögðu leið sína á helstu knæpur Washingtonborgar. Þegar þeim tók að leiðast, héldu þeir aftur heimleiðis, og fylgdi Jón forsetanum að dyrum Hvíta hússins. Grant vildi þá halda áfram, en Jón kvaðst vera orðinn syfjaður og slæptur og hafnaði boðinu.

 

Grant sagðist þá mundu blóta Bakkus einn, en hafði orð á því, að sér væri fjár vant. Jóni Ólafssyni fannst hægur vandi að bæta úr því og sagði Bandaríkjaforseta, að hann skyldi lána honum hálfan silfurdal, sem hann væri með á sér. Því tók Grant fegins hendi.

 

Við það kvöddust þeir, og er óvíst með öllu, að þeir hafi sést eftir það. Auðvitað var um það talað, að hinn íslenski lánardrottinn vitjaði fjárins, við hentugleika, en það fórst fyrir, svo að þaðan í frá gat Jón Ólafsson spaugað með það, þegar honum sýndist, að hann teldi til skuldar hjá Bandaríkjaforseta!

 

Ulysses S. Grant Bandaríkjaforseti 1869-1877.

Ulysses S. Grant Bandaríkjaforseti 1869-1877.