LEMÚRINN komst nýlega yfir þetta merkilega skeyti, sem fannst innan um blaðsíðurnar í gamalli bók á heimili á höfuðborgarsvæðinu. Í pésanum eru Íslendingar hvattir til að minnast „víkingaeðlis“ síns og láta ekki „skrílmenningu“ kommúnista eyðileggja heiður þjóðarinnar.

 

Ekki er farið sparlega með stóru orðin. Kommúnisminn er sagður gera „menn að villidýrum, sem eingöngu þjóna dýrslegum fýsnum sínum, og að andlegum og líkamlegum aumingjum“. Íslendingar eru sagðir „afkomendur norrænu víkinganna sem gættu heiðurs og drengskapar framar öllu öðru,“ og skyldu ekki „ganga í lið með föðurlandssvikurum, landráðamönnum, brennuvörgum og morðingjum“.

 

Undirskriftin er einfaldlega „nokkrir ungir menn“. LEMÚRINN birtir hér skeytið á textasniði:

 

Lestu þetta, það varðar þig og þína þjóð!

Við Íslendingar höfum nú um hríð verið áhorfendur og heyrnarvottar að hamförum Kommúnista, bæði hér á landi og út um heim, og það er fyrir löngu kominn tími til þess, að taka afstöðu gagnvart þessari bölvuðu stefnu og fylkja sér saman um að útrýma henni.

 

Kommúnisminn er stefna niðurrifs og eyðileggingar á öllu því, sem göfugt er og gott.  Undir grímu kærleikans spýr hún banvænu eitri inn í sálir manna, og spilar á lægstu tilfinningar þeirra, elur hjá þeim hatur og öfundsýki, rífur niður alt [sic] sem heitir þjóðerni, föðurlandsást, trúarbrögð og siðgæði, og gjörir menn að villidýrum, sem eingöngu þjóna dýrslegum fýsnum sínum, og verða að andlegum og líkamlegum aumingjum.

 

Eigum við að sitja aðgjörðalausir og láta þetta djöfulæði ná yfirráðum yfir landi voru og þjóð?

 

Eigum við, afkomendur norrænu víkinganna sem gættu heiðurs og drengskapar framar öllu öðru, að ganga í lið með föðurlandssvikurum, landráðamönnum, brennuvörgum og morðingjum!

 

Eigum við að lítilsvirða drengskap og manndáð forfeðra vorra, forsmá baráttu þjóðarinnar fyrir frelsi sínu, og vanhelga þær fórnir sem mætustu menn þjóðarinnar hafa fært henni, með því að ganga í lið lögbrjóta og óaldarseggja og vinna að eyðileggingu hennar með Kommúnistum!

 

Nei, svo framarlega sem ekki rennur fiskablóð í æðum okkar, þá skulum við æskumenn landsins sanna það, að norræna víkingseðlið lifir í okkur ennþá, og að við látum ekki Kommúnistísku skrílmenninguna fótum troða og eyðileggja verðmæti og heiður þjóðar vorrar.

 

Þess vegna, ungir Íslendingar, fylkið ykkur undir merki þeirra manna, sem vinna gegn ógnaröld Kommúnismans, og öllum eyðileggjandi áhrifum gagnvart hinni hrjáðu þjóð vorri, og sem vilja lyfta henni upp úr þeirri niðurlægingu sem hún er sokkin í.

 

Varist kommúnista og vinnið gegn þeim hvar sem er, það er skylda allra sannra Íslendinga!

 

Nokkrir ungir menn

 

Ekki tókst að finna skeytið í gagnagrunni tímarit.is en frekari rannsóknir leiddu í ljós að höfundur var Gísli Sigurbjörnsson frímerkjasali, einn af stofnendum nasistaflokksins Þjóðernishreyfingar Íslands árið 1933. Skeytið er frá sama ári. Meginstefna flokksins var megnt hatur á kommúnistum og dýrkun á öllu „íslensku“, þar á meðal víkingaarfleifð landsmanna. Þjóðernishreyfingin klofnaði 1934 og upp úr því var stofnaður Flokkur þjóðernissinna, en hann hætti að mestu störfum um 1940 og var endanlega lagður niður 1944 þegar ljóst var að Þjóðverjar myndu tapa stríðinu.

 

Verkamaðurinn, 1933

Verkamaðurinn, 19. apríl 1933.

Á sínum tíma létu íslenskir vinstrimenn þetta skeyti ekki standa ósvarað og fóru heldur ekki sparlega með stóru orðin. Í apríl 1933 árið birtist eftirfarandi grein í Verkamanninum, dagblaði Verkalýðssambands Norðurlands, þar sem auðborgarastéttin er sögð vera að „sjúga síðasta blóðdropann úr þrautpíndri alþýðu“.

 

Lygin og rógurinn eru handhægt vopn í hendi misindismanna, og borgararnir grípa líka til þess. Lífakkeri þeirra hefir verið um aldaraðir fáfræðin, henni viðhalda þeir og krydda með upplognum svívirðingum um menn og málefni. Gegn verklýðsstéttinni beina þeir skeytum sínum, eitruðum örvum rógs og illkvitni.

 

Eitt slíkt skeyti hefir verið sent út um byggðir landsins nú um páskana. Hér í bænum var því dreift út til »sanntrúaðra« sálna á páskadagskvöldið — því ræður prestsins á skírdag og páskadaginn hafa ekki þótt nógu eitriblandnar og skyldi þetta því vera þeim til uppbótar.

 

Skeyti þetta er svohljóðandi:

 

… [Sjá að ofan] …

 

Undir þetta er svo sett »Nokkrir ungir menn«. Hvílíkir »manndáða- og drengskaparmenn«!!!

 

Hið óslökkvandi hatur auðborgaranna til verklýðshreyfingarinnar og kommúnismans, skín út úr hverri línu, en þess hefir ekki verið gætt að hverri línu má snúa upp á þá sjálfa. Setjið orðið »kapítalisminn« í stað orðsins »kommúnisminn« í upphaf fyrstu línu annarar málsgreinar (kapítalisminn er stefna…) og þá verður hvert orð greinarinnar að sannleika.

 

Verkalýðurinn er vissulega ákveðinn í því að sitja ekki aðgerðalaus hjá meðan auðborgararnir eru að búa sig undir að sjúga síðasta blóðdropann úr þrautpíndri alþýðu til lands og sjávar.

 

Auðborgararnir, »afkomendur norrænu víkinganna«, ræningjanna, manndráparanna, sem herjuðu saklaus lönd sér til fjár þurfa ekki að ganga í lið með »föðurlandssvikurum« því þeir eru sjálfir föðurlandssvikarar, landráðamenn (norsku samningarnir o. fl.). Þeir, auðborgararnir, hafa fundið það á sér, að brennuvargarnir frá Siglufirði myndu vera komnir heim og þessvegna hafa þeir viljað fagna þeim með fáum orðum.

 

Hverjir eru það, sem reynt hafa að stofna til manndrápa hér á landi? Hverjir aðrir en burgeisarnir (morðtilraunin við ísl. Högnason, lögregluárásin 9. nóv. í Rvík, skotin á Akureyri og herútboðið þar). Þeir hafa heiðurinn!! einnig af því.

 

Hverjir »forsmá baráttu þjóðarinnar fyrir frelsi sínu« meir en auðborgararnir? Hverjir hafa oftar gert tilraunir til að selja frelsi þjóðarinnar fyrir einhvern lítilfjörlegan einkahagnað ? Hvérjir aðrir en auðborgararnir hafa hvað eftir annað gert tilraunir til að berja niður með ofbeldi frelsísþrá þjóðarinnar? Engir, allsengir. Hinar peningagráðugu sárfáu hræður, sem allan hag hafa af að kúga og arðsjúga mikinn meirihluta þjóðarinnar og hafa til þess liðstyrk keyptra leiguþræla og hópa stéttviltra auðnuleysingja, sem í blindni og vanþekkingu trúa á hróp þeirra og óhljóð, hefja nú skipulagsbundna árás á vetklýðshreyflnguna er þeir kalla kommúnisma og vona að það nafn sé enn grýla í augum alls fjölda meðal þjóðarinnar.

 

En þeir munu reka sig á að svo er ekki. Mikill fjöldi sér og skilur hina kapítalistísku »skrílmenningu« og snýr við henni bakinu og fylkir sér undir merki verkalýðsins, merki kommúnismans.

 

Neyðaróp hinna fallandi auðborgara verður aðeins heyrt af leigutólum þeirra og verður innan skamms að ámáttlegu útburðarvæli.

 

Verkamenn og konur! Fylkið ykkur þétt saman gegn árásum auðborgaranna á lífskjör ykkar.