Argentínumaðurinn Jorge Luis Borges var einn áhrifamesti rithöfundur tuttugustu aldar. Hann var gríðarlegur lestrarhestur og lýsti sjálfum sér sem lesanda fremur en höfundi. Borges var fjölfræðingur, þekkti sögu og bókmenntir fjarlægra landa.

 

Hann heillaðist snemma af Íslendingasögunum og varð fyrir miklum áhrifum af þeim. Af þeim sökum ferðaðist Borges nokkrum sinnum til Íslands á áttunda áratugnum. Á þeim árum var Borges, sem var fæddur 1899, orðinn blindur vegna arfgengs sjúkdóms.

 

„Borges vildi fara á Þingvöll, vegna þess, að í hans augum var hann táknrænn fyrir bókmenntirnar og skáldskapargáfu Íslendinga. Borges fannst mikið um, að landnámsmennirnir skyldu hafa flúið sín fyrri heimkynni til að geta verið þeir sjálfir, hann dáði þá fyrir menningu þeirra og ást á sögum og ljóðum,“ sagði María Kodama, eiginkona hans, síðar.

 

Hér er mynd af þeim hjónum með Sveinbirni Beinteinssyni allsherjargoða Ásatrúarfélagsins. Óvíst er hvaða tungumál þau notuðu í samræðum við Sveinbjörn en hann sagðist ekkert tungumál tala nema borgfirsku. Reyndar stunduðu Borges og Kodama forníslenskugrúsk og kannski gátu þau skrafað við goða.

 

borgeskodamasveinbjorn

 

 

Borges gisti á Hótel Esju og í bókinni Atlas, sem fjallar um ýmis ferðalög skáldsins, er örsaga sem heitir einfaldlega Hótel Esja, Reykjavík. Lemúrinn þýddi söguna svona:

 

 

Hótel Esja, Reykjavík

 

Á vegferðinni um lífið verða stundum einfaldir atburðir sem geta verið sem náðargjöf. Ég var nýkominn á hótelið. Ég kannaði ókunnugt herbergið sem mér hafði verið úthlutað, staddur í miðri bjartri þokunni sem aðeins augu blindra sjá. Þegar ég þreifaði á veggjunum, sem voru örlítið hrjúfir, og fetaði mig í kringum húsgögnin, uppgötvaði ég stóra og hringlaga súlu. Hún var svo þykk að ég gat varla náð utan um hana með útréttum handleggjum og það var erfitt að spenna greipar utan um hana. Ég vissi strax að hún var hvít. Hún var stór og sterk og náði upp í loftið.

 

Í nokkrar sekúndur þekkti ég þessa forvitnilegu hamingju sem maðurinn hefur af þeim hlutum sem eru í ætt við frumgerð alls sem er.

 

Nú veit ég fyrir víst að á þessu augnabliki endurheimti ég sæluna gömlu sem ég fann þegar ég kynntist fyrst hreinum formum í rúmfræði Evklíðs: sívalningnum, teningnum, kúlunni og píramídanum.

 

borgessula

Borges og súlan. Mynd sem fylgir textanum í bókinni.

 

Ljósmyndin efst birtist í Morgunblaðinu. Lesið grein Matthíasar Johannessen um kynni hans af skáldinu.